Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þorsteinn hefur í hartnær 40 ár stundað kynbætur á íslensku birki. Hér er hann við  rauðblaða birki sem nýtist í víxlanir.
Þorsteinn hefur í hartnær 40 ár stundað kynbætur á íslensku birki. Hér er hann við rauðblaða birki sem nýtist í víxlanir.
Mynd / ghp
Líf og starf 29. september 2021

Kynbætt rautt birkiyrki í útrás

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Á næsta ári hefst sala á rauðblaða birkiyrkinu Hekla í Finnlandi. Mun það vera í fyrsta sinn sem trjátegund kynbætt á Íslandi er tekin til ræktunar erlendis. Þorsteinn Tómasson, plöntuerfðafræðingur og fyrrverandi forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, hefur um langa tíð unnið að erfðarannsóknum og kynbótum í birki. Hann hefur ýmislegt til málanna að leggja um mikilvægi kynbóta á plöntum.

Dumbrauður litur Heklubjarkarinnar verður efalaust garðaprýði í náinni framtíð.

Síðsumars fékk tíðindakona Bændablaðsins að sötra á kaffi í garði Þorsteins og fræðast um birkikynbætur sem hann hefur stundað í hartnær 40 ár. Ástæðan var fregn sem henni barst til eyrna af útflutningi á nýju íslensku trjáyrki til Finnlands, sem henni fannst nokkuð galin. Fregnin reynist rétt en áður en Þorsteinn sagði mér frá því áréttaði hann mikilvægi plöntukynbóta og rannsókna, sem er honum hugleikið.

„Það er full ástæða til að hrósa Bændablaðinu fyrir tímabæra umræðu um hvernig staðið skuli að erfðarannsóknum og ræktun á helstu nytjaplöntum sem við byggjum landbúnað okkar á, þar með talið trjárækt. Í orðinu ræktun felast kynbætur samanber hið þrautræktaða séra Guðmundarkyn sem Bjartur í Sumarhúsum hafði svo miklar mætur á. Erfðarannsóknir og kynbætur í búpeningi landsmanna skila stöðugum og miklum árangri en hann bliknar þó í samanburði við þær hlutfallslegu hækkanir og framfarir sem við getum náð í trjárækt ef við einhendum okkur í þær. Í öðru lagi er okkur brýn nauðsyn að efla þessa starfsemi til að mæta þeim áskorunum sem felast í miklum og ögrandi breytingum sem eru að verða í ræktunarskilyrðum vegna hraðfara loftslagsbreytinga, samfara því að efla landbúnað og skógrækt sem hluta af hagvörnum landsins.“

Skógrækt er Íslendingum kær

Framan af starfsferli sínum sinnti Þorsteinn aðallega grasakynbótum og rannsóknum á byggi.

„Þegar ég kom til starfa á Rannsóknastofnun landbúnaðarins árið 1970 var kal mikið vandamál og lítið úthald sáðgrasa í túnum bænda. Þannig beindist athyglin mest að kynbótum helstu grastegunda og frærækt þeirra í upphafi en síðar efldist kornræktin og nauðsynlegar kynbætur á byggi. Árið 1985 urðu þau vatnaskil á mínum starfsferli að ég gerðist forstjóri RALA en áhuginn á faginu svo og áhuginn á skógrækt urðu snar þáttur í frístundastarfi mínu. Skógræktaráhugi virðist reyndar vera nánast innbyggður í Íslendinga þar sem liðlega 80% þjóðarinnar styður aukna skógrækt. Uppbygging ungmennafélaga í upphafi síðustu aldar og aðkoma hreyfingarinnar að ræktun lands og lýðs ásamt hvatningu stórskálda þjóðarinnar og leiðtoga eiga sinn þátt í þeirri stöðu.“

Hér má sjá fjögur systkini, kynbótaplöntur. Móðirin er svonefnt hengibirki sem er mun öflugra tré en ilmbjörkin og faðirinn er Hekla. Blendingsþróttur er mikill, hæðin um 170 cm frá sáningu í mars síðastliðnum.

