Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Fyrstu lömbin voru fædd í Austurhlíð í Biskupstungum þegar Trausti Hjálmarsson sauðfjárbóndi var heimsóttur á dögunum. Auk þess að vera nýlega kjörinn formaður Deildar sauðfjárbænda þá er hann einnig nýliði í stjórn Bændasamtakanna. „Þar er margt sem bendir til þess að sauðfjárbændur séu að standa sig mjög vel í alþjóðlegum samanburði. Það eru verðmæti fyrir okkur sem þjóð að eiga svona góða og öfluga sauðfjárbændur. Við megum ekki tapa því niður,“ segir Trausti.
Fyrstu lömbin voru fædd í Austurhlíð í Biskupstungum þegar Trausti Hjálmarsson sauðfjárbóndi var heimsóttur á dögunum. Auk þess að vera nýlega kjörinn formaður Deildar sauðfjárbænda þá er hann einnig nýliði í stjórn Bændasamtakanna. „Þar er margt sem bendir til þess að sauðfjárbændur séu að standa sig mjög vel í alþjóðlegum samanburði. Það eru verðmæti fyrir okkur sem þjóð að eiga svona góða og öfluga sauðfjárbændur. Við megum ekki tapa því niður,“ segir Trausti.
Mynd / ghp
Líf og starf 29. apríl 2022

Lykilþáttur að afurðaverð hækki

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Trausti Hjálmarsson, sauðfjárbóndi í Austurhlíð í Biskupstungum, er formaður Deildar sauðfjárbænda og á liðnu Búnaðarþingi var hann kjörinn í stjórn Bændasamtaka Íslands.

Trausti og eiginkona hans, Kristín Sigríður Magnúsdóttir, búa í Austurhlíð ásamt fjórum börnum sínum á aldrinum 7–17 ára. Þar halda þau bú sem telur 630 vetrarfóðrað fé, 25 hross, þrjá hunda og 15 ára gamlan kött. Samhliða búskap hefur Trausti starfað við hin ýmsu störf, s.s. rúning, járningar, í kjötmati hjá SS og í girðingaverktöku. Kristín hefur verið í ferðaþjónustutengdum störfum.

Trausti er ættaður frá Langstöðum í Flóa og er menntaður búfræðingur frá Hvanneyri. „Landbúnaðartengd störf hafa alltaf togað í mig. Ég fór um sveitir að rýja fyrir bændur og kom hingað í Austurhlíð til að rýja fyrir foreldra Kristínar, þannig kynnist ég heimasætunni og upp úr því fórum við að hafa samskipti. Ætli við verðum ekki að sitja uppi með hvort annað úr því sem komið er.“

Fjölskyldan í páskadagsreið í Haukadal 2022. Trausti, Egill Freyr, Sigríður Mjöll, Magnús Rúnar, Ingibjörg Elín og Kristín.

Bújörð Austurhlíðar hefur verið í eigu fjölskyldu Kristínar í 300 ár. Hún telur 1.000 hektara og þar hefur verið stundaður ýmiss konar búskapur gegnum tíðina. „Hér hefur verið stundaður svínabúskapur og mjólkurframleiðsla, hrossarækt og sauðfjárrækt. Það er mikil ábyrgð að taka við slíkri bújörð og skila henni svo áfram en okkur þykir það spennandi verkefni.“

Bændur eru nútímafólk

Trausti var kjörinn formaður Deildar sauðfjárbænda á Búgreinaþingi í mars og svo í stjórn Bændasamtakanna á nýliðnu Búnaðarþingi.

„Að vera í stjórn Bænda­samtakanna fylgir því fyrst og fremst í mínum huga að sameina landbúnaðinn, alla bændur. Þar held ég að við séum á réttri vegferð, enda fann ég það á Búnaðarþingi. Það var algjörlega átakalaust þing og áherslurnar voru samhljóða: Fæðuöryggi og íslenskur landbúnaður í allri sinni mynd. Við þurfum að berjast fyrir bættum lífskjörum fólk sem er að starfa við landbúnað, alveg sama í hvaða grein það er. Því fylgir einnig að gæta hagsmuna dreifbýlis, samtökin þurfa að vera virk í samtali um byggðarmál og byggðarþróun.“

Langfæsta sauðfjárbændur skortir meiri vinnu að sögn Trausta, enda flestir í öðrum störfum utan búrekstrar.

