Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Nytjaviður í hlíðum Reykjafjalls.
Nytjaviður í hlíðum Reykjafjalls.
Líf og starf 31. mars 2020

Námsbraut um ræktun skóga og umönnun þeirra

Höfundur: Björgvin Örn Eggertsson

Á starfsstöð LbhÍ á Reykjum í Ölfusi fer fram kennsla á starfsmenntabrautum garð­yrk­j­­unnar. Ein af námsbrautunum er Skógur og náttúra. Námið veitir undirstöðuþekkingu til starfa sem snúa að ýmsum land­bótum eins og skógrækt og landgræðslu.

Kenndar eru grunngreinarnar náttúrufræði, jarðvegs- og áburðarfræði, plöntuþekking, plöntulífeðlisfræði, vistfræði og umhverfisfræði. Fjallað er ítarlega um skógrækt á Íslandi, nýtingu skógarafurða, skjólbelti, útivistarsvæði og friðlönd.

Nemendur á braut skógar og náttúru sá trjáfræi í tilraunahúsinu á Reykjum. Myndir / Björgvin Ö. Eggertsson.

Verkleg kennsla í skóginum á Reykjum

Þá tvo vetur sem bóknámið fer fram taka nemendur þátt í fjölmörgum verklegum æfingum eins og gróðursetningu og grisjun. Plöntunum sem gróðursettar eru hafa nemendur fjölgað í verklegu námi í skógarplöntuframleiðslu við skólann. Skógurinn á Reykjum er ein af helstu kennslustofum brautarinnar og notaður sem slík allt árið. Þannig kynnast nemendur betur breytileika árstíðanna. Skóginum þarf að sinna á mismunandi hátt eftir trjátegund, aldri og þéttleika reitanna. Mestu hefur verið plantað af greni, furu, ösp og birki. Hæstu trén á Reykjum eru þyrping sitkagrenitrjáa sem kallast Systurnar þrjár og eru þær orðnar rúmir 20 metrar á hæð. Í yngri hlutum skógarins fer fram ýmis umhirða eins og millibilsjöfnun sem framkvæmd er með kjarrsög, þar sem teinungur er sagaður frá framtíðartrjám og of þéttar gróðursetningar lagfærðar. Trjámælingar eru gerðar þar sem fjöldi og hæð trjáa er mældur til að meta rúmmálsaukningu viðar og eins til að ákvarða hvort komið sé að grisjun. Grisjunin fer fram með keðjusögum og læra nemendur að fella tré á öruggan hátt og meta mögulega nýtingu á viðnum sem fellur til við grisjunina. Efnið er síðan flutt úr skóginum og nýtt í mismunandi viðarvinnslu, eins og spírur, kurl, arinvið eða sagað með flettisög í borð og planka.

Umhirða, viðhald og áætlanagerð

Kennd er gerð skógræktar­áætlana þar sem reitir eru teiknaðir inn á kortagrunna og ástand skógarins er skráð. Farið er í skipulag, uppsetningu og umhirðu skjólbelta og hvar þau nýtast best og á hagkvæmastan hátt. Í skógarvinnunni þarf að taka tillit til gangandi umferðar og hestaferða sem eru mikið stundaðar í skógræktinni á Reykjum. Tengir það kennsluna við uppbyggingu og viðhald á útivistarsvæðum og friðlöndum. Einnig er farið í skoðunar- og verkefnaferðir í skóglendi og á ferðamannastaði í nágrenninu. Markmiðið er að þjálfa og mennta góða verkmenn og verkstjóra til skógræktar- og landbótastarfa.

Hallur Björgvinsson skoðar skjólbelti með nemendum.

Skógtæknar eru eftirsóttir í skógarumhirðu, verkstjórn og ráðgjöf

Að loknu námi eru nemendur garðyrkjufræðingar af braut skógar og náttúru, eða skógtæknar. Skógtæknar starfa við skóg- og trjárækt og koma að ýmsu sem tengist uppgræðslu, landbótum, náttúruvernd, útivistar- og ferðaþjónustusvæðum, grænum svæðum í þéttbýli svo nokkuð sé nefnt. Námið er einnig góður undirbúningur fyrir háskólanám í skógfræði og landgræðslu, umhverfisfræði og líffræði.

Hægt er að sækja um nám á haustönn 2020 á heimasíðu LbhÍ:  lbhi.is

Björgvin Örn Eggertsson, námsbrautarstjóri Skógar
og náttúru, LbhÍ Reykjum

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...