Kynning á íslenska hestinum í miðbæ Reykjavíkur
Landssamband hestamannafélaga (LH) ásamt Horses of Iceland (HOI) stóðu fyrir miðbæjarreið laugardaginn 3. júní sl.
Hestar og knapar frá hinum ýmsu hestamannafélögum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi lögðu leið sína í miðbæ Reykjavíkur en áætlaður fjöldi hrossa sem tók þátt í reiðinni var um 60 talsins. Fremst í flokki riðu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðni Halldórsson, formaður LH, og Sigurbjörn Bárðarson, landsliðseinvaldur í hestaíþróttum.
Reiðin hófst við Hallgrímskirkju þar sem hestar og knapar hlýddu á ræður frá Áslaugu Örnu og Guðna ásamt því að ljúfir tónar frá Raddbandafélaginu voru spilaðir. Við þetta tækifæri kynntu tvö stærstu hestamannafélög landsins, Sprettur og Fákur, ákvörðun sína um að halda Landsmót hestamanna sameiginlega á félagssvæði Fáks árið 2024 og þar með var því samstarfi formlega hleypt af stokkunum.
Knapar riðu sem leið lá frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og Bankastræti yfir á Austurstræti, þar sem beygt var inn Pósthússtræti að Austurvelli. Þaðan var riðið áfram Vonarstræti og Tjarnargötu þar til komið var á endastað við Hljómskálagarð.
Lífgar upp á miðbæjarlífið
Guðni Halldórsson, formaður LH, sagði tilgang miðbæjarreiðarinnar vera að vekja athygli á hestaíþrótttinni og hestamennskunni í heild sinni. „Þetta er skemmtileg hefð sem hefur skapast, viðburðurinn lífgar upp á miðbæjarlífið og með þessum viðburði viljum við tengja hestamennskuna við lífið í landinu. Knapar úr hinum ýmsu hestamannafélögum tóku þátt í ár og höfðu mjög gaman af.“
Guðni sagði frá því í ræðu sinni að íslenski hesturinn væri stór hluti af þjóðararfi okkar Íslendinga og að þjóðin ætti að gera hestinum mun hærra undir höfði í allri kynningu og framsetningu á Íslandi. „Lundinn, víkingarnir, eldfjöllin, jöklarnir og jarðhitinn er allt frábært en þegar kemur að sérstöðu og stöðu meðal þjóðarinnar þá stenst ekkert af þessu samjöfnuð við íslenska hestinn.“ Guðni taldi það vera skipulagsmistök að ekki væri reiðstígur úr Víðidal og niður að Reykjavíkurtjörn. „Þar væri kannski aðstaða til að sleppa hestum í hólf, þetta væri passlegur reiðtúr, ríða í bæinn og fá sér eitt ískalt sódavatn á meðan hestarnir kasta mæðinni.“ Hann taldi þetta vera framtíðarsýn sem vert væri að skoða og gæti orðið lyftistöng fyrir annars fjölbreytt mannlíf miðbæjarins.
Góð auglýsing fyrir hestinn
Aðspurður sagði Guðni að reiðin hefði tekist mjög vel, starfsfólk LH og HOI hefði unnið vel að skipulagningu og þetta væri góð auglýsing fyrir hestinn. „Miðbæjargestir, bæði innlendir og erlendir, tóku okkur mjög vel og voru duglegir að taka myndir og myndbönd og deila því á hinum ýmsu samfélagsmiðlum sem fer svo um allan heim. Þetta er gríðarlega góð auglýsingin fyrir hestinn. Þetta er auðvitað mikið áreiti fyrir hestinn að fara þarna um bæinn, og t.d. var flugsýning í hámarki á Reykjavíkurflugvelli meðan á reiðinni stóð en hestarnir létu það ekki á sig fá.“
Miðbæjarreiðin var fyrst farin árið 2016 og hefur verið haldin ár hvert, þó með hléum á tímum heimsfaraldursins.