September-rigning
Nafnið á þessu fallega vesti rímar ekki við þá sól og gleði sem við ætlum að fá í sumar. Vesti eru gríðarlega vinsæl núna.
Þetta vesti úr DROPS Alpaca og DROPS Kid-Silk, en hægt er að velja hvaða garn í garnflokki A í stað Drops Alpaca eða nota 1 þráð af garni í garnflokki C. Stykkið er prjónað neðan frá og upp með köðlum, klauf í hliðum og skáhallandi öxl.
DROPS Design: Mynstur z-1027
Stærðir: XS (S) M (L) XL (XXL)
Yfirvídd: 80 (88) 96 (106) 114 (132) cm.
Garn: DROPS ALPACA fæst í Handverkskúnst (tilheyrir garnflokki A) 200 (200) 250 (350) 300 (300) g. litur á mynd nr 9030, pistasíuís
Og notið: DROPS KID-SILK fæst í Handverkskúnst (tilheyrir garnflokki A) 75 (100) 100 (100) 125 (125) g litur á mynd nr 47, pistasíuís
Prjónar: Hringprjónn 80 cm, nr 3,5 og 4,5. Hringprjónn 40 cm nr 3,5.
Prjónfesta: 18 lykkjur á breidd og 24 umferðir á hæð með sléttu prjóni með 1 þræði í hvorri tegund = 10x10 cm.
VESTI - STUTT ÚTSKÝRING Á STYKKI: Stykkið er prjónað fram og til baka. Framstykkið og bakstykkið er prjónað hvort fyrir sig. Prjónað er neðan frá og upp og fram- og bakstykkið er saumað saman. Í lokin er prjónaður upp kantur í hálsmáli sem brotinn er tvöfalt.
BAKSTYKKI: Fitjið upp 102 (114) 126 (134) 146 (166) lykkjur á hringprjón nr 3,5 með 1 þræði af hvorri tegund. Prjónið 1 umferð brugðið frá röngu. Prjónið stroff með byrjun frá réttu þannig:
Prjónið 2 lykkjur garðaprjón (allar umferðir prjónaðar slétt), prjónið stroff (= 2 lykkjur slétt / 2 lykkjur brugðið) þar til 4 lykkjur eru eftir af umferð, prjónið 2 lykkjur slétt og 2 lykkjur í garðaprjóni. Haldið svona áfram með stroff þar til stykkið mælist 7 (7) 7 (8) 8 (8) cm.
Skiptið yfir á hringprjón nr 4,5, prjónið 1 umferð brugðið frá röngu (kantlykkjur halda áfram í garðaprjóni) og fækkið um 9 (11) 13 (11) 13 (13) lykkjur jafnt yfir = 93 (103) 113 (123) 133 (153) lykkjur. Nú er prjónað mynstur frá réttu þannig: 1 lykkja í garðaprjóni, prjónið A.1 alls 9 (10) 11 (12) 13 (15) sinnum, endið með fyrstu lykkju í A.1 þannig að mynstrið verði alveg eins í hvorri hlið og 1 lykkju í garðaprjóni. Haldið svona áfram með mynstur þar til stykkið mælist 23 (24) 25 (26) 27 (28) cm, fitjið upp 5 nýjar lykkjur fyrir kant á ermi í lok 2 næstu umferða = 103 (113) 123 (133) 143 (163) lykkjur. Nýjar lykkjur eru prjónaðar í garðaprjóni að loka máli.
Þegar stykkið mælist 44 (46) 48 (50) 52 (54) cm, setjið miðju 35 (37) 39 (41) 43 (45) lykkjur á þráð fyrir hálsmáli = 34 (38) 42 (46) 50 (59) lykkjur eftir á hvorri öxl. Hvor öxl er prjónuð til loka fyrir sig.
Skáhallandi öxl: Í næstu umferð frá hlið eru felldar af fyrstu 5 lykkjur (kantur á ermi). Nú eru prjónaðar stuttar umferðir yfir öxl þannig að axlirnar fái betra form og passi betur, með byrjun í næstu umferð frá hlið / handvegi þannig: Haldið áfram með A.1 og setjið ystu lykkjur við handveg á þráð fyrir skáhallandi öxl, en til að koma í veg fyrir að þurfa að klippa þráðinn frá sem prjónað er með, prjónið lykkjurnar áður en þær eru settar á þráðinn. Setjið 8 (9) 10 (11) 12 (14) lykkjur á þráð 3 sinnum og síðan síðustu 5 (6) 7 (8) 9 (12) lykkjur á þráð. Allar lykkjur hafa nú verið felldar af eða settar á þráð. Setjið til baka 29 (33) 37 (41) 45 (54) lykkjur af þræði á hringprjón nr 4,5. Prjónið 1 umferð sléttprjón, en til að koma í veg fyrir göt þar sem snúið er við mitt í handvegi, takið þráðinn upp á milli 2 lykkja og prjónið saman með fyrstu lykkju á vinstri prjóni. Fellið síðan laust af allar lykkjur. Stykkið mælist ca 48 (50) 52 (54) 56 (58) cm frá uppfitjunarkanti að efsta punkti á öxl. Prjónið hina öxlina á sama hátt.
Framstykki: Fitjið upp og prjónið á sama hátt og bakstykki þar til stykkið mælist 42 (44) 46 (46) 48 (50) cm = 103 (113) 123 (133) 143 (163) lykkjur. Nú eru miðju 27 (29) 31 (33) 35 (37) lykkjur settar á þráð og hvor öxl er prjónuð til loka fyrir sig eins og útskýrt er að neðan.
Yfirlit yfir næsta kafla: Fækkið lykkjum fyrir hálsmáli og setjið lykkjur á þráð fyrir skáhallandi öxl eins og útskýrt er að neðan. Lestu kaflann HÁLSMÁL og SKÁHALLANDI ÖXL áður en prjónað er áfram.
Hálsmál: Fækkið um 1 lykkju fyrir hálsmáli í hverri umferð frá réttu alls 4 sinnum. Þegar lykkjum er fækkað í A.1, prjónið sléttar lykkjur yfir sléttar lykkjur og brugðnar lykkjur yfir brugðnar lykkjur, lykkjur sem ekki ganga jafnt upp í heilan kaðal eru prjónaðar brugðið.
Frágangur: Saumið axlasauma. Saumið hliðarsauma niður að stroffi = klauf í hliðum.
Tvöfaldur kantur í hálsmáli: Byrjið frá réttu við aðra öxlina og prjónið upp ca 80 til 104 lykkjur í kringum hálsmál (ásamt lykkjum af þræði), á stuttan hringprjón nr 3,5. Lykkjufjöldinn á að vera deilanlegur með 2. Prjónið stroff (= 1 lykkja slétt, 1 lykkja brugðið) hringinn í 8 cm. Fellið af aðeins laust. Brjótið stroffið niður að innanverðu á stykki og saumið niður með nokkrum sporum.
Prjónakveðja, stelpurnar í Handverkskúnst www.garn.is