Menntaverðlaun Suðurlands afhent í fjórtánda sinn
Menntaverðlaun Suðurlands 2021 voru afhent í fjórtánda sinn fimmtudaginn 13. janúar síðastliðinn. Alls bárust átta tilnefningar til verðlaunanna.
Magnús J. Magnússon, fyrrverandi skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, hlaut verðlaunin fyrir framlag sitt til eflingar leiklistarstarfs meðal grunnskólanema.
Það eru Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), sem veita verðlaunin á hverju ári. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi, sem um leið er hvatning til frekari dáða.
Verðlaunahafinn 2021 hefur í áratugi stýrt leiklistarkennslu í þeim skólum sem hann hefur starfað við. Ásamt því að vera skólastjóri, stýrði Magnús leikhópnum „Lopa“, sem er nemendaleikhópur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Auk þess hefur hann nýtt leiklistina til að efla samskipti og samskiptahæfni í bekkjum skólans, sem hefur eflt nemendur og styrkt þá í félagsfærni og samskiptum, svo eitthvað sé nefnt af því sem Magnús hefur gert.