Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Fyrir utan tölvuteiknuðu myndina utan við framrúðurnar er fátt sem gefur upp að flughermirinn er ekki raunveruleg flugvél. Takkar og stjórntæki eru þau sömu og í ekta flugvélum. Hér er hermirinn í aðflugi til Akureyrar.
Fyrir utan tölvuteiknuðu myndina utan við framrúðurnar er fátt sem gefur upp að flughermirinn er ekki raunveruleg flugvél. Takkar og stjórntæki eru þau sömu og í ekta flugvélum. Hér er hermirinn í aðflugi til Akureyrar.
Mynd / ál
Líf og starf 27. febrúar 2025

Næstum eins og flugvél

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið tók til prufu Boeing 737 Max-8 flughermi sem er notaður við þjálfun flugmanna. Þetta er einn af nokkrum sambærilegum flughermum sem CEA Icelandair Flight Training, dótturfyrirtæki Icelandair, á og rekur í Hafnarfirði.

Að utan er tækið hvítt hylki á sex tjökkum og það eina sem bendir til þess að það hafi eitthvað með flugvél að gera er stórt Icelandair merki á hliðinni og tegundarheiti flugvélar ofan við innganginn. Flughermirinn stendur hátt uppi í stóru og opnu rými og er gengið um borð eftir manngangi.

Það fyrsta sem tekur við innan við dyrnar er opið rými þar sem leiðbeinandinn er með sæti og tölvur til að stjórna tækinu. Þar fyrir innan er flugstjórnarklefi sem er nákvæm eftirlíking af þeim sem eru í Boeing 737 Max-8 flugvélunum, með sömu tökkum, skjáum og innréttingum og í ekta flugvélum.

Þegar sest er í flugstjórnarsætið er ekkert sem gefur til kynna að þetta sé ekki ekta flugvél nema tölvuteiknuð mynd af umheiminum sem er varpað á skjá utan við framrúðurnar. Öll helstu kennileiti eru til staðar en upplausnin er ekki fullkomlega sannfærandi. Svo raunveruleg var upplifunin að þegar annar leiðbeinandinn tók flugvélina í smá listflug yfir hálendi Íslands leið undirrituðum eins og hann myndi kastast úr sætinu – sem gerðist auðvitað ekki.

Gögnin um það hvernig flugvélin hegðar sér koma frá Boeing og hreyfist hermirinn í allar áttir í samræmi við það sem flugvélin er að gera og framkallar öll viðeigandi hljóð. Flughermirinn er framleiddur af kanadísku fyrirtæki og á ekkert skylt við Microsoft Flight Simulator tölvuleiknum.

Takkar frá gamalli tíð

Til þess að auðvelda aðgengið að flugstjórasætinu er það á sleða sem fer ríflega aftur. Þegar flugmaðurinn hefur sest getur hann dregið sætið nær stýrinu, stillt hæð þess og dregið fótstigin fram eða aftur. Sætin eru ekki aðlaðandi á að líta en eru býsna þægileg.

Allt í kringum flugmennina, frá lofti niður í gólf, eru hnappar, slár, stangir, hjól og fleiri stjórntæki. Þar sem 737-línan af flugvélum frá Boeing hefur verið í notkun frá sjöunda áratugnum eiga flestir takkarnir rætur að rekja til þess tíma, en til þess að einfalda þjálfunarkröfur flugmanna er reynt að takmarka breytingar á starfsumhverfinu. Fyrir ókunnugum virðist öllu ægja saman, en uppsetning stjórntækjanna er mjög skipulögð.

Framan við flugmennina eru hins vegar stórir og nútímalegir skjáir. Ólíkt því sem er í bifreiðum nútímans þá eru þessir eingöngu til að veita upplýsingar og eru ekki snertiskjáir. Til hliðar hefur spjaldtölvum verið komið fyrir sem hafa að geyma handbók flugvélarinnar og upplýsingar um flugleiðina sem voru áður á pappírsformi.

Sundl í hægum akstri

Ekki er nóg að snúa einum lykli þegar flugvélin er ræst, heldur þarf fyrst að kveikja á litlum þotumótor í stélinu sem sér um að framleiða straum fyrir önnur kerfi og framkallar loftþrýsting til að snúa þotuhreyflunum í gang. Eftir það er hægt að drepa á stélmótornum.

Þegar ekið er af stað er það fyrsta sem óvanir finna talsvert sundl þar sem upplifunin af hreyfingu flugvélarinnar er ótrúlega raunveruleg en það vantar herslumuninn til þess að jafnvægisskynið og augun upplifi það sama. Um leið og rólegum akstri er lokið og byrjað er að fljúga hverfur þessi tilfinning.

Í rólegum akstri á jörðu niðri, sem er kallað að taxera í bransanum, notar flugmaðurinn lítið stýri til hliðar við sig. Á meiri hraða við flugtak og í flugi er stýrt með fótstigunum, en þau hreyfa bæði við stýrisblaðinu að aftan og nefhjólinu. Til þess að bremsa hjólunum er fótstigunum hallað fram.

Stýrishjólið (sem er ekki hjól) breytir horninu á vængblöðunum þegar því er snúið. Dragi flugmaðurinn það að sér lyftast bæði vængblöðin á stélinu sem beinir flugvélinni upp og tekur hún stefnuna niður sé stýrinu þrýst fram. Milli flugmannanna eru sveifar sem eru inngjafir fyrir hreyflana.

