Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Unnið við að sauma vörur í framleiðslusal fyrirtækisins í Ármúla í Reykjavík.
Unnið við að sauma vörur í framleiðslusal fyrirtækisins í Ármúla í Reykjavík.
Mynd / ehg
Líf og starf 11. desember 2020

Mýkt lambsullarinnar skapar ný tækifæri

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Undanfarin þrjú ár hefur fyrirtækið Varma þróað nýtt íslenskt lambsullarband í samstarfi við Ístex sem unnið er úr ull af ásetningum. Markmiðið með verkefninu var að þróa band sem væri mýkra en hefðbundið einband sem notað er í vélprjón og um leið auka virði afurða íslenskra sauðfjárbænda. Nú eru ýmsar vörur frá VARMA úr bandinu komnar á markað og hefur þeim verið vel tekið auk þess sem ýmis þekkt íslensk vörumerki eru farin að láta VARMA framleiða fyrir sig vörur úr nýja lambsullarbandinu.

„Eftir margháttaðar prófanir og endurbætur í öllu ferlinu frá bónda til vöru hefur tekist að ná frábærum árangri. Þetta er mál sem margir bændur tengjast og enn fleiri hafa áhuga á. Það hafði alltaf verið þessi gagnrýni með íslenska ullarbandið að það stingi svo mikið, svo ég fór á fjörur Ístex í von um samstarf með að þróa mýkra band sem svo sannarlega tókst,“ segir Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri og eigandi VARMA. 

Minna þvermál lambsháranna

Textílverkfræðingur Ístex, Sunna Jökulsdóttir, kom með góða þekkingu inn í þróunarvinnuna.

„Við höfðum áður skoðað möguleikana á að skilja að togið og þelið en það eru ekki til neinar vélar sem gera það nógu vel þegar þarf að gera það í einhverju magni. Þá fengum við þá hugmynd að prófa lambsullina, en þvermál háranna þar er mun  minna en á fullorðnu fé. Eftir því sem þvermálið eykst því harðara prjónavoð fær maður og því meira stinga toghárendarnir sem standa út úr. Það er talað um míkrónþvermál í þessu og á meðan íslensk ærull er um 34 míkrón þá er til dæmis merínóull í kringum 20 míkrón. Við náðum íslensku lambsullinni niður í 24 míkrón og erum því ansi nálægt merínóullinni í mýkt,“ útskýrir Páll og segir jafnframt:  

„Lambsullin sem nýtist í þessu ferli er af ásetningum, það er þau lömb sem fá að lifa og eru rúin eftir að þau eru sett í hús á haustin. Langstærstur hluti af mjúkri ull í heiminum er af lömbum og er til dæmis uppistaðan í merínóullarframleiðslu í löndum eins og Ástralíu og NýjaSjálandi. Vegna veðurfars er hægt að rýja öll lömb þar áður en þau fara í slátrun svo þar er mun meira magn af mjúkri ull í boði.“

Hér sýnir Birgir Einarsson prjónameistari vörur með Páli eiganda.

Ullar og þvottaferli

Það var að ýmsu að huga í ferlinu frá bónda til fullunninna vara hjá VARMA og segir Páll undanfarin ár í þróunarvinnunni bæði hafa verið krefjandi og skemmtileg. 

„Það sem hefur skipt gríðarlega miklu máli er að lágmarka allt í ferlinu sem gerir ullina, bandið og prjónavoðina harða. Þar eru til dæmis rúningurinn, þvotturinn og þurrkunin mjög mikilvægir þættir sem og að öll efni og þurrkun séu þannig að ullin verði sem mýkst og meðfærilegust í vinnslu. Einnig þarf að passa upp á að ullarfitan sé ekki öll þvegin úr og lagði Ístex til heilmikla vinnu við að finna út úr þáttum sem að því sneru. Við gerðum líka heilmargt og skiptum til dæmis alfarið yfir í náttúruleg efni við þvott og mýkingu og breyttum þurrkunarferli voðarinnar ásamt ýfingu hjá okkur til að fá meiri fyllingu inn í bandið þegar búið var að þvo voðina,“ segir Páll og bætir við:

„Síðan prófuðum við að láta Ístex lita í nokkrum litum hluta af fyrstu kembunni, sem var 300 kíló, og komumst að því að litunin hefur áhrif á mýktina svo þá hófst ferli í kringum það að minnka þau áhrif. Vorið eftir voru framleidd 900 kíló af bandi sem við framleiddum alls kyns VARMAvörur úr og prófuðum okkur áfram. Eftir það var bandið orðið eins mjúkt og við töldum okkur geta náð því og þá hófst alvöru magnframleiðsla á lambsullarbandi fyrir okkur hjá Ístex og erum við nú komin með band í 18 litum. Þannig að þetta er búið að vera mikil þróunarvinna og í raun tímamótaverkefni sem hefur kostað okkur yfir 15 milljónir króna. Við fengum styrk úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins en Rannís hefur hafnað okkur í þrígang, sem er mjög sérstakt finnst okkur.“

Sólveig Davíðsdóttir var iðin á sníðaborðinu hjá Varma þegar blaðamaður Bændablaðsins leit við á dögunum. Hér sníðir hún flíkur fyrir hönnunarmerkið MAGNEA. 

Tengja saman hönnun og markaðssókn

Fyrirtækið hefur ekki farið varhluta af ástandinu sem tengist heimsfaraldrinum á þessu ári en í upphafi árs störfuðu 20 manns hjá VARMA. Tveir þriðju hlutar veltunnar hafa undanfarin ár komið frá sölu til erlendra ferðamanna. 

„Við erum með um 140 vörunúmer í yfir 500 útfærslum í dag og um 65% af VARMAvörunum okkar eru úr íslenskri ull. Eftir að  lambsullarbandið var endanlega tilbúið fórum við og kynntum það fyrir ýmsum fyrirtækjum og höfum í kjölfar þess aukið framleiðslu hjá okkur verulega fyrir sérmerki eins og Cintamani, Ellingsen, Epal, Farmers Market, Kormák & Skjöld, Rammagerðina og ýmsa fleiri, sem og ýmsa hönnuði eins og Magneu, Helgu Lilju, Sigrúnu Unnars og fleiri, sem hafa tekið íslenska lambsullarbandinu afbragðs vel. Við erum líka byrjuð að kynna nýja lambsullarbandið fyrir ýmsum erlendum aðilum, sem hafa verslað við okkur í gengum tíðina. Okkar markmið með lambsullarverkefninu er að vinna með ullina á nýjan hátt með áherslu á sjálfbærni og umhverfismeðvitaðan hátt og nú erum við komin á þann stað að fara að tengja hönnun og markaðssókn saman,“ útskýrir Páll og segir jafnframt:

„Minn draumur hefur alltaf verið að allar VARMAvörurnar séu úr íslenskri ull og þetta er stórt skref í þá átt. Minn metnaður er að skipta þeim vörum sem við framleiðum úr innfluttu bandi yfir í íslenskt lambsullarband. Það hefur verið megintilgangurinn með þessari vegferð sem og að tengja okkur meira við íslenskan landbúnað, sauðfjárbúskap, hönnuði og íslenska náttúru, því það eru mikil lmarkaðstækifæri í því, sem við ætlum að nýta á næstu árum.“ 

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...