Íslenskir garðar skipta máli
Garðrækt hófst ekki á Íslandi fyrr en um miðja 18. öldina. Ein elsta frásögn af ræktun er varðveitt í ljóðinu Lysthúskvæði eftir Eggert Ólafsson (1726–1768) frá um 1764. Eggert orti þá langan bálk, sem enn er sunginn, og lýsir tilraun séra Björns í Sauðlauksdal (1724 –1794) að gera sér garð.
Ekki síður er sungið um ánægju þeirra mága að njóta síðkvelda í lysthúsinu sem þeir byggðu í miðjum kartöflugarðinum við fuglasöng og blómaangan.
Í einu erindi Lysthúskvæðisins segir:
Laufa byggja skyldi skála,
skemmtiliga sniðka og mála,
í lystigarði ljúfra kála,
lítil skríkja var þar hjá,
– fagurt galaði fuglinn sá –
týrar þá við timbri rjála
á tólasmíða fundi.
– Listamaðurinn lengi þar við undi.
Garðar
Gamlir íslenskir garðar segja mikla og mikilvæga menningar- og ræktunarsögu. Þeir skipta máli í byggðarlagi sínu, fyrir alla landsmenn og sumir á heimsvísu. Þeir gegna merkilegu hlutverki í samfélaginu sem dvalarstaðir, gróðurvinjar og ferðamannastaðir.
Garðar hafa sérstöðu sem menningarminjar, þeir eru annars vegar manngerður staður og hins vegar ræktuð náttúra. Sem lífríki skilja þeir sig skýrt frá öðrum menningarminjum vegna þess að þeir eru í stöðugri þróun og vexti, stjórnað að miklu leyti af náttúruöflunum.
Garður á sér sömu orðmynd í skyldum indóevrópskum tungu- málum. Orðstofninn er sá sami í norrænu tungumálunum, á færeysku; garður, á nýnorsku; gar, á sænsku og dönsku; gård.
Garður, hinn umlukti garður, er á latínu; hortus, á ensku; garden, yard, á ítölsku; giardino, frönsku; jardin, þýsku; garten. Have/hage da/no er af sama stofni og íslenska orðið hagi.
Orðið Paradís, nafnið á aldingarðinum Eden, er komið úr fornpersnesku, „pairidaëza“ og merkir umgirtur garður. Síðasti liður orðsins, „daëza“, er skylt íslenska orðinu „deig“ á íslensku og merkir vísast upphaflega „leirlímdur garðveggur“.
Garðurinn, sem dvalar- og athafnasvæði, á margt sameiginlegt á heimsvísu þótt á ólíkum stöðum sé, hvort heldur hann er í Japan, Ítalíu, Danmörku eða Íslandi. Mismunurinn felst í ytri aðstæðum, veðurfari, landslagi og þjóðfélagsgerð. Garðurinn, eða hið manngerða ytra umhverfi, verður myndbirting þess lífsstíls eða draums sem einstaklingur, samfélag eða jafnvel þjóð hefur. Upprunalegt hlutverk garðsins sem ræktunareits hefur breyst með tímanum. Einkagarður verður almenningsgarður. Kirkjugarður fyllist og hefur þá sögulegt gildi auk gildis síns sem almenningsgarður. Eignarhald og rekstrarform garða breytist og um leið og skipulagi er breytt getur hlutverk garðsins orðið annað.
Hvorki byggingarlist né garðgerðalist á Íslandi skartar glæsilegum verkum ámóta þeim sem sjá má í nágrannalöndunum. Hér skortir þó ekki einstaka perlur, sem oftar en ekki taka ljóma sinn af hinum sérstæðu og erfiðu aðstæðum sem við hér á landi búum við. Því er afar mikilvægt að veita íslenskri garðsögu og garðminjum athygli og virðingu sem hluta af menningarsögulegum arfi íslensku þjóðarinnar
Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, hefur um árabil staðið að upplýsingaöflun um sögu og verndun garða og opinna svæða á Íslandi. Styrkur úr Fornminjasjóði gerði kleift að taka saman greinargerð og halda málþing vorið 2019 þar sem kynnt var greinargerð um þessar „lifandi minjar“. Greinargerðin ásamt tillögum að friðun má finna á vef Minjastofnunar.