Innri uppbygging Bændasam- takanna er honum einnig hugleikin. „Það skiptir máli að samtökin séu sterk inn á við gagnvart bændum og út á við gagnvart almenningi. Bændur þurfa að finna að þeir eigi samastað í félagskerfinu. Aðrir þurfa að sjá að bændur eru nútímafólk – og eru flottir. Verkefni Bændasamtakanna er að sýna fram á það.“

Af lágu afurðaverði

Tæp 1.800 sauðfjárbændur eru starfandi á Íslandi í dag. Trausti segir fullan vilja og mikinn kraft í bændum til að halda áfram að framleiða lambakjöt.

„Þar er margt sem bendir til þess að sauðfjárbændur séu að standa sig mjög vel í alþjóðlegum samanburði,“ segir Trausti og vísar þar í skýrslu um Afkomu sauðfjárbænda á Íslandi og leiðir til að bæta hana. „Það eru verðmæti fyrir okkur sem þjóð að eiga svona góða og öfluga sauðfjárbændur. Við megum ekki tapa því niður.“

Vandamál greinarinnar liggja í lágu afurðaverði „Við höfum því miður alltof lítil verkfæri og tæki til þess að takast á við afurðaverðsvandann. Sauðfjárbændur hafa gríðarlega mikla þekkingu og getu til þess að halda áfram að framleiða góða vöru. Við þurfum að einbeita okkur að því að koma afurðatekjunum í eitthvert eðlilegt ferli þannig að við getum staðið undir rekstrarkostnaðinum okkar, þá eru okkur allir vegir færir,“ segir hann og undirstrikar að vel flestir sauðfjárbændur þurfi að vinna utan búskapar til þess að standa undir lífsviðurværi sínu.

„Lykilverkefnið er að afurðaverð hækki, að við komumst á þann stað að rekstrareiningin kind geti verið rekstrarhæf með ákveðnum forsendum. Að það sé mitt val að vera með 600 kindur og vinna með, en það sé ekki þannig að ég verði að vinna með því eins og þetta er í dag.“

Verkefnið sé brýnt. „Við höfum dregið úr framleiðslu síðustu árin í þeirri von að jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar. Við erum að anna innanlandsmarkaði vel í dag en með aukningu ferðamanna á næstu árum og ef okkur gengur vel að markaðssetja vöruna þá getum við hæglega lent í þeirri stöðu að vera ekki að framleiða nóg. Það væri mjög vond staða að lenda í. Eitt af þeim verkefnum sem Deild sauðfjárbænda verður því að einbeita sér að er hvernig við náum að verja framleiðsluvilja bænda til að framleiðslan fari ekki of langt niður með tilheyrandi kostnaði seinna við að byggja hana upp aftur.“

Kerfislægur vandi

Lausnin er ekki augljós að mati Trausta. „Þetta er kerfislægur vandi sem ekki verður leystur nema að líta til allra þátta framleiðsluferlisins. Bændur eru búnir að vera að hagræða heima á búum mjög markvisst síðustu 20 árin. Breytilegur kostnaður er nánast sá sami öll þessi ár og við höfum aukið framleiðslu eftir kind sem gerir þetta hagkvæmara. En það vantar alltaf upp á að afurðaverðið sé í takt við þá hagræðingu.

„Sauðfjárbændur hafa unnið mjög athyglisvert ræktunarstarf frá aldamótum þar sem framleiðsla á hverja kind hefur aukist mikið. Það er út af fyrir sig risastórt skref í loftslagsmálum,“ segir Trausti.

Við höfum verið að horfa til þess að heimila afurðastöðvunum aukna samvinnu. Þar erum við að horfa á tækifæri upp á 1,5 milljarða, sem gæti skilað sér til bænda og neytenda. Afurðastöðvar þurfa að leita allra leiða, rétt eins og við, til að hagræða í sínum rekstri, þannig að þær geti greitt hærra skilaverð til bænda. Þá þarf verslunin einnig að skoða hvort hún geti hagrætt.“

Jákvæðar loftslagsaðgerðir

Á síðastliðnum 5 árum hefur kindum í landinu fækkað um tuttugu prósent. „Sauðfjárbændur hafa unnið mjög athyglisvert ræktunarstarf frá aldamótum þar sem framleiðsla á hverja kind hefur aukist mikið. Það er út af fyrir sig risastórt skref í loftslagsmálum. Ég held að bændur hafi nú þegar framkvæmt margar jákvæðar loftslagsaðgerðir ómeðvitað, en verið kannski fyrst og fremst að hugsa um sinn búrekstur. En þær ákvarðanir fela í sér loftslagslegan ávinning.“

Mikilvægi smærri búa

Talið berst að þróun sauðfjárræktar næstu árin. Um leið og augljóst sé að einhverjir bændur muni hætta búrekstri og önnur bú sjá hagræðingu í stækkun muni þróunin hennar aldrei vera sambærileg við nautgripabúskap, að sögn Trausta.

