Lesið fyrir hunda á sex bókasöfnum
Hverjum hefði dottið það í hug fyrir einhverjum árum að það væri hægt að fara með hundinn sinn á bókasafn og láta lesa fyrir hann? Hvort sem lesendur blaðsins trúa þessu eða ekki þá er þetta staðreynd og skemmtilegt verkefni, sem hefur tekist mjög vel. Það eru samtökin „Vigdís, vinir gæludýra á Íslandi“ sem eiga heiðurinn af verkefninu en þar er Margrét Sigurðardóttir formaður.
Bandarísk fyrirmynd
Félagasamtökin „Vigdís – vinir gæludýra á Íslandi“ voru stofnuð árið 2013 í þeim megintilgangi að stuðla að útbreiðslu lestrarverkefnisins „Lesið fyrir hund“ (e. R.E.A.D.) á Íslandi. Um er að ræða lestrarverkefni að bandarískri fyrirmynd sem nefnist R.E.A.D. (Reading Education Assistance Dogs). Félagasamtökin Vigdís eru samstarfsaðili R.E.A.D. og hafa aflað sér leyfis og umboðs til að hafa umsjón með R.E.A.D. verkefninu á Íslandi. „Áhugi á að stofna félag með áherslur á lestrarþjálfun með hundum kviknaði eftir að ég, Brynja Tomer og Sóley Ragnarsdóttir höfðum, ásamt hópi af áhugasömu fólki, skipulagt á vorönn 2013 tilraun félagsmiðstöðvar og skóla með verkefnið „Lesið fyrir hund á Íslandi“. R.E.A.D. verkefnið er starfrækt í 25 löndum samkvæmt heimasíðu Intermountain Therapy Animals, auk þess sem verkefnið er víða um Bandaríkin. Það var heilmikill undirbúningur að gerast samstarfsaðili bandarísku móðursamtakanna. Við þurftum að fara á námskeið bæði hérlendis og erlendis með leiðbeinendum R.E.A.D-samtakanna og taka próf varðandi aðferðafræði verkefnisins og velferð hunda. Síðan þurfti að stofna félagið okkar, „Vigdís – vinir gæludýra á Íslandi“, til þess að halda utan um „Lesið fyrir hund“ verkefnið á Íslandi,“ segir Margrét.
Hundarnir eru ótrúlega slakir og rólegir í lestrarstundunum og koma oftast með dillandi skott inn á bókasafnið þegar þeir vita hvað á að fara að gera.
Hvatning til lesturs
Margrét segir að tilgangur verkefnisins sé að hvetja börn til lesturs, auka lesskilning og ánægju af lestri. Í verkefninu „Lesið fyrir hund“ lesa börn fyrir hund og lestrarliða, sem eru hundaeigendur. Í lestrarstundinni er hundurinn í aðalhlutverki og lestrarliðinn í hlutverki vinar. „Áhersla er lögð á að barn lesi sér til skilnings en ekki að texti sé lesinn lýtalaust. Í lok lestrarstundar gefst tækifæri til að ganga úr skugga um lesskilning með því að nýta hundinn, enda gengið út frá því að hundurinn sé í aðalhlutverki sem hlustandi og að barnið sé í hlutverki leiðbeinanda hundsins. Verkefnið hefur farið einstaklega vel af stað og er eftirsótt að fá verkefnið til sín,“ segir Margrét.
Sex bókasöfn taka þátt
Í dag eru reglulegar lestrarstundir fyrir börn á sex bókasöfnum, á Bókasafni Kópavogs, Garðabæjar, Seltjarnarness, Hveragerðis, Mosfellsbæjar og á Sólheimabóka-
safni Reykjavíkur. Lestrarstundir eru einu sinni í mánuði á hverju safni og eru þær á laugardögum. Bókasöfnin auglýsa skráningu og foreldrar skrá börnin í lestrarstundirnar gegnum bókasöfnin. Margrét segir að fleiri bókasöfn séu að óska eftir að fá verkefnið til sín en til að geta sinnt kallinu þurfi að fjölga hundaeigendum.
Þegar Margrét er spurð um áhuga og viðbrögð barna við verkefninu kemur í ljós að hún gerði rannsókn á verkefninu í sínu mastersnámi og niðurstöður sýna fram á að áhugi á því að lesa eykst hjá börnum og viðhorf til lestrar verður jákvæðara. „Já, þeim þykir eftirsóknarvert að lesa fyrir hund og þau sýna aukinn áhuga á að lesa í lestrarstundum með hundum,“ segir Margrét og bætir við: „Við erum með allar tegundir af hundum. Það sem skiptir mestu máli er upplag, geðslag og uppeldi hundsins og samband hundaeiganda (lestrarliða) við hund. Allir hundar fara í gegnum hundamat hjá hundamatsmönnum Vigdísarsamtakanna áður en þeir verða lestrarhundar. Ein af aðaláherslum verkefnisins er að passa upp á vellíðan hundanna og að ofgera þeim ekki.
Við teljum það vera góða vísbendingu um vellíðan hundanna þegar þeir sjá lestrarstaðinn sinn að þeir taka blátt strik að honum með dillandi skott.“
Skólar sýna verkefninu líka áhuga
„Já, það eru bæði bókasöfn og skólar sem óska eftir að fá verkefnið til sín. Verkefnið skiptist í tvo hluta, annars vegar er það yndislestur, til dæmis á bókasöfnum (e. Animal - Assisted Activity) og hins vegar skólaverkefni (e. Animal - Assisted Therapy) þar sem lestrarstundir standa yfir ákveðið tímabil með barni og skráður er árangur þess og framvinda verkefnisins. Til að geta annað öllum þurfum við að fá fleiri sjálfboðaliða, þ.e.a.s. lestrarliða (hunda og hundaeigendur),“ segir Margrét aðspurð um áhuga á verkefninu.
Þakkar sjálfboðaliðum
Þegar Margrét var spurð hvort það væri eitthvað sérstakt, sem hún vildi koma á framfæri sagði hún; „Já, endilega, ég vil koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sjálfboðaliða sem starfa með Vigdísarsamtökunum, bæði til stjórnarmanna og ekki hvað síst hundaeigendanna (lestrarliða). Án þeirra væri verkefnið „Lesið fyrir hund“ ekkert. Lestrarliðarnir okkar eru lykillinn, þau fara á námskeið, læra aðferðafræði verkefnisins og skuldbinda sig og hundinn sinn til þess að vera virkir áreiðanlegir leiðbeinendur fyrir Vigdísarsamtökin.
Við erum með heimasíðu, hundalestur.is og vil ég hvetja áhugasama að setja sig í samband við okkur gegnum netfangið hundalestur@hundalestur.is.“