Hann sá tækifæri í því að efla erfðarannsóknir og kynbótastarf á birki sem fyrirmynd gagnvart öðrum tegundum.

„Margar ástæður liggja til þess. Birkið er eina trjátegundin sem myndar samfellt skóglendi á Íslandi. Landið býður upp á margvíslega sérstöðu til ræktunar miðað við flest þau svæði þar sem við sækjum erfðaefni af öðrum trjátegundum svo sem varðandi jarðvegsgerð, veðurfar og nýtingu svo eitthvað sé nefnt. Birki er einnig að finna á langflestum þessara sömu svæða þannig að niðurstöður rannsókna á því gætu orðið leiðbeinandi um þær tegundir. Að auki má nefna að birki er mjög breytilegt og kynslóðabil þess stutt og því þarf ekki að bíða lengi eftir að sjá árangur af kynbótastarfi. Hugmyndin var að slíkt rannsókna- og þróunarstarf gæti veitt leiðsögn um árangur sem mætti ná í öðrum trjátegundum. Að lokum má nefna vinsældir tegundarinnar meðal Íslendinga,“ segir Þorsteinn.

Gróðurbótafélagið og tilurð yrkisins Embla

„Bjarni Helgason jarðvegsfræðingur var samstarfsmaður minn á RALA en hann lauk doktorsprófi frá háskólanum í Aberdeen. Bjarni var öflugur skógræktarmaður og efndi til margra áhugaverðra tilrauna á jörðinni Hagavík við Þingvallavatn. Við ræddum oft sameiginleg áhugamál í skógrækt og það leiddi síðar til þess að stjórn Skógræktarfélags Íslands sem Bjarni sat í óskaði eftir því að ég héldi fyrirlestur um erfðarannsóknir og kynbætur trjáa á aðalfundi félagsins að Laugum í Sælingsdal sumarið 1983. Ég valdi að gera íslenska birkið að miðlægu viðfangsefni í fyrirlestrinum.“

Fyrirlestrinum var vel tekið og í framhaldi af honum bauð stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur Þorstein til fundar í Fossvogsstöð að undirlagi Þórðar Þorbjarnarsonar borgarverkfræðings.

„Þar var rætt með hvaða hætti félagið gæti komið að útfærslu þeirra hugmynda sem ég kynnti í fyrirlestri mínum að Laugum, Þetta varð upphafið að farsælu samstarfi um ræktun kynbótatrjáa og afkvæmarannsóknir. Síðar tók félagið við rekstri vefjaræktarstofu undir stjórn Þuríðar Ingvadóttur en sú mikilvæga starfsemi er því miður ekki lengur rekin í landinu. Síðsumars árið 1985 gerist svo það að Óli Valur Hansson garðyrkjuráðunautur lagði í mikinn leiðangur til Alaska við fjórða mann til að safna erfðaefni til skógræktar, landgræðslu og garðyrkju á svæðum sem ekki hafði verið safnað á áður. Úrvinnsla úr því safni sem fjórmenningarnir komu með frá Alaska var mikið verkefni sem að mestu var unnið af stórum hópi sjálfboðaliða frá ýmsum stofnunum, félagasamtökum og fyrirtækjum. Vilhjálmur Lúðvíksson, sem á þeim tíma var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs, tók að sér að samræma starfið. Í þessum fjöruga samstarfshópi sem tók að nefna sig Gróðurbótafélagið lagði ég fram verkáætlun um kynbætur birkis.“

Afurð þess er yrkið Embla, fyrsta og eina kynbætta íslenska trjáyrkið sem búið er til úr alíslenskum efnivið.

