Kapella vígð að Stóragerði í Ölfusi
Séra Gunnar Jóhannesson og Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, vígðu þann 11. ágúst kapellu að Stóragerði í Ölfusi. Kapellan tekur tuttugu manns í sæti og verður hún opin gestum og gangandi sem vilja heimsækja hana. Altaristaflan í kapellunni er gluggi sem sýnir guðsgræna sköpunarverkið fyrir utan.
Hjónin Óskar Þór Óskarsson og Sigrún Sigurðardóttir hafa um tíma gengið með þá hugmynd í maganum að reisa kapellu á jörðinni Stóragerði í Ölfusi.
Kapellan að Stóragerði.
„Hugmyndin kom til mín á sólríkum sumarmorgni og konan tók vel í hana og við hófum framkvæmdir fyrir alvöru haustið 2017 og kapellan kláruð og fullbúin og vígð í sumar.“
Óskar segir að bygging kapellunnar sé ekki endilega trúarleg en að það hafi alltaf verið talið gott að eiga guðshús. „Fyrst eftir að hugmyndin kom upp var bygging kapellunnar áhugamál okkar hjónanna. Sumir spila golf, skera út eða fara á skíði en við ákváðum að byggja kapellu til að stytta okkur stundir eftir að við hættum að vinna.“
Hönnun kapellunnar er þeirra hjóna og ekki unnin eftir teikningu og segir Óskar að hönnunin hafi lítið sem ekkert breyst frá því að bygging hennar hófst. „Efnið í kapelluna er að mestu afgangsefni og endurunnið úr öðrum byggingum.
Hugmyndin er að kapellan verði öllum opin sem vilja koma og skoða hana eða setjast niður í ró og fara með bæn.“
Altaristaflan er úr gleri og sýnir sköpunarverkið fyrir utan.