Jóla- og handverksmarkaðurinn í Heiðmörk
Höfundur: smh
Jólamarkaður Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk við Elliðavatn verður opinn í síðasta skiptið fyrir jól um næstu helgi frá klukkan tólf til fimm, báða dagana.
Markaðurinn er haldinn ár hvert af Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Þar myndast iðulega ljúf jólastemning og heimsókn á markaðinn er orðin ómissandi hluti af aðventuhefðinni hjá mörgum fjölskyldum.
Jólamarkaðurinn er haldinn í Elliðavatnsbænum og við hann í Heiðmörk og mynda skógurinn og vatnið sannkallaða vetrarparadís, sem gestir geta notið þess að ganga um. Að sögn Söru Riel hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur er jólaskógurinn á Hólmsheiði þar sem fólk getur fundið og sagað sitt jólatré sjálft. Á staðnum eru sagir sem viðskiptavinir fá afnot af og skógarhöggsmenn aðstoða gesti við að finna jólatré og pakka þeim inn í net. Það kostar jafn mikið að höggva sitt eigið tré og að kaupa þau sem eru þegar hoggin, en þau eru til sölu bæði við Elliðavatnsbæinn og á Hólmsheiði.
„Skógræktarfélag Reykjavíkur selur að sjálfsögðu íslensk jólatré af ýmsum gerðum, en fyrir hvert keypt tré eru 50 ný gróðursett. Auk þess verða mismunandi vörur úr skóginum í boði. Öll trén eru af löndum sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur umsjón með; Heiðmörk, Hólmsheiði og Reynivellir.
Furan er sú tegund sem við seljum mest af en það fer þó jafnt og þétt af öllum tegundum.
Einnig má benda á að við höfum á þriðja ár selt tré sem við köllum „Einstök tré“. Þetta eru tré sem eru furðuleg í laginu, hafa marga toppa eða eru á einhvern hátt óvenjuleg,“ segir Sara.
Verð á trjám er á bilinu frá 5.000 krónum (0–1 metri) til 16.000 króna (2,5–3 metrar), eldiviður kostar 2.500 kr. og greinabúnt 1.500 kr.
Jóla- og handverksmarkaður
„Skógræktarfélag Reykjavíkur heldur utan um handverksmarkað þar sem sérstök áhersla er lögð á einstakt handverk, unnið úr náttúrulegum efnum, auk þess sem mat- og snyrtivara er þar til sölu,“ segir Sara og hvetur fólk til að fylgjast með viðburðasíðu Heiðmerkur á Facebook, þar sem úrvalið sé mismunandi eftir helgum, nýtt fólk, nýjar vörur hverja helgi.
„Það eru þó einstaka aðilar sem eru allar helgar. Við erum með þó nokkra bása sem eru til góðgerðarmála; Zontaklúbbur Reykjavíkur, Zontaklúbburinn Embla, Fríðuhús og Tógó eru aðilar sem starfa sem góðgerðarsamtök og rennur allur ágóði til starfsemi þessarar félagasamtaka.
Vörurnar eru af ýmsu tagi, ullarvörur, keramíkvörur, handgerð kerti, útskornir munir, hnífar, gærur, brúður og bangsar, leikföng úr tré, jólavörur af ýmsu tagi, myndir, barnaföt, sultur, saft, tvíreykt hangilæri, grafið ærkjöt, grafin og reykt bleikja, sósur af ýmsu tagi, bakkelsi og svo mætti lengi telja.“
Viðamikil menningardagskrá
„Félagið rekur notalega kaffistofu þar sem lagt er upp úr því að verðlag sé hagstætt þannig að flest allir ættu að hafa ráð á að fá sér kakó eða kaffisopa og með því. Viðamikil menningardagskrá er allar helgar, bæði fyrir börn og fullorðna.
Menningardagkráin fyrir næstu helgi verður þannig að á laugardaginn 16. desember klukkan 13.00 hefst upplestur á kaffistofunni, þar sem Unnur Jökulsdóttir les upp úr bók sinni Undur Mývatns, en hún er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Klukkan 14.00 hefst Barnastund í Rjóðrinu við varðeld og les Gunnar Helgason upp úr barnabókinni Amma er best.
Jólasveinarnir munu láta sjá sig, syngja og tralla með börnunum. Klukkan 15.30 hefjast tónleikar á Kaffistofu, ætla tvíburasysturnar Gyða og Kristín Anna Valtýsdætur að syngja fyrir gesti.
Daginn eftir, á sunnudeginum 17. desember, klukkan 13.00 les Kristín Eiríksdóttir upp úr bókinni sinni Elín – ýmislegt, en hún er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Klukkan 14.00 hefst Barnastund í Rjóðrinu við varðeld og les Sigrún Eldjárn upp úr barnabókinni Áfram Sigurfljóð.
Síðan hefjast tónleikar klukkan 15.30 á Kaffistofu og munum við tilkynna það þegar nær dregur hver stígur á svið,“ segir Sara að lokum.