Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Lokkur frá Skarðshlíð, svartur ferukollóttur brúskhrútur með hvítan lokk í brúsknum og töluvert mikla upplitaða hroðalokka. Lokkur er undan hvítum kollóttum hrúti og svartri ferukollóttri á. Myndin er tekin að hausti.
Lokkur frá Skarðshlíð, svartur ferukollóttur brúskhrútur með hvítan lokk í brúsknum og töluvert mikla upplitaða hroðalokka. Lokkur er undan hvítum kollóttum hrúti og svartri ferukollóttri á. Myndin er tekin að hausti.
Mynd / Páll Imsland
Líf og starf 29. nóvember 2021

Ræktun á brúskfé

Höfundur: Páll Imsland

Brúskfé er sjaldgæft í íslenska sauðfjárstofninum en margir hrífast af því og finnst nokkuð koma til útlitsins, enda er það óvenjulegt. Hér er sett fram stutt leiðbeining um ræktun á þessu sérkenni í fjárstofninum í þeirri trú að það hjálpi áhugasömum fjárræktendum að koma upp í horninu hjá sér nokkrum kindum með þessu einkenni, sér og öðrum til gamans og til viðhalds fjölbreytileikanum. Leiðbeiningarnar byggjast að mestu leyti á reynslu Jökuls Helgasonar á Ósabakka.

Brúskfé einkennist af því að það er með erfðir fyrir ferhyrndu. Bestu brúskarnir sjást yfirleitt á ferukollóttu fé, það er að segja fé, sem er kollótt en ber erfðir fyrir ferhyrndu. Brúskurinn sem í er vísað, er hárbrúskur á hausnum á kindum, nánar til tekið í hnakkanum, en ekki í enninu. Það er þó sjaldgæft að sjá góðan brúsk á ferhyrndum kindum. Hornastæðið tekur yfirleitt upp of mikið af því plássi sem brúskurinn þarf til þess að verða umfangsmikill og bústinn. Vel brúski prýtt ferhyrnt fé sést þó. Á ferukollóttu hins vegar er nóg pláss fyrir mikinn brúsk. Brúskur eða vísir að brúski á ferhyrndu fé kemur einkum fram ef hornin eru ekki of fyrirferðarmikil niðri við kúpuna eða þau standa þar gleitt og því sést þetta frekar á ferhyrndum ám en hrútum.

Svo skiptir ullargerð fjárins líka máli um þroska brúsksins og útlit, enda er flest brúskfé mjög ullarmikið. Oftast nær er brúskurinn vel krullaður en leggst gjarnan í hroðalokka ef hann er mikið vaxinn og hefur fengið að vaxa óáreittur. Það þarf að snyrta hann af og til, t.d. við rúning.


Strípa og Brúska frá Ósabakka, svartbotnóttar nýrúnar brúskær að hausti Þær eru systur undan Töffa, báðar með mikinn brúsk. Móðir annarar er ferhyrnd en hinnar ferukollótt.

Ræktun á stofni

Til þess að koma sér upp brúskfjárstofni og rækta hann áfram er líklega vænsta leiðin, að fara að á eftirfarandi hátt.

Fyrsta skrefið er að finna sér ferhyrndar kindur, rýna vel í hornafar þeirra og hárafar, einkum á hausnum. Sé féð ullarmikið og loðið og krullað í hnakkanum eru líkur meiri á að út af því komi efnismikill brúskur. Sumt ferhyrnt fé með gleitt hornastæði hefur jafnvel þó nokkurn brúsk og er það fé vænlegt til vals í þessu samhengi. Ferhyrndum kindum úr þessu vali er best að halda á móti kollóttu fé. Út úr þeirri ræktun ætti að koma eitthvað af ferukollóttum kindum. Kannski hafa þær vott af brúski eða jafnvel góðan brúsk í fyrstu tilraun og henta því vel til framhaldsræktunar á brúskfé. Það má oft sjá á nýfæddum lömbum að þau eru með efniviðinn í góðan brúsk og brúskurinn er yfirleitt orðinn vel þroskaður á haustlömbum. Líklega er sterkur leikur fólginn í því að halda saman ferhyrndum einstaklingum sem eru vænlegir að sjá, hvað brúskeiginleika varðar og para þau afkvæmi síðan á móti ullarmiklu kollóttu fé og fá þannig sterka kandídata í ferukollótt brúskfé til að byggja stofninn sinn á.