Við skráningu gamalla garða þarf að spyrja eftirfarandi spurninga:
• Af hverju?
• Hvað?
• Hvernig?
1. Hvað er gamall garður?
Hvað eru lifandi minjar og hvað er fastur búnaður í görðum? Hvað mótar garðinn? Hönnun garða og mótun lands er samspil menningar og náttúru. Aðstæður á Íslandi eru um margt öðruvísi en hjá nágrannaþjóðum okkar. Engu að síður eru erlend áhrif greinileg.
Hver er aldur garða? Við hvað er miðað? Garðar lúta ekki sömu lögmálum og byggingar hvað byggingaeftirlit varðar. Mótun lands og garðs er langt ferli og gróðurinn er síbreytilegur með afmarkaðan líftíma. Einkenni garðsögunnar allt frá 19. öld og til ársins í dag eru hluti af okkar menningarsögu.
2. Hvernig er lagaramminn?
Lagarammi vegna friðlýsingar gamalla garða er til staðar. Lög um menningarminjar nr. 80/2012 nýtist vel við friðun og varðveislu lifandi minja með nokkrum breytingum. Samkvæmt lögunum er talað um mismunandi vernd minja. „Friðun felur í sér sjálfkrafa verndun fornminja, húsa og mannvirkja á grundvelli aldurs þeirra.“ Miðast þá við 100 ár. „Friðlýsing fornleifa, húsa og mannvirkja getur falið í sér kvöð sem þinglýst er á fasteign og hefur þann tilgang að tryggja sem best varðveislu menningarminja.“ Í samantekt FÍLA, er bent á nauðsynlegar breyting á „Lögum um menningarminjar nr. 80/2012“.
3. Hvað gera aðrar þjóðir?
Hjá nágrannaþjóðum okkar er lögð áhersla á verndun/friðun og umhirðu gamalla garða, ekki síst með áherslu á sérhæfða menntun og þekkingu innan garðyrkju og hönnunar.Til hliðsjónar við þau störf hefur hin svokallaða Florens samþykkt (Icomos- IFLA 1981 (The Florence Charter) verið höfð sem leiðarljós. Því er nauðsynlegt að bæta og efla fagþekkingu til að sinna svo sérhæfðu verkefni hér hjá okkur.
4. Hvað með stakstæð tré?
Verndunar stakra trjáa eða sérstaks gróðurs í görðum er hvergi getið í lögum og má því segja að verndarhæf tré og trjálundir sem menningarsaga og ræktunarsaga séu því algjörlega ,,réttlaus“ og oft á valdi skammtímahugsunar.
5. Stóra spurningin er síðan hvað á að vernda og hvernig?
Hvernig – hvaða aðferðafræði? Friðun/verndun garða og svæða þarf að byggja á samræmdri og viðurkenndri aðferðafræði við skráningu þeirra á svipaðan hátt og við framkvæmd húsakönnunar, auk þeirra þátta er taka á lifandi minjum garðsins. Huga þarf að samræmdu flokkunarkerfi þar sem umhverfi húss og byggingar séu saman í heildarmati.
Í áðurnefndri greinargerð FÍLA eru tillögur að aðferðafræði við skráningu og mat á görðum.
Enn fremur er mikilvægt að endurgerð og umhirða sé gerð af faglegri þekkingu og reynslu á sviði garðyrkju og að endurplöntun gróðurs, fastur búnaður, hleðslur og stéttir séu í samræmi við tímabil garðsins.
Tillögur að 10 friðlýsingum gamalla garða
Í þessari grein má sjá tillögur að 10 friðlýsingum gamalla garða. Rökstuðningur með friðlýsingartillögum byggir á tillögum Garðsöguhóps FÍLA í samstarfi við Pétur Ármannsson, arkitekts hjá Minjastofnun.
1. Skriða í Hörgárdal
Garðurinn að Skriðu í Hörgárdal telst vera elsti núverandi trjágarður við heimili á Íslandi. Þorlákur Hallgrímsson og synir hans, Björn og Jón Kjærnested, gróðursettu í hann um 1825 ilmreyni, sem enn er í garðinum og er talinn eitt elsta gróðursetta tré á Íslandi.
