Landbúnaður innblástur leiksvæðis
Rúmlega hundrað börn sækja nám í nýjum leikskóla sem tók til starfa í Rangárþingi eystra í haust.
Leikskólinn Aldan á Hvolsvelli er átta deilda leikskóli og getur tekið á móti 180 börnum. Útisvæði skólans endurspeglar þá staðreynd að sveitarfélagið er mikið landbúnaðarsvæði.
„Framkvæmdir gengu virkilega vel og voru að mestu innan tíma- og fjárramma. Undanfarin tvö ár hafa ekki verið auðveld fyrir börn, foreldra og starfsmenn leikskólans. En vegna myglu þá þurfti að bregðast við og skipta deildum upp á nokkra staði í þorpinu. Engu að síður þá gekk þetta allt saman ótrúlega vel. Það er einvörðungu vegna þess að allir lögðust á eitt.
Útisvæðið er algjörlega framúrskarandi að mínu viti og talar mjög vel í þær áherslur sem við hjá sveitarfélaginu erum með þegar kemur að börnunum okkar. Skapandi og frjótt samfélag,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Aðalheiður E. Kristjánsdóttir og Jóhann Pétursson, landslags- arkitektar hjá Landmótun, hönnuðu útisvæðið ásamt Huldu Davíðsdóttur og Írisi Reynisdóttur en hugmyndir starfsfólks leikskólans voru hafðar til hliðsjónar við hönnun.
Þar má m.a. finna íslenskar fjárréttir, fjölbreytt gróðursvæði og svæði til matjurtaræktar. „Náttúrulegur efniviður og frjáls leikur með hugmyndaflug barnanna að vopni var áherslupunktur leikskólastarfsmanna sem var ánægjulegt að vinna með og útfæra. Náttúruleikurinn er byggður upp með efnivið úr nærliggjandi skógrækt sem og tilfallandi grjóti af svæðinu,“ segir Aðalheiður.