Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Stöllurnar Ólöf Ása Benediktsdóttir, Björk Sigurðardóttir og Bryndís Þórhallsdóttir í fínum gír á þorrablóti næstum því forðum daga.
Stöllurnar Ólöf Ása Benediktsdóttir, Björk Sigurðardóttir og Bryndís Þórhallsdóttir í fínum gír á þorrablóti næstum því forðum daga.
Mynd / Benjamín Baldursson
Líf og starf 28. janúar 2022

Nokkur hundruð munu horfa á sameiginlega dagskrá

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Það er mikil stemning fyrir þessu blóti enda flestar almennar skemmtanir í spennitreyju þessa dagana, skráning á Facebook-síðu blótsins er á miklu flugi,“ segir Sigurður Friðleifsson, formaður þorrablótsnefndar Eyjafjarðarsveitar.

Gripið er til þess nú að halda rafrænt þorrablót í sveitinni og geta þeir sem skrá sig tekið þátt heima við, en dagskrá með ræðuhöldum, skemmtiatriðum og söng verður send út til þátttakenda. Blótið verður haldið laugardagskvöldið 29. janúar og hefst útsending kl. 21.00.

Ísleifur Ingimarsson gerir sig líklegan til að innbyrða súran pung.

„Líklega munu nokkur hundruð fylgjast með og horfa á sameiginleg skemmtiatriði þó að hvert og eitt smáblót í heimahúsum sveitarinnar verði eins fjölbreytt og heimilin eru mörg.“

Þorrablótið fyrir árið 2021 féll niður vegna kórónuveirunnar og sú skæða veira setti líka strik í reikninginn nú. Eyfirðingar dóu ekki ráðalausir og bjóða upp á fulla skemmtidagskrá líkt og um hefðbundið blót væri að ræða, en benda fólki á að koma saman í tíu manna þorrakúlum heima á bæjum og njóta dagskrárinnar þannig.

„Okkur þótti of mikið rof að missa út tvö blót í röð,“ segir Sigurður, en samkoman hefur verið haldin í íþróttasal Hrafnagilsskóla og þangað mætt prúðbúið fólk með þorrabakka undir hendinni og góða skapið í farteskinu.“

Páll Ingvarsson í Reykhúsum og Snæfríð Egilson frá Öngulsstöðum skemmta sér vel á þorrablóti fyrir kórónuveiru.

Undirbúningur var langt kominn

Sigurður segir að vel hefði litið út með þorrablótið allt þar til kúvending varð skömmu fyrir jól þegar Ómikron-afbrigði kórónuveirunnar fór að valda miklum usla. „Undirbúningur var langt kominn,“ segir hann en boðið er upp á vandaða dagskrá með leiknum atriðum, annál og ræðuhöldum sem og fjöldasöng „og því sem tilheyrir þegar menn koma saman og skemmta sér á þorrablóti,“ segir hann, en líkt og víða um hinar dreifðu byggðir er þorrablót hápunktur skemmtanahalds ársins á hverjum stað og mikið í lagt.

„Það er alltaf mikið um dýrðir á þorrablóti, þetta eru um það bil 500 manna samkomur sem allir hafa mikla skemmtun af.“

Horfum á björtu hliðarnar

Sigurður segir að því hafi sú ákvörðun verið tekin að bjóða upp á skemmtidagskrá sem búið var að undirbúa, hún verður tekin upp og fólk hvatt til að safnast saman á fyrsta – og vonandi eina – rafræna þorrablóti Eyjafjarðarsveitar.

„Þetta fyrirkomulag hefur ýmsa kosti og við hvetjum fólk til að horfa á björtu hliðarnar. Þetta er ókeypis skemmtun og hægt að hafa gaman í smærri hópum, ef menn missa af einhverju sniðugu á meðan þeir gúffa í sig súrri sviðasultu eða missa niður rófustöppu, þá er bara hægt að spóla til baka og hlusta aftur. Svo er happdrætti í gangi sem vonandi vekur spennu í hópnum og síðast en ekki síst verður tilkynnt um hverjir skipa næstu þorrablótsnefnd, en það er mikill spennuvaldur í sveitarfélaginu,“ segir Sigurður.

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...