Grænt birkilauf verður gult í haustlitum, dumbrautt verður rautt. Mynd / ÞT
Yrkin Embla og Kofoed

Verkefnið snerist um að kynbæta birkið og ná fram hærra hlutfalli af stæðilegri trjám en hægt er að gera ráð fyrir með sáningu fræs sem safnað er í íslenskri náttúru. Þegar birkifræi er sáð er almenn reynsla sú að breytileikinn er mikill, tré, kræklur og runnar. Þessu vildu Þorsteinn og félagar breyta.

Byrjað var á því hafa uppi njósnir um falleg tré á Stór-Reykjavíkursvæðinu, taka af þeim greinar og græða þær á nýja rót. Síðan voru trén gróðursett eftir ákveðnu skipulagi þannig að allar fræmæðurnar fengju sama frjógjafa. Afkomendahóparnir nýttust síðan í samanburðartilraunir sem lögðu grunn að vali á bestu fræmæðrunum sem mynda yrkið Embla. Í dag er Embla mikið notuð, t.a.m. er velflest birki sem notað er í almenningsrými í Reykjavík af því yrki.

„Á þessum tímapunkti fannst mér rétt að það yrði eign Skógræktarfélags Íslands og Garðyrkjufélags Íslands sem stutt höfðu verkefnið. Félögin sömdu svo við Skógræktina um frærækt og viðhaldskynbætur á yrkinu. Skógræktin lagði upphaflega til aðstöðu til fræræktar á Tumastöðum. En í dag hefur verkefninu verið hætt. Það er því engin formleg frærækt á Emblu í dag þrátt fyrir yfirburði yrkisins í samanburðartilraunum sem er miður. Í dag er frærækt á Emblu eingöngu stunduð í takmörkuðum mæli í gróðurhúsi í garðyrkjustöðinni Mörk.

Þar þróaði Þorsteinn nýtt yrki þar sem hann notaði norskt birki með víxlunum við Emblubirki. Gæði þess yrkis voru ljós þegar Skógrækt ríkisins fagnaði hundrað ára afmæli árið 2010.

„Því fannst mér tilvalið að nefna það Kofoed til heiðurs þessari mikilvægu stofnun og fyrsta skógræktarstjóra landsins,“ segir Þorsteinn.

Garðyrkjustöðin Mörk hefur frá upphafi lagt fram ómetanlega aðstöðu til birkikynbótanna. Hér sést Guðmundur Vernharðsson við kynbótaplöntur sem sumar hverjar koma til nota næsta vor.Mynd /ÞT
Rauða birkið frá Finnlandi og tilurð Heklu

Á sjöunda áratugnum fannst sérstæð rauðblaða björk í nánd við bæinn Oulu í Finnlandi. Í fyrstu eru laufblöðin græn en breytast svo og verða dumbrauð. Hún vakti áhuga og hefur verið seld í ræktunarstöðvum á Norðurlöndunum. Guðmundur Vernarðsson í Mörk og Ólafur Njálsson í Nátthaga fengu leyfi til að flytja inn ellefu vefjaræktaðar plöntur af þessari tegund og af þeim fékk Þorsteinn eina.

„Finnar töldu að plantan væri geld og því ekki hægt að fjölga henni öðruvísi en með vefjarækt og því eru öll trén af sömu arfgerð. Niðurstaðan af ræktun þessara ellefu trjáa er að ekkert þeirra þrífst við íslenskar aðstæður og flestar eru dauðar. Ég lagði mig eftir að skoða þessi tré á Norðurlöndum þegar færi gafst og sá að á þeim uxu fræreklar, að vísu lélegir. Ég bað vini í Skandinavíu að safna fræi af plöntunni og áskotnaðist fræ frá fimm stöðum. Fræið gaf heilmargar plöntur og var helmingur þeirra rauður en hinn helmingurinn grænn. Það er því ljóst að þessi rauði eiginleiki stýrist af einum ríkjandi erfðavísi. Þannig munu grænu trén eingöngu gefa græna afkomendur en rauð planta mun gefa rauða og græna til helminga. Þessi rauði og græni erfðahópur reyndist mun betri til ræktunar á Íslandi en upprunalega finnska yrkið og með því að nota besta tréð til áframhaldandi kynbóta og víxlunar við tré af Kofoed yrkinu batnaði ræktunarhæfnin enn verulega og er Hekla ein arfgerð úr þeim áfanga. Frjó af Heklu hef ég svo notað í víxlunum við birki frá meðal annars Rússlandi og Asíu og fyrstu vísbendingar um árangur eru ævintýralegar en það verður tilefni í aðra umfjöllun.“