Útsýnið fram á við er býsna gott, enda sitja flugmennirnir hátt uppi og sjá flugmennirnir nánast óskert í rúmar 180 gráður. Allt aftan við vélina og til hliða er blindur punktur, enda engir hliðarspeglar eða bakkmyndavélar.

Fljótlega eftir að ekið er af stað byrjar flugmaðurinn að heyra raddir, en flugvélin gefur sjálfkrafa ýmsar nytsamlegar upplýsingar eins og númer flugbrautarinnar þegar ekið er að enda hennar. Þegar setningar eins og „Caution! Terrain!“ eða „Terrain! Terrain! PULL UP!“ eru sagðar með mjög reiðri röddu í flugi bendir ýmislegt til þess að flugmennirnir séu að nálgast hindrun og gætu verið við það að brotlenda. Við lendingu heyrist í röddu sem telur niður hversu langt er í jörðina. Sumar skipanirnar eru sagðar af konu og aðrar af karli og heyrist í þeim sitt og hvað þegar mikið er í gangi.

Flughermirinn stendur á sex tjökkum sem framkalla hreyfingar í allar áttir.

Flogið frá Akureyri til Keflavíkur

Þegar komið er að enda flugbrautarinnar er tekin skörp u-beygja með hliðarstýrinu. Þegar flugvélin er komin í stöðu eru vængbörðin (flapsar) sett niður nokkrar gráður sem eykur lyftikraft vængjanna. Inngjöfunum er þrýst alla leið fram og hallast hermirinn aftur og hreyfist til að líkja eftir því að þeytast af stað. Öll hljóð eru eins og í raunveruleikanum, nema ekki á fullum styrk.

Þegar hraðamælirinn sýnir 140 hnúta er togað í stýrið og flugvélin tekst á loft. Þá sést lítið nema himinninn og fylgist flugmaðurinn með halla flugvélarinnar með svokölluðum gervisjóndeildarhring sem er á skjánum fyrir framan hann. Upplifunin er nánast eins og að sitja í alvöru flugvél en það eina sem vantar er fiðringinn í magann.

Þegar flugvélin er komin í ákveðna flughæð er hægt að kveikja á sjálfstýringunni með því að ýta á nokkra takka og velja réttan hraða, stefnu og hæð. Flugmaðurinn velur áfangastaðinn í tæki sem er eins og gömul transistor-tölva frá sjöunda áratugnum.

Stærstur hluti þessa prufuaksturs var flug frá Akureyri til Keflavíkur. Flogið var nokkuð lágt til þess að umhverfið sæist betur. Að degi til er augljóst að horft er á tölvuteiknaða mynd, en stilli leiðbeinandinn á næturflug er erfitt að sjá mun á þessu og raunveruleikanum, sérstaklega í nágrenni þéttbýlis. Leiðbeinandinn getur aukið ókyrrð að vild og framkvæmt allar mögulegar bilanir.

Í lendingu getur flugmaðurinn miðað við punkt sem birtist á gervisjóndeildarhringnum ásamt því að horfa á umhverfið. Undirritaður brotlenti á Keflavíkurflugvelli, en við það heyrist brothljóð og myndin á skjánum hverfur og verður rauð. Að öðru leyti var brotlendingin ekki mjög dramatísk og gat leiðbeinandinn hafið flugvélina aftur á loft með nokkrum smellum.

Að lokum

Flughermir af þessu tagi kostar í kringum einn og hálfan milljarð króna á meðan ný Boeing 737 kostar töluvert meira. Með því að vera með flughermi hér á landi getur Icelandair lækkað kostnað sem fylgir því að senda flugmenn til reglubundinnar þjálfunar, en áður fyrr var eingöngu nýttur flughermir erlendis. Þá nýta önnur flugfélög aðstöðuna hérlendis fyrir sína flugmenn.

Skylt efni: prufuakstur

Með frumskóg lífsins í huga
Líf og starf 27. mars 2025

Með frumskóg lífsins í huga

Frásagnatöfrarnir finnast í pennum fólks víða um land og ekki síst þeirra sem al...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 24. mars 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn skal trúa því að plön hans og áætlanir munu ganga upp ef hann gætir ...

Kjörbúðarbeikon og tvenns konar egg
Líf og starf 19. mars 2025

Kjörbúðarbeikon og tvenns konar egg

Beikon kemur í mörgum útgáfum; misþykkt, missalt, misdýrt og stundum mislukkað. ...

Óskar Örn
Líf og starf 19. mars 2025

Óskar Örn

Nafn: Óskar Örn Rikardsson.

Virkni félagslífsins fyrir öllu
Líf og starf 18. mars 2025

Virkni félagslífsins fyrir öllu

Við heimskautsbauginn, rúma fjörutíu km frá landi, liggur nyrsta byggð Íslands, ...

Hressandi list í almannarýminu
Líf og starf 18. mars 2025

Hressandi list í almannarýminu

Á Skagaströnd mega skapandi einstaklingar leggja gjörva hönd að því að hressa up...

Nauðsyn samvinnu
Líf og starf 17. mars 2025

Nauðsyn samvinnu

Árið 2025 ýtir úr vör þungum róðri tískuiðnaðarins þar sem nýsköpun og sjálfbærn...

Úr sveit á sigurbraut
Líf og starf 17. mars 2025

Úr sveit á sigurbraut

Systkinin Árný Helga og Stefán Þór Birkisbörn voru meðal keppenda á Vetrarólympí...