Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir listakona skapar hugrænar upplifanir.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir listakona skapar hugrænar upplifanir.
Mynd / SP
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast annars staðar á landinu þó farið upp og ofan, en mönnum ávallt hugleikið. Bókin Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson frá árinu 1979 lýsir vel stórbrotinni veðráttunni, allt frá ofsaveðrum sem geisa, yfir í lygnan blíðskapardag. Er bók Þórðar tileinkuð fólkinu hans, þeim sem kenndu honum íslenska tungu.

Listakonan og prestsdóttirin Jóna Hlíf Halldórsdóttir sleit barnsskónum á bænum Holti undir Eyjafjöllum og skyldi því engan undra að ofsi og umbrot veðursins hafi skotið rótum í hjarta hennar og tendrað þar sköpunarkraftinn sem síðar átti eftir að láta á sér bæra.

Lá leiðin í The Glasgow School of Art í Skotlandi þar sem Jóna útskrifaðist með MFAgráðu árið 2007, auk þess sem hún hlaut meistaragráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands árið 2013. Verk Jónu einkennast af bæði grafískum og hugrænum upplifunum en hún vinnur með mismunandi miðla; pappír, ljósmyndir, myndband, skúlptúra og innsetningar. Notkun rýmis og lýsingar á stóran þátt í verkum Jónu, sem með notkun texta gefur þeim sem njóta, sterk hughrif/upplifun eiginlegrar innri hugvekju. Þessa dagana stendur hún fyrir sýningunni Verða varð urðum orðið í Neskirkju sem samanstendur af völdum textaverkum undanfarinna ára, orðum sterkra upplifana. „Ég var mjög spennt þegar mér barst boð um að halda sýningu hérna í Neskirkju, segir Jóna. „Pabbi minn var prestur til margra ára undir Eyjafjöllum og tengingin því sterk. Ég vinn mjög mikið með samfélagið og íslenskuna sem tungumál og fannst spennandi að verkin mín fengju hér rými því kirkjan fjallar svo mikið um samfélag.

Titill sýningarinnar kom nær strax til mín, Orðið. Þetta er mjög sterk tenging bæði við kirkjuna – Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði – og svo hughrif íslenskrar tungu sem ég vinn hvað mest með. Orðið getur einnig haft þá merkingu að þýða það sem var og það sem verður, og þarna sýni ég gömul verk í nýju samhengi sem er mjög skemmtileg tenging. Sýningin heitir Verða varð urðum orðið og ég valdi verk sem ég hef sýnt síðastliðin tvö ár. Verkin á álplötunni eru bein tenging í veðurfar sem ég rek beint í mín æskuár undir Eyjafjöllunum enda veðrið mér mjög hugleikið. Jón afi minn er mér minnisstæður í þessum efnum, hlustaði aldrei á veðurfréttir en var hins vegar sannspár veðurfræðingur. Það var nóg fyrir hann að líta til himins og hann hafði alltaf rétt fyrir sér.“

Setning úr gömlum veðurannál, nú skorin út í ál og pólýhúðuð.
Veðurbækur og annálar

Jóna segir frá því að fólk í sveitinni hennar hafi áður fyrr haldið veðurbækur yfir tugi ára sem svo hann Þórður heitinn í Skógum (Tómasson) fékk gefins. „Hann gaf í kjölfarið út æðislega bók með þessum upplýsingum. Það er ótrúlegt hvað við Íslendingar eigum mörg orð yfir veður og hvað þau orð eru falleg. Tungumálið okkar er einstakt og t.a.m. eigum við yfir 100 orð yfir snjókomu á meðan á enskunni er nánast bara eitt, snow,“ segir Jóna hlæjandi. „Ég hef unnið með hugtakið veður í mörg ár núna enda tengi ég svo sterkt við upplifun mína sem barn.“

Jóna minnist ævintýralegs ofsaveðurs í æsku þar sem traktorinn á bænum fauk marga metra, brakaði og gnast í húsum auk þess sem rafmagnsleysi gat staðið yfir í viku.

Lygna var þó yfir þeim árum sem Jóna var búsett á Akureyri, en hún hélt þar m.a. sýninguna Vetrarlogn í desember árið 2021 og segir hún þann titil vera Akureyri fyrir sér, snjór yfir öllu, blankalogn og akkúrat öfugt við Eyjafjöllin þar sem ofsinn er meiri.

