Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Fanney Hrund á Fjarkastokki innan um hestana þeirra Steinþórs og svo er gimbrin Harpa líka á myndinni.
Fanney Hrund á Fjarkastokki innan um hestana þeirra Steinþórs og svo er gimbrin Harpa líka á myndinni.
Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
Líf og starf 14. október 2021

Lögfræðingur og læknir sem stunda sjálfsþurftarbúskap á Fjarkastokki við Þykkvabæ

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Bærinn Fjarkastokkur stendur á bökkum Hólsár, skammt fyrir ofan Þykkvabæ í Rangárþingi ytra við hina frægu reiðleið Ástarbraut. Fanney Hrund Hilmarsdóttir lögfræðingur og Steinþór Runólfsson læknir keyptu Fjarkastokk haustið 2019. Þeim þótti nafnið fremur óþjált til að byrja með og þekktu ekki til annarra örnefna á landinu sem vísuðu til „fjarka“.

Ekki bætti úr skák þegar vinir og vandamenn tóku til við að svívirða nafnið, hver með sínum hætti. Vestfirsk vinkona kom í heimsókn í „Fjörkustokk“, önnur í „Fjaðrastrokk“ og enn einn yfirgaf „Þrælastokk“ þreyttur eftir langan dag í girðingarvinnu.

Eftir fremur árangurslítið grúsk seldi Bjarni Harðarson hjónunum bókina „Þúsund ára sveitaþorp“, og þar með hurfu allar hugmyndir um nafnabreytingu. Bærinn heitir eftir einum af þeim fjóru stóru álum sem Þykkbæingar stífluðu í kringum 1900.

„Í fyrrgreindri bók er þetta ótrúlega þrekvirki rakið. Fjarkastokkur var 200 metra breiður og þar var sund bakka á milli. Þetta var auðvitað allt unnið með handafli og þar stóðu menn úti í straumnum upp í háls til að gefa þeim sem hlóðu svigrúm. Svo sneri mannskapurinn heim í raka torfkofana.

Ætli vanhelgt hrossakjötsátið hafi ekki bjargað þessum hreystimennum. Nú þykir mér bara ósköp vænt um þetta nafn,“ segir Fanney Hrund. En hvar hafa þau Fanney og Steinþór alið manninn og hvaðan eru þau?

Hamarshjáleiga og höfuðborgarsvæðið

„Ég er fædd og uppalin hinum megin við Þjórsána; í Hamarshjáleigu í gamla Gaulverjabæjarhreppi, sem nú heitir Flóahreppur. Steinþór er fæddur og uppalinn á höfuðborgarsvæðinu en á bæði nafn og rætur að rekja í Rangárvallasýsluna. Hann er ættaður frá Ægissíðu, Berustöðum og Stóru-Völlum á Landi og margir þekktu afa hans og alnafna, sem hér var ráðunautur og sæðingamaður. Ég held það sé nú samt ekki síður mér að kenna að við enduðum hér.

Mér hefur alltaf þótt vænt um Rangárvallasýsluna, Hekluna, farið á hverju ári í Reiðarvatnsréttir og hvergi notið mín betur en gangandi eða ríðandi inni á Rangárvallaafrétti. Það er varla til sá staður í heiminum þar sem betra er að vera haldinn hestasjúkdómnum en á þessu gróna, sendna landi. En hver veit, kannski er þetta eitthvað í tjáningu erfðaefnisins.

Mamma mín, Stefanía Geirs­dóttir, var mörg sumur í sveit í Eystra-Fróðholti í Landeyjum og þegar hún steig út úr bílnum í Fjarkastokki í fyrsta sinn þá horfði hún til Heklu og andvarpaði með orðunum: „Já, hér snýr hún rétt“,“ segir Fanney hlæjandi.