Ölkofri frá Eystri-Torfastöðum II. Ferhyrndur lambhrútur af brúskfjárkyni að hausti með frekar grönn horn sem ekki taka allt of mikið pláss á hauskúpunni og því er hann með nokkuð myndarlegan brúsk.

Þegar búið er að koma upp einhverjum stofni af ferukollóttu fé með brúsk eða vísi að brúski er vænlegt að halda því sitt á hvað á móti öðru ferukollóttu eða á móti ferhyrndu, jafnvel venjulegu tvíhyrndu eða kollóttu af tvíhyrndu kyni, til að forðast einhæfni og innræktun. Ekki er gott að skyldleikarækta þetta mikið, þó það verði kannski að gera í upphafi, á meðan maður er að koma sér upp stofni. Við slíka innræktun geta farið að koma fram gallar, eins og t.d. vik í augnlok eða jafnvel allt of vanþroskuð augnlok. Stundum koma líka stakir langir lokkar á augnlokin og setja sterkan svip á andlitið og virðist þetta vera bundið við ferhyrnt og ferukollótt fé. Að þessum lokkum er ekki óhagræði fyrir skepnuna svo þetta þarf í raun ekki að forðast.


Kylja frá Eystri-Torfastöðum II, morarnhosótt veturgömul brúskær með mikinn brúsk, sem að miklu leyti hefur þvælst í hroðalokka. Þeir eru orðnir þungir, þæfðir og flóknir drellar. Myndin tekin að hausti.

Þó menn verði að byrja þessa brúskfjárræktun með nokkuð stífri skyldleikaræktun, þarf sem sagt í framhaldinu að hafa náið auga með því að skyldleikinn verði ekki of mikill til lengdar. Þegar notadrjúgur stofn er kominn á fót er best að blanda brúskfé jafnan með tvíhyrndu og kollóttu af og til.


Skúlína frá Ósabakka, svartgolsótt brúskær í haustréttum, órúin.

Gangi ykkur vel.
Páll Imsland

Skylt efni: brúskfé

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...

Umhverfismeðvitundin
Líf og starf 16. desember 2024

Umhverfismeðvitundin

Í kuldanum sem nú ríkir er fátt notalegra en að klæðast hlýjum fatnaði sem hverg...

Hvítur mátar í þremur leikjum
Líf og starf 16. desember 2024

Hvítur mátar í þremur leikjum

Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson vann sigur á Friðriksmóti Landsbankans – Ísl...

Nýtt og glæsilegt fjós í Hólabæ
Líf og starf 13. desember 2024

Nýtt og glæsilegt fjós í Hólabæ

Fjölmenni mætti í opið fjós á bænum Hólabæ í Langadal laugardaginn 23. nóvember.

Skilaboð að handan um bein Agnesar og Friðriks
Líf og starf 13. desember 2024

Skilaboð að handan um bein Agnesar og Friðriks

Öxin, Agnes og Friðrik. Síðasta aftakan á Íslandi – aðdragandi og eftirmál, er h...

Heimskautalandbúnaður í breyttum heimi
Líf og starf 11. desember 2024

Heimskautalandbúnaður í breyttum heimi

Dagana 23.–25. september 2025 verður 12. alþjóðlega ráðstefnan um landbúnað á ja...

Rýnt í matarkistuna
Líf og starf 9. desember 2024

Rýnt í matarkistuna

Á Matarmóti Austurlands var hráefni fjórðungsins í aðalhlutverki auk þess sem fæ...