Rauðblaða birkið flytur „heim“ til Finnlands

Maður er nefndur Leif Blomqvist og rekur garðplöntustöð í nánd við Oulu í Finnlandi. Leif hefur lagt sig sérstaklega eftir að bjóða upp á yrki sem henti til ræktunar garðplantna á norðlægum slóðum og lagt áherslu á harðgerð yrki af berjategundum. Hann hefur og skrifað vinsælar bækur um þá iðju og hlotið opinberar viðurkenningar. Leif hefur selt margvíslegar garðplöntur til Íslands.

„Í tengslum við það hélt hann fyrirlestur á vegum Garðyrkjufélags Íslands fyrir nokkrum árum en ég sat þá í stjórn þess. Ég sýndi honum hvað ég væri að gera og hann lýsti áhuga á að fá að prófa framleiðslu á eftirlætis trénu í safninu til sölu í Finnlandi og á öðrum norðurlöndum. Ég sendi honum grein af trénu og yrkinu var fjölgað með vefjarækt. Ég nýtti tækifærið og pantaði í leiðinni framleiðslu á örplöntum til ræktunar hér. Landbúnaðarráðuneytið og MAST veittu heimild til innflutningsins þar sem plönturnar eru framleiddar í gerilsneyddu umhverfi á rannsóknastofu. Áður en erfðaefnið fór til Finnlands varð ég að velja því nafn og kaus að kalla það Heklu til að minna væntanlega kaupendur á upprunann auk þess sem nafnið tengist vitaskuld rauðum lit eldgosa.“

Leif hefur lýst því að Hekla hafi áhugaverða sérstöðu miðað við upprunalega rauða birkið sem lagði Heklu til litinn á laufinu, bæði í lit og ræktunareiginleikum en sala þess hefst næsta vor.

Finnski garðplöntuframleiðandinn Leif Blomqvist hefur hafið framleiðslu á Heklu. Trén fara á markað þar á næsta ári. Hér sést hann innan um breiðu af Heklutrjám í uppvexti.Mynd /Leif B.

Prófanir á Heklu á Íslandi
Hekla er í víðtækri prófun víða um land og taka um 100 manns þátt í henni. Flest trén vaxa mjög vel og er metið 85 cm sumarvöxtur. Hér sést Þröstur skógræktarstjóri sáttur með sína Heklubjörk. Fagurhvítur Emblustofn sést í bakgrunni.Mynd /Þröstur Eysteinsson

Áður en ný yrki eru sett á markað er rétt að reyna þau við margvíslegar aðstæður til að sanna ræktunarhæfni þeirra.