Vildi alltaf búa í sveit

– Fanney er næst spurð hvað hafi orðið til þess að þau hafi ákveðið að flytja í sveitina og gerast bændur, bæði svona vel menntuð?
„Það er nú saga að segja frá því en þegar ég var 10 ára gömul kom aldrei neitt annað til greina en að búa í sveit. Reyndar ætlaði ég að byggja kofa í garðinum við íbúðarhúsið í Hamarshjáleigu og búa þar til æviloka. Ætli foreldrar mínir hafi ekki verið þeim degi fegnastir sem ég staulaðist að heiman til að læra lögfræði í Reykjavík. Þar kynnt­umst við Steinþór, bæði á fjórða ári í háskóla, ég í lögfræði og hann í læknisfræði.

Við áttum sameiginlega vinkonu sem kom til mín og sagðist vera með hinn eina rétta mann fyrir mig. Ég gaf nú lítið fyrir það. Þegar annar vinur minn kom skömmu síðar og sagðist vera með hinn eina rétta mann fyrir mig þá var mér nú allri lokið. Þar til í ljós kom að þetta reyndist sami maðurinn. Þá lét ég til leiðast og fyrr en varði skrölti ryðrauður, lungnaveikur, sjálfráða Toyota Hilux upp að heimili ömmu minnar og afa í Breiðholtinu. Ég staldraði við á tröppunum og virti fyrir mér gamla sæðingabílinn frá Steinþóri eldri og Steinþór yngri í bílstjórasætinu og hlýnaði að innan.
Svona eftir á að hyggja var blessaður drengurinn kannski búinn að skrölta á gamla sæðingabílnum hring eftir hring um Reykjavík þar til hann rambaði á þessa einu sveitastelpu sem var til í að hoppa upp í gamla Lúxann! Ef svo er, þá er það mín lífsins lukka að stelpurnar í Reykjavík skyldu vera svo hégómagjarnar,“ segir Fanney og glottir út í annað, ánægð með Steinþór sinn.

Héraðsdómslögmaður og bráðalækningar

Eftir að náminu lauk hjá hjóna­kornunum störfuðu þau í Reykjavík í fimm ár. Fanney starfaði sem héraðsdómslögmaður hjá Ragnari Aðalsteinssyni, Sigríði Rut Júlíus­dóttur og félögum á Rétti lögmannsstofu á meðan Steinþór sinnti störfum á hinum ýmsu deildum Landspítalans, þó lengst af á bráðamóttökunni.

Að þessum fimm árum liðnum langaði þau ekki í framtíðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þeim þótti frelsið of lítið í hesthúsahverfinu, bagalegt að þurfa að hafa hundinn í bandi og agalegt að handleika hundaskít í poka.

Draumurinn um að flytja í sveit lúrði alltaf undir yfirborðinu en þau vissu ekki alveg hvernig þau gætu sniðið þann draum að vinnunni. Þá var bara eitt að gera; snúa þessu við. Svo þau ákváðu að stefna í sveit og sníða restina að þeirri grundvallar forsendu. Það var þá sem Steinþór ákvað að velja sérnám í heimilislækningum en blanda það bráðalækningum svo hann yrði hvað best til þess fallinn að sinna vinnu úti í héraði. Það dró þau svo af stað í reisu.

Hann langaði í nám í utanspítala­lækningum og það nám stóð til boða í Ástralíu. Svo þau lögðust í ársflakk um Afríku, Asíu og Eyjaálfu og komu sér svo fyrir til ársdvalar á austurströnd Ástralíu.

Hér má sjá bæinn Fjarkastokk þar sem þau Steinþór og Fanney Hrund búa með sínar skepnur og sjálfþurftarbúskap.

Sjálfsþurftarbúskapur

- Má segja að á Fjarkastokki sé stundaður nokkurs konar sjálfsþurftarbúskapur?
„Já, það er rétt. Við erum með tíu kindur, fimmtán hænur og ofurhanann Bergþór, tíu hesta, tvo ketti, tvær tíkur og svo einn „fjárhund“, en það er heimalningur sem telur sig hund.
Við lifum að miklu leyti á lambakjöti, eggjum og svo þeim hrossum sem reynast betri undir tönn en hnakki. Það er eiginlega verst hvað ræktuninni fleygir fram svo nú er bara hrossakjöt til hátíðabrigða. Þá erum við með nokkuð metnaðarfullan og ansi vanræktan matjurtagarð og gróðurhús. Það er góð tilfinning að vita hvað maður borðar hverju sinni,“ segir Fanney.
Þekkir ekki hænurnar í sundur

Dýr eru í miklu uppáhaldi hjá þeim hjónum, ekki síst hjá Fanneyju enda fædd og uppalin í sveit.

