Sandlóa
Sandlóa er ein af tveimur lóutegundum sem verpa hér. Stóru frænku hennar, heiðlóuna, ættu allir að þekkja. Sandlóa er fremur lítil og er með minnstu vaðfuglum sem finnast hérna. Ólíkt öðrum vaðfuglum þá er hún með fremur stutt nef og stutta fætur. Hún sækir líka meira í þurrlendi en aðrir vaðfuglar. Sandlóur eru nokkuð félagslyndar utan varptíma og sjást gjarnan nokkrar saman. En þegar að varpinu kemur þá helga þær sér óðul og verpa pörin stök. Hún verpir víða um land allt, algengust við sjóinn en finnst einnig á melum og áreyrum inn til landsins. Eins og nafnið gefur til kynna þá heldur hún sig einkum á sendnu landi. Hreiðrið er fremur fábrotið, jafnvel bara smá dæld í sandi eða möl. Sandlóa er að öllu leyti farfugl og eru vetrarstöðvarnar á Bretlandseyjum, í Vestur- og Suðvestur-Evrópu.