„Á RALA og nú á Landbúnaðar-háskóla Íslands eru margvísleg plöntuyrki prófuð og á grundvelli niðurstaðna er gefinn út listi yfir þau yrki sem mælt er með. Þetta er mikilvæg þjónusta við landbúnaðinn þar sem miklir fjármunir fara í súginn ef röng sáðvara er notuð. Skógræktin leggur út margvíslegar tilraunir með trjátegundum en margar þeirra eru þannig að endanlegur dómur fellur seint. Einu samanburðarrannsóknir með birki sem Emblu yrkið var hluti af stóðu lengi áður en ágæti þess var staðfest. Af þessum ástæðum leitaði ég leiða að fá afgerandi mat á gæðum Heklu fljótt og ákvað að nota mér mikinn og jákvæðan áhuga sem mætt hefur þessari vinnu í birkinu. Úr vefja­ræktuðu örplöntunum af Heklunni hafði ég náð að framrækta um 300 plöntur og naut þar góðrar aðstöðu í ræktunarstöð Reykjavíkurborgar. Kann ég Auði Jónsdóttur rekstrarstjóra og hennar samstarfsfólki miklar þakkir fyrir. Vorið eftir fengu ríflega hundrað manns tvær plöntur hver til ræktunar víða um land gegn því að skila upplýsingum um þrif þeirra. Afföll eru smávægileg og vöxtur víðast frábær,“ segir Þorsteinn.

Metið virðist eiga Pétur Halldórs­son, kynningarstjóri Skóg­ræktarinnar, sem gróðursetti eina plöntu í garð sinn á Akureyri þar sem hún óx 85 sentímetra í sumar og er mjög limfögur.

„Að auki má nefna að móðurtrénu sem stendur í garði okkar hefur ekki orðið misdægurt í sex ár. Það standa því góðar vonir til að álykta að hér sé komið yrki sem glatt geti garðeigendur og garðyrkjustjóra sem vilja lífga upp á gróðurrækt sína með þessu sérstæða dumbrauða yrki,“ segir Þorsteinn.

Plöntukynbætur nauðsynlegar

Plöntukynbætur eru að sögn Þorsteins hluti af hagvörnum landsins og þær þarf að efla. Aðlaga þarf efnivið að breyttu veðurfari og bregðast við hlýnun.

„Núverandi fjármögnunarkerfi rannsókna gerir þetta starf mjög erfitt af því að verkefnið þarf að vera stöðugt í gangi til langs tíma í senn þó sjálfsagt sé að endurskoða það með jöfnu millibili. Í skógrækt búum við yfir mikilli auðlegð í óhemjumiklu og breytilegu erfðaefni af mörgum tegundum sem Skógræktin og margir áhugamenn hafa safnað og er í ræktun víða um land. Í birkikynbótunum er sýnt fram á miklar framfarir í árangri ræktunar og þeim má einnig ná og ekki síður í mörgum þessara innfluttu tegunda. Flestar þjóðir eru með hagvarnaráætlanir en lítið fer fyrir þeim hjá okkur. Kæruleysi hefur einkennt afstöðuna til þessa en umræðan um bættar hagvarnir er að aukast sem er vel. Óábyrg er notkun hins óskiljanlega hugtaks „framandi ágeng tegund“. Notkun þess hugtaks hefur leitt til þess að sumir hafa ályktað að við séum skuldbundin til þess að rækta einungis skóglendi með erfðaefni úr birkikjarri. Þá gleymist að maður og búpeningur hans hafa gerbreytt erfðasamsetningu birkis þannig að lágvaxið kræklótt kjarr sem kann að vera fallegt ásýndar er allt annað en það sem óx um landnám. Nægir að geta þess er Hjalti Skeggjason lét byggja haffært skip úr íslensku timbri í Þjórsárdal í lok tíunda aldar og sigldi til Noregs. Áhugavert væri að sjá íslenska skipasmiði leika það eftir með þeim trjám sem nú má finna í íslensku skóglendi, jafnvel þar sem öflugustu birkitrén vaxa nú. Nýlega hefur ríkisstjórn samþykkt svonefnda Bonn-áskorun og sett markið á að íslenskt birki þeki 5% af landinu. Það væri mjög misráðið að notast eingöngu við fræ úr kjarri sem oft kallast staðarbirki. Slíkir skógar skila litlum nýtanlegum afurðum, binda takmarkað magn kolefnis og eru erfiðir yfirferðar, sannkallað ótræði svo vitnað sé í orðnotkun Hákonar Bjarnasonar, fyrrverandi skógræktarstjóra.“

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...