Starfshópur um útrýmingu á riðuveiki
Yfirdýralæknir hefur lagt til við matvælaráðherra að myndaður verði hópur sem muni vinna að útfærslu á nýrri aðferðafræði við útrýmingu á riðuveiki.
Tillagan kemur í kjölfar ákvörðunar matvælaráðherra um breytta nálgun við útrýmingu á riðuveiki í íslensku sauðfé með því að beita riðuþolnum arfgerðum. Lagt er til að hópurinn vinni að greiningu á núverandi stöðu, útfærslu á nýrri aðferðafræði og mati á breyttri nálgun aðgerða í samvinnu við yfirdýralækni.
567 milljónir króna til næstu sjö ára
Í tilkynningu úr ráðuneytinu, þar sem greint var frá ákvörðun ráðherra, kom fram að nægt fjármagn væri tryggt til að áætlun til næstu fimm ára næði fram að ganga. Hún gengur út á að 80 prósent af ásettu fé á mestu áhættusvæðunum verði ólíklegt til að veikjast af riðu. Tiltekin er fjárhæðin 567 milljónir króna til næstu sjö ára sem eiga meðal annars að standa straum á arfgerðagreiningum á 15 til 40 þúsund fjár árlega.
Yfirdýralækni ber að hafa samráð
Í umfjöllun Bændablaðsins um þessa breyttu aðferðafræði í síðasta tölublaði var rætt við Eyþór Einarsson, ráðunaut hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), sem hefur stýrt verkefnum varðandi arfgerðagreiningar og ræktunarstarf með verndandi arfgerðir. Hann fagnaði útspili stjórnvalda en sagði að enn hefði ekki átt sér stað viðræður um útfærslu á þeim stuðningi sem stjórnvöld hafi tryggt til verkefnanna.
Í svari matvælaráðuneytisins, við fyrirspurn um nýtingu á þessu fjármagni og mögulegt samráð við RML varðandi þessa breyttu nálgun, segir að fjármagnið eigi „að nýta til að sem best megi ráða niðurlögum riðu á Íslandi. Tekur það til þeirra aðgerða sem yfirdýralæknir leggur til í sinni nálgun á grunni þeirrar vinnu sem farið verður í. [...]
Yfirdýralækni ber að hafa samráð við þá sem hún telur rétt að gera vegna fyrirliggjandi vinnu, ætla má að RML falli í þann flokk,“ segir í svarinu.
Tillaga að starfshópi yfirdýralæknis
- Vilhjálmur Svansson, dýralæknir, veirufræðingur á Keldum
- Stefanía Þorgeirsdóttir, líffræðingur og sérfræðingur í riðu á Keldum
- Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir hjá Mast, sérþekking í riðuveiki
- Hákon Hanson, sauðfjárdýralæknir á Breiðdalsvík
- Þór Aspelund, stærðfræðingur/tölfræðingur hjá HÍ
- Erla Sturludóttir, tölfræðingur, hjá LbHÍ Keldnaholti
- Jón Hjalti Eiríksson, erfða- og kynbótafræðingur hjá LbHÍ