Lífgrös og leyndir dómar
Lækningajurtir og saga lækninga eru viðfangsefni bókarinnar Lífgrös og leyndir dómar sem dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur er að senda frá sér. Í bókinni er meðal annars fjallað um gamlar íslenskar lækningabækur og hvernig þekking á íslenskum lækningagrösum safnaðist saman, blandaðist um tíma hjátrú og göldrum, en varð um síðir að þeim grasalækningum og lyfjaiðnaði sem við þekkjum í dag.
Ólína hefur unnið að bókinni Lífgrös og leyndir dómar hátt í tvo áratugi með hléum en hún segir að síðastliðin fjögur ár hafi hún unnið að því að klára bókina, sem um þessar mundir er að koma í verslanir.
Rætur læknisþekkingar
„Bókin fjallar um rætur þeirrar læknisþekkingar sem við höfum í dag. Ég rek þráðinn allt aftur að bökkum Nílarfljóts á fornöld, kem svo við á Íslandi og sökkvi mér niður í elstu íslensku lækningahandritin sem rekja má aftur til 12. og 13. aldar. Þessi gömlu lækningahandrit bera samnorræn einkenni og hafa verið eignuð danska grasafræðingnum, kanúkanum og lækninum Henrik Harpestræng. Þeirra á meðal eru íslensk handrit sem bera óneitanlega líkindi af ritum Harpestrængs og eru kölluð Harpestræng-handritin. Kenningin er sú að þau hafi borist til Íslands ýmist frá Danmörku eða Noregi,“ segir Ólína.
Handrit frá Hrafni Sveinbjarnarsyni?
„Hins vegar tel ég að eitt þessara handrita megi hugsanlega rekja til Hrafns Sveinbjarnasonar goða í Dýrfirðingagoðorði, læknis og samtímamanns Harpestræng á tólftu og þrettándu öld.
Harpestræng hafði sínar lækningar eins og aðrir Evrópumenn á sínum tíma frá Salerno-skólanum á Ítalíu. Bretar voru líka eins og aðrir undir áhrifum frá Salerno og ekki síst menntamenn í Canterbury. Hrafn kom þar við á ferðum sínum og gaf heilögum Tómasi Becket rostungstennur að gjöf auk þess sem hann gekk suður til Evrópu bæði til Spánar og Ítalíu. Allar líkur eru á því að Hrafn hafi á ferðum sínum kynnt sér lækningar og að rekja megi lækningaaðferðir hans til Háskólans Salerno á Ítalíu,“ segir Ólína.
Hún telur ekki ólíklegt að Hrafn hafi getað komist yfir lækningahandrit Harpestrængs og ef til vill bætt eða skrifað inn í sjálfur eigin þekkingu. „Að minnsta kosti er handritið sem ég vil eigna Hrafni upprunnið frá Geirröðareyri sem nú heitir Narfeyri á Snæfellsnesi og þar bjuggu ættmenni Hrafns. Þar bjó systir hans og þangað flúði sonur hans undan Þorvaldi Vatnsfirðingi. Lækningabókin sem um ræðir er afrituð þar árið 1387, eins og kemur fram í handritinu sjálfu, og ég tel vel líklegt að ritið sem bókin var skrifuð eftir hafi verið frá Hrafni komið.“
Ólína segir að bókin sé býsna „Harpestrængsleg“ og að jurtirnar sem nefndar eru í henni séu flestar erlendar en að það sé svo sem ekki skrýtið því slíkt einkenni flest elstu lækningahandritin.
Íslendingar fljótir að skapa eigin þekkingargrunn
„Sjálfri hefur mér þótt gaman að skoða og sjá hvernig þekkingarsköpun breytist með tímanum og hvað Íslendingar voru fljótir að búa til sinn eigin þekkingargrunn um villtar íslenskar plöntur.
Þetta sjáum við meðal annars í Grasnytjum séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, Búnaðarbálki Eggerts Ólafssonar og fleiri 17. og 18. aldar ritum.“
Listi yfir innlendar og erlendar plöntur
Í bókinni Lífgrös og leyndir dómar er viðauki þar sem taldar eru upp allar íslenskar villtar plöntur sem koma við sögu í ritum frá 17. og 18. öld auk þess sem þar er listi yfir erlendar plöntur sem nefndar eru í íslenskum lækningahandritum.
Blendin þekking bætist við
Ólína segir að til séu nokkur gömul íslensk lækningarit og að hún taki þau merkustu til umfjöllunar í bókinni. „Það elsta er í AM 655 4to – það er ekki nema átta blöð og gengur eins og rauður þráður í gegnum allar íslensku lækningabækurnar sem á eftir komu. Ég kalla það Gömlu gersemina. Handritið sem ég kalla „Hrafnsbók“ er í AM 194 8vo. Dyflinnarhandritið svokallað er líka frægt og mjög áhugavert en það er varðveitt í Dublin þrátt fyrir að vera íslensk lækningabók. Þar í er lækningabók Þorleifs Björnssonar hirðstjóra.
Bækurnar ganga í ýmsum afskriftum í gegnum aldirnar. Smám saman bætist eitt og annað inn í þær og þegar kemur fram á 17. öld er efni þeirra orðið ansi blendið. Inn í afskriftirnar er bætt rúnum, galdrastöfum, særingum, bænum og ýmsu hjátrúartengdu efni. Eftir það er ekki alltaf gott að gera greinarmun á galdrabók og lækningabók enda eru þess dæmi að menn hafi jafnvel verið dæmdir á bálið sem galdramenn fyrir að hafa haft lækningabók í fórum sínum.“
Ólík nálgun á lækningar
Ólína segir að fólk hafi verið öðruvísi tengt við veruleika fyrr á öldum en í dag. „Það var litið til himintunglanna og notað dagaval til framkvæmda. Helstu lækningaúrræðin voru blóðtökur og grös en líka náttúrusteinar. Notkun þeirra var viðurkennd sem lækningaráð og talin fullsæmandi kristnum mönnum enda voru slíkir steinar til í fórum íslensku biskupstólanna.
Viðhorf til mannslíkamans og lækninga voru því allt önnur og mun heildrænni en síðar varð, sérstaklega eftir að kom fram á 20. öld þegar læknavísindin urðu sífellt sérhæfðari og tóku að tengjast þrengri sviðum.
Í kjölfar vísindabyltingarinnar á 20. öld og framrásar viðurkenndra lækninga samtímans átti sér stað mikil hugarfarsleg breyting gagnvart gömlu þekkingunni. Vísindahyggjan varð mjög frek til fjörsins og gerði kröfu til skilyrðislauss átrúnaðar á kostnað eldri aðferða og hugarfars sem viðgengist hafði um aldir. Á síðustu áratugum virðist þó hafa komið fram ákveðið afturhvarf til eldri viðhorfa gagnvart mannslíkamanum samfara kröfu um heildrænni nálgun og hugsun þegar kemur að lækningum.
Fortíðin hefur því vitjað okkar á ný og að mínu mati væri æskilegast að þessi tvö sjónarmið tækjust hönd í hönd og ynnu saman. Í því væru miklir möguleikar fólgnir,“ segir dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur að lokum.