2. Hólavallagarður í Reykjavík
Hólavallagarður endurspeglar á einstakan hátt skipulagssögu og uppbyggingu kirkjugarða. Byrjað var að grafa í garðinum 1838 og var skipulag Víkurgarðs þá haft að fyrirmynd. Síðar breyttist skipulag grafa og götur mynduðust milli grafaraða. Önnur meginrök fyrir því að friðlýsa garðinn eru þau að í honum hefur varðveist eitt merkasta og heillegasta safn af minningarmörkum á Íslandi.
3. Alþingisgarðurinn 1893-95
Alþingisgarðurinn er elsti og best varðveitti almennings- garður við opinbera byggingu á Íslandi. Hann markar tímamót í íslenskri garðsögu þar sem hann er fyrsti garðurinn sem var hannaður áður en framkvæmdir við hann hófust.
4. Skrúður á Núpi í Dýrafirði 1909
Skrúður er einstakt framtak og hugarsmíð séra Sigtryggs Guðlaugssonar sem síðar naut dyggrar aðstoðar konu sinnar, Hjaltalínu M. Guðjónsdóttur. Skrúður á sér merkilega sögu, m.a. sem fyrsti kennslugarðurinn löngu áður en slíkar hugmyndir höfðu skotið rótum.
Árið 2013 hlaut Skrúður virt alþjóðleg verðlaun, International Carlo Scarpa Prize for Gardens, sem ítölsk stofnun, Fondazione Benetton Studi Ricerche, veitir á hverju ári.
5. Lystigarður Akureyrar, elsti hlutinn 1912
Lystigarður Akureyrar er á svonefndri suðurbrekku sunnan við aðalbyggingu Menntaskólans á Akureyri. Gerð hans hófst árið 1909 og var hann byggður í áföngum. Garðurinn er afrek akureyskra kvenna sem voru í fararbroddi um mótun hans frá fyrstu tíð. Framfarahugur aldamótaáranna endurspeglast í gerð hans.
6. Hellisgerði í Hafnarfirði 1922
Hellisgerði hefur fágætisgildi á heimsvísu sem almenningsgarður á norðlægum slóðum sem vaxinn er upp úr fjölbreyttu hraunlagslagi sem er helsta sérkenni bæjarstæðis Hafnarfjarðar. Botninn í garðinum er mjög mishæðóttur með djúpum hraunbollum og háum hólum. Garðurinn var frá fyrstu tíð mótaður eftir sérkennum landsins.
7. Skallagrímsgarður í Borgarnesi 1930
Skallagrímsgarður hefur sett svip á miðbæ Borgarness frá því um 1930. Garðurinn er eitt af kennileitum staðarins. Kröftugur trjágróður umlykur grasflatir sem halla til norðurs í átt til sjávar. Göngustígar liggja með jöðrum garðsins umhverfis grasflatir undir miklu laufþaki hávaxinna trjáa. Upphaflega samstarf kvenfélags og ungmennafélags.
8. Hallargarðurinn við Fríkirkjuveg 1954
Hallargarðurinn við Fríkirkjuveg í Reykjavík er fyrsti almenningsgarður á Íslandi sem skipulagður er í anda módernisma eftirstríðsáranna þar sem áherslan er á ávalar línur og lífræn náttúruform. Garðurinn var fyrsta stóra verkefni Jóns H. Björnssonar, fyrsta íslenska landslagsarkitektsins.
9. Grafreitur í Gufunesi 1970
Á 7. áratug 20. aldar komu í ljós leifar af gömlum kirkjugarði þegar grafið var fyrir nýrri skemmu á lóð Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi. Ákveðið var að flytja beinin og grafa í lítinn, vígðan reit, sem gerður var skammt frá fundarstaðnum. Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt hannaði og sækir innblástur í forna íslenska kirkjugarðahefð.
10. Lóð Þjóðabókhlöðunnar
Á 7. og 8. áratug 20. aldar vann Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt með mörgum helstu arkitektum landsins að hönnun lóða við einkaheimili og opinberar stofnanir. Einkennandi fyrir þessi verk er hversu vel bygging og lóð styðja hvort annað og mynda eina órofa heild jafnt í efnisnotkun og rýmisskipan.