„Ég fór að skoða gamla annála,“ heldur Jóna áfram. „Þar má finna, í flestum tilvikum, stuttorðar lýsingar á veðurfari, á borð við setninguna:

„Þá braut veður knörr undir Eyjafjöllum. Tók upp Holtavatn og bar allt í brott. Þetta var kallað undraár.“

Þetta er falleg setning sem ég ákvað að skorin yrði út í ál og pólýhúðuð því mér fannst svo geggjuð tilhugsun að verkið gæti staðið úti. Væri varanlegt. Jökulvetur hinn mikli. Hafísar allt sumar. Þessi setning er annað dæmi sem verkar sterkt á mig. Eitthvað sem gerðist í fortíðinni og getur vel gerst í framtíðinni ef Golfstraumurinn hverfur og við umlukin hafís á sumrin. Þarna tengjast fortíð og framtíð. Eitthvað sem var en verður.“

Tenging landshluta við list

„Hvað varðar ástríðu mína á íslenskunni þá er hún mér hugleikin því ég tel hana á sinn hátt hverfandi í dag. Auðvitað teljum við íslenskuna alltaf verða til, en hún er breytingum háð og að mér finnst heldur meira en áður. Ég hygg mikilvægt að vinna með arfinn okkar, tungumálið og gefa gömlum orðum vægi á ný. Við höfum svo góðan orðaforða og mættum nota meira af þeim fallegu orðum sem til eru þó auðvitað nýtist okkur þau kannski ekki öll í dag líkt og áður því samfélagið hefur breyst. En við skulum ekki gleyma þeim.“

Hluti sýningarinnar eru verk sérstaklega ætluð Siglufirði þar sem Jóna sýndi fyrir um ári síðan.

„Í þeim er tíminn mér hugleikinn og tenging fjarða og jökla mjög sterk. Áhrif jökuls á myndun fjarða og sá tími sem líður á meðan umbrot jarðar á sér stað. Jöklar bráðna og steinar verða að sandkornum. Í verkum Siglufjarðar eru því sandkorn í bland við textann, en þar kaus ég að velja sem fæst orð sem samt ættu að lýsa einhverju risastóru. Útkoman varð sterk sjónræn upplifun þegar textinn er lesinn. Sem dæmi „Fyrstu sólardagar eftir flóðið“ og „Laufblöð meitluð í stein“ – við veltum fyrir okkur hversu mörg ár það tekur fegurð steingervingsins að myndast,“ segir Jóna. Hún vinnur að eigin sögn í raun öfugt við flesta myndlistarmenn sem margir kjósa að vinna með liti og þrívídd á meðan hún skapar tilefni til þess að virkja hugarflug þeirra sem njóta listar hennar – velta orðalagi og setningum vel fyrir sér.

„Auðvitað eru sumir hrifnæmari en aðrir og unna íslenskri tungu fremur en aðrir,“ segir Jóna. „Þetta er oft fólk sem hefur gaman af ljóðum eða að grúfa sig niður í frásagnir, sögur og ævintýr. Mér þykir svo mikilvægt að vinna með þennan miðil og hef gert það í hartnær 20 ár. Stórbrotin, áhrifamikil orð og setningar er eitthvað sem ég leita alveg uppi, fell fyrir og vil leyfa öðrum að njóta að sama skapi.“

Af jörðu ertu kominn

Jóna bendir á horn sýningarinnar þar sem verkin eiga sameiginlegt öll orð þess efnis að lifa af, en henni telst til að í íslenskri tungu séu þau þrettán talsins. Skrimta, lafa tóra, steyra og svo má áfram telja, segir hún.

„Reyndar eigum við mun fleiri orð yfir það að deyja, eða um fjörutíu talsins, sem gefur til kynna hversu sterkur þáttur dauðinn er í tilveru íslensku þjóðarinnar gegnum tíðina. Það er svo stutt síðan að fólk vissi ekki hvort það lifði eða dó. Einnig er svo áhugavert að þegar þessi verk eru komin hingað í kirkjuna þá gefur það þeim enn dýpra vægi. Dramatískara en fallegra þar sem við tökum á móti sorginni innan veggja helgidómsins.“

Skúlptúrar eru mikilvægir Jónu sem tenging við textaverkin og má sjá bæði steingervinga og þurrkaðar plöntur, enda náttúran uppspretta allra hennar hugmynda. „Það er svo mikilvægt, líkt og með tungumálið, að halda vægi náttúrunnar á lofti því hvort tveggja er á sinn hátt hverfandi ef við gætum ekki vel að,“ lýkur Jóna máli sínu.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...