„Já, öll dýr eru í uppáhaldi hjá mér en einna helst hestarnir hjá Steinþóri. Mér er til dæmis fyrirmunað að skilja hvernig hann þekkir ekki hænurnar í sundur. Það er náttúrlega eins og mæta í vinnuna og þekkja ekki vinnufélagana hver frá öðrum,“ segir Fanney skellihlæjandi.

„Þessi dýraáhugi minn hefur þó nokkrum sinnum komið okkur í koll, sér í lagi þegar við vorum á flakki, svo sem þegar við lentum í bavíanaárás í Suður-Afríku og þurftum að leggja á flótta með þá hálfa inn um bílrúðurnar. Eða, þegar kengúrukarlinn réðst á Steinþór í Ástralíu því ég hafði víst lofað honum einhverju sem ég gat ekki staðið við. Árni Geir, bróðir minn, er alveg eins, svo það var ekki létt verk fyrir Steinþór að fara með okkur tvö í þriggja mánaða ferðalag um Afríku. Hann reyndi hvað hann gat og hrópaði reglulega að okkur einhverjum bakteríu- og sníkjudýraheitum.“

Hrossin númer eitt

Ræktunaráhugi á Fjarkastokki hefur fyrst og fremst snúið að hrossunum.

„Við erum svona að stíga okkar fyrstu skref í markvissri ræktun en höfum verið svo lánsöm að fá að halda hátt dæmdri hryssu sem foreldrar mínir eiga. Ein hennar dætra fór í dóm í sumar en hana eigum við í félagi við foreldra mína. Það fór ekki vel. Reyndar gekk sýningin ljómandi en þetta var einmitt sömu vikuna og veiran kom til dóms á Gaddstaðaflötum. Það hafði verið svo lítið um smit og allir eins og kýr að vori.

Við hökkuðum þarna í okkur úr hlaðborði inni í Rangárhöll, biðum í fimm tíma á milli kynbótadóms og reiðdóms vegna seinkunar og ég meira að segja ruglaðist á kaffibolla við einn af knöpunum sem reyndist smitaður. Það vantaði eiginlega bara að ég sleikti hurðarhúnana.

Þegar grunur kviknaði um hópsmit á sýningunni þá fórum við hjónin fljótlega að kenna okkur hinna ýmsu meina og ekki skánaði líðanin við sífelldar fréttir af nýjum smitum. Við vorum svona komin hálfa leið í kör þegar við fengum neikvæða pláguniðurstöðu. Þá var ekkert annað að gera en hætta ímyndunarveikinni og drífa sig út að reyta arfapláguna sem hafði þá drepið allar gulræturnar í garðinum,“ útskýrir Fanney.

Harpa hefur slegið í gegn

– Fanney og Steinþór eru líka með athyglisvert lamb, sem hefur komist í fréttirnar, hana Hörpu, sem heldur að hún sé hundur, en hver er sagan á bak við það?
„Já, Harpa hefur eiginlega stýrt hér öllu í sumar, með harðri klauf. Ætli þetta sé ekki ein birtingarmynd dýraáhuga míns.

Ég hef náttúrlega ofdekrað hana og varið fyrir allri gagnrýni. Ullarfita er kannski bara eins og bón, segi ég þegar hún klórar sér á bílunum, … þetta vex aftur næsta vor, þegar hún hakkar í sig síðustu laufin í garðinum og hvað þó hún kíki aðeins inn, þegar hún ryðst inn í bæ og þyrlar spörðum um allt gólf.

Það stóð til að gera hana að kind í byrjun ágúst. Hundarnir voru færðir úr augsýn og hún lokuð inni í fjárheldri girðingu með hinu fénu. Hún hefur hingað til séð við öllum okkar tilraunum. Hefur tekið sér stöðu sem eins konar „varðkind“ og sefur nú fyrir utan gluggann hjá okkur.

