Kirkjugarðsklúbburinn
Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Menchell, gamanleik af bestu gerð í þýðingu Elísabetar Snorradóttur.
Leikhúsgestir fá að kynnast þremur ekkjum, vinkonum sem allar hafa gengið í gegnum missi eiginmanns síns en fundið mismunandi leiðir til að takast á við þá sorg. Þær fara saman mánaðarlega í kirkjugarðinn til að vitja grafanna, og rekast einn daginn á fullorðinn ekkil. Einhverjar tilfinningar kvikna í kjölfarið sem miserfitt er að vinna úr enda spurning hvort eigi að vera sínum ektamanni trú yfir líf og dauða. Eitt er víst að lífið heldur áfram. Vinkonumar þrjár eru leiknar af þeim Hönnu Margréti Kristleifsdóttur, Sóleyju B. Axelsdóttur og Stefaníu B. Björnsdóttur. Ekkilinn leikur Jón Gunnar Axelsson og kunningjakonu þeirra leikur Margrét Eiríksdóttir undir leikstjórn Péturs Eggerz. Hefjast sýningar þann 8. mars en uppselt er á frumsýninguna. Frekari sýningar eru 10. mars klukkan 17, og svo 16. og 22. mars klukkan 20. Miðasala er í síma 8975007 og á netfanginu halaleikhopurinn.is en miðaverð er 3.500 kr.