Tveir garðar hafa þegar verið friðlýstir skv. lögum:
Múlakot í Fljótshlíð
Friðlýstur 2014. Friðlýsingin tekur til staðarins í heild innan afmarkaðs svæðis, gamla íbúðar- og gistihússins og annarra uppistandandi staðarhúsa, rústa útihúsa og annarra fornminja, garðsins framan við húsið og lysthússins í garðinum. Múlakot hefur sérstakt menningarsögulegt gildi sem einn elsti gisti- og greiðasölustaður héraðsins sem jafnframt var sveitaheimili og aðsetur listamannsins Ólafs Túbals. Heimilisgarðurinn, garður Guðbjargar, varpaði sérstökum ljóma yfir staðinn. Staðurinn hefur sérstaka tengingu við íslenska listasögu en nokkrir af helstu myndlistarmönnum landsisn voru þar fastagestir ár
eftir ár.
Skrúðgarður á Hvanneyri 1912
Þar er að finna Frúargarð, eða skólagarðinn, á Hvanneyri frá árinu 1912. Friðlýstur í júlí 2015 með Hvanneyrartorfunni svokölluðu. Gamla bæjartorfan á Hvanneyri er merkilegt búsetulandslag með mikið menningarsögulegt gildi. Sem slík býr hún yfir sérstökum umhverfisgæðum sem óvíða eru til staðar í dreifbýli hér á landi, sem m.a. felast í samspili búsetuminja og merkra bygginga við ákveðnar landslagsheildir.
Vernd garðagóðurs
Stakstætt tré: Trjárækt á sér ekki aldagamla sögu. Það má segja að elstu tilraunir sem vitað er af skipulagðri trjárækt í görðum eru senn 200 ára gamlar. Trjárækt var hins vegar ekki almenn fyrr en undir aldamótin 1900. Það er hins vegar staðreynd að stakstætt tré getur verið menningarsögulegur vitnisburður um horfinn garð og brotin mannvirki undir gróðurhulu. Sem slíkt getur það staðið sem fulltrúi hugsjóna og gilda ákveðins tímabils í menningarsögu og ræktunarsögu landsins og verið þess virði að vernda.
Þegar talað er um tré er átt við trjákennda plöntu sem verður 3 m á hæð eða meira, er með einn stofn en greinist síðan í nokkurri hæð frá jörðu og myndar þar greinar sem saman kallast króna. Víða eru dæmi um gömul tré og reynslan sýnir að brýnt er að leita leiða til að vernda einstök tré og gróðurlundi vegna sögulegs og líffræðilegs gildis þeirra og að sú vernd sé lagalega trygg.
Varðandi tré eins og hlyninn í Vonarstræti má velta upp spurningunni í hverju vernd sveitarfélagsins felst og hvernig er stoð í lögum? Enn fremur er eftirtektarvert að þarna er girðing til varnar stofninum á trénu á yfirborðinu en önnur verndun er snýr að jarðvegi og rótarkerfi er ekki sýnileg og er jafnvel mikilvægari til þess að tryggja lífvænleg lífsskilyrði.
Hlynurinn í Suðurgötu er vitnisburður um lifandi minjar, lóð og hús sem eitt sinn stóðu þar en nú er allt horfið nema hlynurinn.
Runnar: Runnar er planta með marga trjákennda stöngla frá jörðu. Algengar runnar eru margs konar berjarunnar sem bárust til landsins í garða um miðja 19. öldina.
Fjölærar plöntur: Fjölærar blómplöntur búa yfir mikilli fjölbreytni og árstíðabundnum breytileika.Fegurðargildi þeirra er fólgið í margbreytileika blóma og laufblaða. Þær blómstra árlega, vaxa upp að vori og visna yfirleit að hausti. Sumar tegundir eru þó vetrargrænar eða standa fram á vetur í einhverri mynd.
Lokaorð
Með þessu stutta yfirliti um garða – lifandi minjar hvetjum við alla sem koma að umhverfismálum sveitarfélaga að vera vakandi fyrir þeim menningararfi sem víða er
að finna í heimabyggð og standa vörð um verndun og faglega umhirðu þeirra.
Höfundar eru landslags-arkitektar FÍLA.
Auður kenndi við skrúðgarðyrkjubraut Garðyrkjuskóla ríkisins og er fyrrv. dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Einar er höfundur bókarinnar Að búa til ofur lítinn skemmtigarð. Íslensk garðsaga – Landslagsarkitektúr til gagns og prýði.
Bæði hafa unnið með Garðsöguhópi FÍLA.