Annars hef ég nýtt sumarið í atferlisrannsóknir. Helstu niðurstöður eru þær að sauðfé sé almennt mjög greint en taugaveiklun hái því. Taugaboðin virðast berast með svipuðum hætti og í Brynjari Níelssyni, segir Fanney hlæjandi og heldur áfram að skýra út nafnið á Hörpu.

„Já, Harpa, eða Rökkurharpa eins og hún heitir fullu nafni, er nefnd eftir vinum okkar í Hólum, systkinunum Rökkva Hljómi og Hörpu Rún. Rökkurharpa er nefnilega undan hrúti frá Rökkva, sem er af hinu fræga Sokkukyni.

Með okkur Hörpu tókst vinskapur eftir að ég fékk ljóðabókina hennar, Eddu, í jólagjöf. Ég sá það fljótt að ég þyrfti að kynnast henni ef ég gæti. Þetta leiddi ýmislegt af sér, svo sem yfirlestur hennar á mínu handriti og öfugt. Við stefnum nefnilega báðar á sund í jólabókaflóðinu núna, ég með bókina mína „Fríríkið“ og hún með sína, „Kynslóð“. Báðar sögur eru skrifaðar af konum í sveit um fólk í sveit sem ég held að sé ágætis viðbót við sagna- og rithöfundaflóruna. Svo skellum við bara á okkur kútunum og vonum að við drukknum ekki.“

Fríríkið er ný bók

– Þú ert að fara að gefa út þína fyrstu bók, „Fríríkið“, en hvað kemur til og hvers konar bók verður þetta?

Svona lítur bókarkápa nýju bókarinnar hjá Fanneyju Hrund út en hún segir að bókin sé einmitt tileinkuð æskustöðvum sínum.


„Við Ragnar Aðalsteinsson sátum oft saman og ræddum sameiginleg áhugamál. Þar voru þjóðlendumálin gjarnan efst á baugi en stundum réttarheimspeki. Ég hafði nefnilega verið upptekin af einni ákveðinni kenningu; kenningu réttarheimspekingsins John Rawls um „fávísisfeldinn“, en hann er þeim töfrum gæddur að undir honum missir einstaklingurinn sjálfsvitundina. Hann hefur þar með enga vitneskju um kyn sitt, kynferði, aldur, stétt, stöðu eða nokkuð annað sem snýr að honum persónulega. Hann hefur aðeins þekkingu á virkni, þörfum og grunnuppbyggingu samfélagsins og sú þekking gerir honum kleift að leysa verkefnið; að semja grunnlög samfélagsins.

Þeim sem liggja undir fávísis­feldinum er ekki aðeins ómögulegt að taka sjálfsmiðaða ákvörðun heldur eru þeir jafnframt neyddir til að ígrunda stöðu allra hugsanlegra samfélagsþegna. Því enginn veit hver þessara samfélagsþegna þeir eru raunverulega sjálfir, þegar komið er undan feldinum,“ segir Fanney.

Sveitasamfélagið

Í þessu samhengi segir Fanney að fávísisfeldurinn hafi einn galla. Þessi töfrafeldur sé óraunhæft fyrirbæri og verður því aldrei lagður yfir raunverulegt samfélag manna. Af þeirri staðreynd varð hún upptekin og trúði einlæglega að í hugmyndinni um fávísisfeldinn fælist grunnur réttláts samfélags, aukinnar siðferðisvitundar og samkenndar. Var einhver leið að færa fávísisfeldinn nær samfélagi manna? Eða, það sem enn betra yrði, hinum ómótuðu og upprennandi samfélagsþegnum?

„Þetta fræ varð að sögu. Sögu sem ég taldi að gæti átt greiðari leið að sálum framtíðarinnar en kenningar réttarheimspekinnar. Og svo varð til heill heimur, sem óx jafnt og þétt þar til ég lagði inn héraðsdómslögmannsréttindin mín, fór í reisu og lét svo á það reyna hvort ég gæti skrifað. Fríríkið er forleikur að sögunni um Dreim, heiminn sem spannar fjórar bækur sem hverfast um í eftirfarandi röð: Samfélagið – Náungann – Náttúruna – Sjálfið.

