Nýtt og glæsilegt fjós í Hólabæ
Fjölmenni mætti í opið fjós á bænum Hólabæ í Langadal laugardaginn 23. nóvember.
Á Hólabæ búa Auður Ingimundardóttir og Rúnar Aðalbjörn Pétursson, sem er uppalinn í Hólabæ, ásamt börnum sínum, Pétri Inga, sex ára og Lilju Björgu, tveggja ára.
Á bænum er rekið blandað bú með kýr og kindur en árskýrnar eru 38 og kindurnar um 400 talsins. Hólabær stendur við þjóðveg 1 í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu. Jörðin er um 2.300 hektarar. Nýja fjósið er 780 fermetrar að stærð með 56 legubásum.
„Við erum mjög ánægð að hafa tekið slaginn og farið í þetta stóra verkefni og erum stolt af því hvernig hefur tekist til og hlökkum mikið til að flytja kýrnar inn í fjósið. Svona verkefni er þó erfitt að ráðast í nema að hafa gott fólk í kringum sig og erum við einstaklega rík af frábæru fólki í kringum okkur sem hefur veitt okkur ómetanlegan stuðning og aðstoð í þessu öllu saman og erum við þeim óendanlega þakklát.“
Auður segir að þau Rúnar ætli sér að auka mjólkurframleiðsluna á næstu árum ásamt því að halda áfram í sauðfjárrækt. Markmiðið sé alltaf að gera betur í dag en í gær. „Að vera kúabóndi í dag og bara bóndi almennt er krefjandi og koma stöðugt nýjar og krefjandi áskoranir. . Við reynum þó að horfa björtum augum á framtíðina og vonum að ráðamenn geti tryggt bændum öruggt starfsumhverfi til að við getum tryggt Íslendingum innlend matvæli,“ segir Auður.
Auður er fædd og uppalin á Selfossi en flutti norður vorið 2017 eftir útskrift úr búvísindum á Hvanneyri. Auk þess að sinna búinu starfar Auður einnig sem ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.