Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Námskeið, markaðstorg og prjónasamkeppni
Mynd / Svanhildur Pálsdóttir
Líf og starf 31. maí 2023

Námskeið, markaðstorg og prjónasamkeppni

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Prjónagleðin, árviss prjóna- og garnhátíð haldin á Blönduósi, verður haldin í sjöunda sinn 9.–11. júní.

Svanhildur Pálsdóttir. Mynd / Sarah Woodall

Að sögn Svanhildar Pálsdóttur, sem er starfsmaður Textílmiðstöðvar Íslands og kemur að skipulagningu hátíðarinnar, er dagskráin fjölbreytt sem endranær og ber þar hæst spennandi námskeiðsdagskrá og sérstakt Garntorg þar sem söluaðilar sýna sínar vörur – auk ýmissa annarra prjónatengdra viðburða.

Snillingar á sínu sviði

„Námskeiðin sem boðið er upp á tengjast að sjálfsögðu öll prjónaskap, hekli, garni og ull og kennararnir eru einvalalið, snillingar á sínu sviði.

Það ættu allir að finna námskeið við sitt hæfi, hvort sem um er að ræða byrjendur eða þaulreynda prjónara.

Það er endalaust hægt að bæta við sig kunnáttu og læra eitthvað nýtt enda seljast námskeiðin eins og heitar lummur og er nú þegar orðið uppselt á mörg þeirra,“ segir Svanhildur.

Textílmiðstöð Íslands hefur að sögn hennar verið í mikilli uppbyggingu og er nú orðin mjög vel tækjum búin. „Það er því gaman að segja frá því að á Prjónagleðinni verður bæði boðið upp á námskeið í hefðbundinni tóvinnu – þar sem þátttakendur læra meðal annars að spinna á rokk – sem og námskeið þar sem þátttakendur kynnast verklagi við að nota stafræna prjónavél sem er sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis.“

Danskur pjónahönnuður gestur hátíðarinnar

Sérstakur gestur hátíðarinnar að þessu sinni er danski prjónahönnuðurinn og prjónakonan Lene Holme Samsøe.

„Hún er íslensku prjónafólki að góðu kunn enda hafa komið út eftir hana fjölmargar prjónabækur hérlendis.

Hún mun halda námskeið og fyrirlestra og það gefst einstakt tækifæri á Prjónagleðinni að kynnast henni og hennar prjónaferli,“ segir Svanhildur. Boðið verður upp á dagsferð frá Reykjavík á Prjónagleðina og er það nýnæmi. Prjónarútan mun leggja af stað úr Reykjavík snemma dags laugardaginn 10. júní og koma aftur í bæinn fyrir miðnætti sama dag.

Skipuleggjendur hátíðarinnar vonast til að þetta mælist vel fyrir og að það þurfi stóra rútu fyrir hópinn sem nýtir sér þennan möguleika.

Garntorgið fastur liður

„Garntorgið er fastur liður á Prjónagleðinni og verður á sínum stað í Íþróttamiðstöðinni.

Þar verða að þessu sinni 24 söluaðilar með sínar vörur, handlitarar, smáspunaverksmiðjur, handverksfólk og verslanir með garn og prjónatengdan varning. Íslenska ullin skipar stóran sess á Garntorginu eins og vera ber og er mjög ánægjulegt að sjá hversu margir eru að búa til úr henni band, lita og vinna á fjölbreyttan hátt.

Á Garntorginu verður huggulegt kaffihús og tilvalið að taka sér bíltúr úr nágrannabyggðalögum, líta á stemninguna og úrvalið og fá sér kaffi og dýrindis meðlæti,“ segir Svanhildur.

Að sögn Svanhildar er alltaf haldin hönnunar- og prjóna- samkeppni í tengslum við Prjóna- gleðina. Að þessu sinni sé verkefnið að endurvinna gamla, notaða og slitna íslenska lopapeysu og nýta hana sem grunnefnivið í nýja nothæfa flík. Úrslit keppninnar ráðast út frá frumleika, notagildi og handverki og verða þau tilkynnt laugardaginn 10. júní á Garntorginu þar sem verkin verða til sýnis meðan á hátíðinni stendur. Ístex, Tundra, VatnsnesYarn og Rúnalist gefa verðlaun í samkeppninni.

Hún segir að heimafólk og fyrirtæki taki virkan þátt í hátíðinni og kappkosti við að þjónusta gesti hennar sem best.

Á sunnudagsmorgun verður prjónamessa og opið hús í Ullarþvottastöð Ístex, Heimilisiðnaðarsafnið verður opið og
ýmislegt fleira verður um að vera.

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Líf og starf 3. desember 2024

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni

Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áh...

Augnlitir í sauðfé
Líf og starf 3. desember 2024

Augnlitir í sauðfé

Sjöunda útgáfa Hvammshlíðar­dagatals hefur litið dagsins ljós.

Norðurljós í nóvember
Líf og starf 2. desember 2024

Norðurljós í nóvember

Tími tunglsins og norðurljósanna hefur nú gengið í garð, en óvenjubjart hefur ve...

Vefnaður úr kasmír
Líf og starf 2. desember 2024

Vefnaður úr kasmír

Hlýlegir treflar, sjöl og peysur úr kasmír er eitthvað sem okkur flestum þykir ó...

Kjötbókin 30 ára
Líf og starf 2. desember 2024

Kjötbókin 30 ára

Kjötbókin er 30 ára á þessu ári. Hún kom fyrst út í prentaðri útgáfu árið 1994 o...

Skákþrautir á netinu
Líf og starf 2. desember 2024

Skákþrautir á netinu

Gríðarlegur fjöldi skákþrauta standa skákáhugafólki til boða til að æfa sig á á ...

Sveitabúðin Una
Líf og starf 28. nóvember 2024

Sveitabúðin Una

Hjónin Rebekka Katrínardóttir og Magnús Haraldsson hafa rekið sveitabúðina Unu n...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 25. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gæti átt von á þrálátum veikindum. Hann ætti að gæta vel að sjálfum ...