Í Fríríkinu birtist sveitasamfélagið sem umlék æsku mína, frelsið, fjörið og samstaðan, ásamt skrautlegustu sérvitringum eldhúskróksins heima í hinni uppátækjasömu Öllömmu. Í Fríríkinu hennar Öllömmu er allt óvenjulegt venjulegt og leiðinlegt skemmtilegt en þar verður einu aldrei hnikað; baráttuviljanum til að vernda hin raunverulegu verðmæti, samfélagið í Fósturdal. Enda deginum ljósara að það sem er ókeypis er hvergi hægt að kaupa,“ segir rithöfundurinn þegar hún lýsir stuttlega bók sinni og út á hvað hún mun ganga.
Lífsstílsstarf að vera rithöfundur

– Fanney er næst spurð að því hvort hún gangi með rithöfundinn í maganum?
„Það er nú það, ég taldi mig nú bara loksins hafa fætt þennan rithöfund og þótti alveg nóg um að ganga með hann í maganum í rúman áratug. Þetta var orðin lengsta meðganga sögunnar og hann sjálfsagt orðinn þreyttur og illa morkinn, en hann kom fyrir rest. Mér leiðist að gera hlutina hálfpartinn. Ég var lögmaður og nú mun ég reyna að gera mitt besta til að vera rithöfundur. Þetta er kannski fremur fáránleg fjárhagsleg ákvörðun. En þá er nú gott að hafa svona lífsstílsbúskap til að styðja við þetta lífsstílsstarf að vera rithöfundur,“ segir hún og hlær.

Fylgir bókinni eftir

– Fanney segist með sínum veika samfélagsmiðlamætti reyna að fylgja bókinni eftir.
„Annars er ég nú svo heppin að hinir frábæru útgefendur hjá Bókabeitunni vildu gefa hana út. Svo Bókabeitan sér um að koma henni í bókabúðir sem og öðrum vönduðum bókum af þeim bænum. Hver veit svo hvað gerist. Kannski ég aki um sveitir landsins og hrelli bændur með einhverri söluræðu á miðjum matmálstíma. Eitthvað verð ég að gera til að reyna að vera annað en vinnukona hjá honum Steinþóri mínum.

Annars hefur þetta nú aldrei snúist um peningaskammirnar heldur fremur um að fá að deila því með öðrum sem maður telur að geti bætt og glatt. Eftir að hafa komist á bragðið þá sé ég hversu stórkostlega glaða það gerir mig að skrifa. Og á móti, afspyrnu geðvonda og leiðinlega að gera það ekki.“

Megum ekki hverfa inn í rafheima

– Að lokum er Fanney spurð hvernig hún sjái næstu árin hjá þeim Steinþóri á Fjarkastokki og hvernig þau ætli að þróa sig áfram í sveitinni?
„Ætli við þróumst ekki bara áfram eins og aðrir mannapar, á hvaða leið veit enginn. Kannski það vaxi á okkur aukaskanki til að halda símanum fyrir framan andlitin okkar. Ef svo fer þá vona ég að við berum gæfu til að skipta honum út fyrir góða bók.

Annars tel ég mikilvægast að við hverfum ekki alveg inn í rafheima og glötum þannig næmninni í samskiptum. Það skiptir ekki öllu hvort þessi samskipti eru við menn eða önnur dýr. Raunar held ég að samskiptin við dýrin séu oft hreinni og beinni og minni okkur enn betur á hvaðan við komum, hvar rætur okkar liggja.

Að temja hest er dans sem krefst leikni og sú sama leikni og sami dans á við í samskiptum við mannapa. Það er mikilvægt að tapa ekki taktinum, þurfa ekki stöðugt að telja, þá förum við að stíga á tærnar hvert á öðru,“ segir Fanney sem er sátt og sæl í sveitinni með Steinþóri sínum og dýrunum þeirra. 

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...