Korkubikarinn féll í hlut nýliðans Kríu
Helgina 24.–25. ágúst sl. fór Landskeppni Smalahundafélags Íslands, SFÍ, fram að Ási í Vatnsdal í samstarfi við smalahundadeild Snata í Húnavatnssýslu.
Besta tík mótsins var valin vinningshafi A-flokks, Míla frá Hallgilsstöðum, en hún fékk einnig Tígulsbikarinn sem veittur er þeim hundi sem fær flest stig í keppninni. Besti hundur móts var Bassi frá Hríshóli sem lenti í 2. sæti í A-flokki. Nýr farandbikar, í minningu Svans H. Guðmundssonar í Dalsmynni, var veittur af Höllu Guðmundsdóttur, ekkju Svans, en hann lést árið 2022. Svanur var virkur félagi SFÍ og lagði metnað sinn í að aðstoða þá sem voru að stíga sín fyrstu skref í þjálfun BC-fjárhunda. Bikarinn, sem nefnist Korkubikar eftir bestu tík Svans, fer til þess nýliðapars sem stendur sig best á landskeppni SFÍ. Að þessu sinni var það Herdís Erlendsdóttir með tíkina Kríu frá Hjartarstöðum sem fékk afhentan Korkubikarinn.
Að þessu sinni voru 17 hundar skráðir til keppni, í þremur flokkum, og dreifðist það nokkuð jafnt á milli flokka. Veðrið var í svipuðum stíl og það hefur verið þetta sumarið, talsverð bleyta og lítið sást til sólar, en keppendur létu það ekki á sig fá enda vanir að þurfa að smala í margbreytilegum veðrum.