Trausti og Kristín búin að handsama lambhrút.

„Ólíkt kúabúum þurfa sauðfjárbú hlutfallslega meira landrými. Við þurfum að hafa vorbeit fyrir féð þegar það fer út, uppskera sama land til heyöflunar og beita aftur að hausti áður en lömb fara til slátrunar. Ef bú eiga að fara út í stærðarhagræðingu þá þurfa þeir bændur að geta keypt jarðir til að auka við sig. Ég sé það ekki í hendi mér að fjöldi bænda geti farið í þá vegferð. Það er alltaf að þrengja að landbúnaðarlandi, jarðir eru oft í eigu aðila sem eru ekki með búsetu þar. Því hefur þrengt mjög að möguleikum bænda að bæta við sig jarðnæði. Einhverjir eru samt að því, sem betur fer.

Það er mjög mikilvægt að halda smærri búum í rekstri. Þau eiga alltaf sinn fjölþætta tilverurétt; þau styrkja sveitirnar og þann félagslega kraft sem er í bændum. Á mörgum svæðum eru stærri búin ekki síður háð því að hafa þessi minni með til þess að það sé bara mannskapur til smölunar, til að viðhalda grunnþjónustu, að það séu börn í skólum og félagslífið í sveitinni sé virkt svo eitthvað sé nefnt.“

Hann vill einnig taka beitar- umræðuna fastari tökum. „Það er virkileg þörf og nauðsyn að lægja öldurnar varðandi beit. Við þurfum að geta rætt þetta án öfga og fullyrðinga. Landgræðslan verður að geta bent bændum á lausnir og bændur verða að geta bent Landgræðslunni á lausnir. Bændur hafa stytt beitartímann, fé hefur fækkað og það er því margfalt minna álag á þessi lönd en var. Landið er í framför og bændur hafa litið þannig á að beit teljist sjálfbær svo lengi sem landið sé í framför. Hins vegar er nauðsynlegt að bændur og Landgræðslan komi sér saman um stefnu og áætlun sem hægt er að vinna að saman. Við eigum að nýta sameiginlega hagsmuni okkar til góðra verka.“

Spennandi genasamsetning

Riðuveikin var mál málanna á tveggja daga Fagþingi sauðfjárræktarinnar sem haldið var á Hvanneyri í byrjun mánaðarins. „Það er alveg ótrúlegt að upplifa þennan kraft í tengslum við nýja uppgötvun ARR gensins í Þernunesi og svo mögulega verndandi arfgerð T137, sem er mjög spennandi eiginleiki líka. Við megum aldrei gera lítið úr þeim aðgerðum sem hefur verið farið í gegnum tíðina. Þær hafa skilað ákveðnum árangri. Ekki þó þannig að við séum búin að útrýma riðunni. Þær ákvarðanir voru allar teknar eftir bestu vitund fólks á þeim tíma. Nú erum við komin með nýjar upplýsingar. Bændur geta ekki beðið eftir að fara að rækta riðunæmið út úr stofninum. Það er mikill hugur í þeim að byrja strax í haust, fá þessa tilteknu hrúta inn á sæðingastöð og svo í framhaldi að setja upp ræktunarplan og stefnu. Við erum öll að fara af fullum krafti í það.“

Þurfa ekki meiri vinnu

Í fyrra var sauðfjár- og geitabændum í fyrsta sinn heimilt, samkvæmt reglugerð, að slátra heima. Fáir bændur nýttu sér hins vegar leyfið. Trausti segir augljósa ástæðu þessa.

„Það skortir langfæsta bændur meiri vinnu. Þá skortir frekar auknar tekjur. Það er gríðarlega mikilvægt að kerfið kringum heimaslátrunina og vinnslu afurða heima á býli sé með þeim hætti að sjái fólk sér tækifæri í að gera þetta, það sé þá einfalt og auðvelt. Þetta er nýtt fyrir okkur og við eigum eftir að sjá hvert þetta getur leitt. En í grunninn er það þannig að fæstir bændur hafa haft tíma til þess að sinna þessu. Þeir eru bara í öðrum störfum.“

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...