Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Dýralæknirinn og tónlistarmaðurinn Sigurður Sigurðarson.
Dýralæknirinn og tónlistarmaðurinn Sigurður Sigurðarson.
Mynd / HKr.
Líf og starf 31. október 2019

Lífslög Sigurðar dýralæknis á tveim geisladiskum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Sigurður Sigurðarson dýralæknir kann ýmislegt fleira fyrir sér en að hjálpa dýrum í heilsufarsvanda. Hann ólst upp við tónlist og hefur frá barnsaldri fengist við að semja lög og líka texta. Nú hefur hann með aðstoð landsþekktra listamanna sett 60 af lögum sínum á tvo geisladiska og fylgir þeim kver með textum.

Sigurður átti leið í Bændahöllina á dögunum og var þá með afrakstur tónlistarsköpunarinnar í farteskinu. Hann var að sjálfsögðu gripinn og tekinn tali og spurður um ástæður þessa gjörnings.

60 lög á 60 árum

„Á mínu heimili og í minni fjöl­skyldu hefur söngur af ýmsum toga verið iðkaður alla tíð. Ég fór því að reyna að raula og setja saman lög sjálfur þegar ég var krakki. Þessi fyrstu lög eru nú öll gleymd, þannig að þessi 60 lög sem eru á diskunum eru öll frá 60 ára tímabili, frá 1958 til 2018.“

– Þú hefur þá samið þau öll sjálfur?
„ Já, en eitt lag var endurlífgað því flestir voru búnir að gleyma því þó einhverjir myndu nokkra tóna. Því fórum við Ólöf Erla Halldórs­dóttir að reyna að rifja upp þetta lag á þeim tónabrotum sem við höfðum og gátum loks sett saman lag sem fólk taldi sig þekkja frá fyrri tíð. Þetta lag er um flöskuna: Mín blessuð blakka dúfa – blind ertu og segir klúgg, klúgg, klúgg. – Þetta lag var þekkt hér áður fyrr þó flestir hafi verið búnir að gleyma því. Öll önnur lög á diskunum eru eftir mig og 40 textar eru líka eftir mig og aðrir eftir hina og þessa vini mína og aðra.

–Þú hefur eflaust verið beðin um að taka lagið af og til, eða hvað?
„Ég hef verið í Kvæðamanna­félaginu Iðunni síðan 1989. Síðan stofnuðum við Kvæða­mannafélagið Árgala á Selfossi. Fyrir ekki löngu síðan stofnuðum við annað félag sem Snorri í Reykholti var með í að stofna. Hef ég haft mikla ánægju af að starfa í þessum félögum. Þá er ég í kór eldri borgara á Selfossi sem heitir Harpa.“

Með 28 einsöngvara

– Það hefur nú ekki alveg verið hrist fram úr erminni að koma öllum þessum lögum á plötu. Fékkstu liðstyrk við það verkefni?
„Já, það eru 28 einsöngvarar sem syngja þessi 60 lög. Sumir syngja eitt lag og aðrir tvö og einn syngur fjögur lög. Ég hef notfært mér frændur mína og kunningja og beðið þá um að syngja fyrir mig. Ef ég hef svo frétt af einhverjum líklegum sem er góður söngvari, þá hef ég reynt að ná í viðkomandi. Í þessum hópi má finna fasteignasala, þrjá bændur, óperusöngvara, barnaskólakrakka og ýmsa fleiri.

Upptakan er gerð af Karli Þór Þorvaldssyni á Selfossi sem er afskaplega lipur og hæfur maður og Hilmari Erni Hilmarssyni allsherjargoða. Þeir hafa tekið upp þessi lög fyrir mig. Þá önnuðust Edit Molnár og Miklos Dalmay undirleik ásamt Guðmundi Eiríkssyni sem einnig stílfærði fyrir mig sum lögin ásamt fleirum. Raddsetningu annaðist svo Ásgeir Sigurðsson á Selfossi.

Upptakan fór fram í hljóðstofu Karls Þórs Þorvaldssonar og í Selfosskirkju. Einnig fór upptaka fram í Keflavíkurkirkju undir stjórn Arnórs Vilbergssonar. Upptökur fóru líka fram hjá Hilmari Erni Hilmarssyni á Álftanesi, Sigfúsi Benediktssyni á Sauðárkróki og Ívari Helgasyni á Akureyri með stuðningi ýmissa hljóðfæra. Harmonikkuleik annaðist Grétar Geirsson á Áshóli í Holtum. Þá voru tvö lög tekin upp í Borgarfirði. Þar leikur Ingibjörg Þorsteinsdóttir á orgel við sálmalag. Ýmis önnur hljóðfæri skreyta síðan sum lögin.

Annars gef ég diskana út sjálfur en útlit á diskahulstrinu og fylgiriti með lögunum annaðist Ágúst Ómar Halldórsson á Akureyri. Síðan sá Jón Ingi Friðriksson í Myndbandsvinnslunni um frágang á diskunum til viðtakenda.“

Ekki verra að gera þetta en að standa í utanlandsferðum

– En eitthvað hlýtur svona útgáfa að kosta?
„Mér finnst ekkert verra að eyða peningum í þetta heldur en að standa í utanlandsferðum. Svo er ég viss um að ef ég gerði þetta ekki sjálfur þá myndu þessi lög, sem ég hef verið að semja frá því ég var tvítugur eða svo, bara gleymast,“ segir útgefandinn, laga- og textahöfundurinn og dýralæknir, Sigurður Sigurðarson. 

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...