Stjörnuspá vikunnar
Vatnsberinn þarf að taka aðeins í hnakkadrambið á sjálfum sér og setja í framkvæmd það sem hann hefur ætlað sér frá því í janúar. Lífið mun taka stökk fram á við ef hann lýkur þessum verkefnum og honum að óvörum lendir hann í svolitlu ástarævintýri. Framvinda þess kemur einnig á óvart, en ekki á þann hátt sem vatnsberinn telur sig vita. Happatölur 4, 15, 6.
Fiskurinn á aldeilis eftir að hafa tækifæri til að gefa af sér á næstunni. Hann lendir í aðstæðum þar sem orðum hans er viðsnúið og gleður viðstadda öfugt við það sem hann lagði upp með. Fiskurinn þarf því að taka stöðuna innra með sér, ætlar hann að samgleðjast og leyfa hlutunum að fara þá leið, eða leiðrétta hlutina og mögulega koma af stað illindum? Happatölur 82, 61, 8.
Hrúturinn hringsnýst innra með sér um þessar mundir og á erfitt með að festa reiður á lífi sínu. Honum þykir verkefnafjöldinn heldur mikill og áreiti almennt auk þess sem ástar- og tilfinningamálin eru ekki enn upp á sitt besta. Hugleiðsla og gönguferðir gætu orðið honum til góðs við að leysa úr helstu tilfinningaflækjum. Ekki gefast upp. Happatölur 6, 11, 98.
Nautið á von á peningum núna á dögunum og skal ekki hika við að eyða hluta þeirra beint í sjálft sig. Nautið er eitt þeirra merkja sem lætur þarfir annarra framar sínum eigin en þarf að æfa sig í hinu gagnstæða. Bjart er yfir nautinu, jafnvægi ríkir nú meir en oft áður og því um að gera að njóta lífsins. Happatölur 8, 24, 13.
Tvíburinn kemur ágætlega undan sumrinu og þarf að setja í forgang að halda því jafnvægi. Ósætti eru nefnilega í loftinu og þar skal halda yfirvegun og ró eftir bestu getu svo málin leysist sem fyrst. Tvíburinn þarf að æfa sig í að halda stillingu og þarna gefst honum einstakt tækifæri. Happatölur 5, 78, 44.
Frjósemi er í loftinu hjá krabbanum og getur storkurinn áætlað mætingu á svæðið alveg óboðinn. Því skal taka með ró og muna að engin ákvörðun er slæm. Krabbinn þarf að gæta að heilsunni og vera meðvitaður um að sofa sína tíu tíma ef vel á að fara næstu vikur. Happatölur 30, 56, 40.
Ljónið á að sleppa tökunum á því sem er að angra það. Sjá hlutina frá fleiri sjónarhornum en sínu eigin með opnum huga og ekki láta neitt hræða sig. Það er þarna millivegur sem þarf að ferðast um og vera sáttur með, og ef sú ganga gengur vel verður hugarangrið leitt til lykta. Happatölur 13, 6, 12.
Meyjan tiplar heldur mikið á tánum nú í byrjun október, stígur varlega niður því hún er smeyk um að móðga nánasta umhverfi. Þarna er um misskilning að ræða sem ætti að komast til botns í sem fyrst því hún má vel taka sér pláss og þramma um. Meyjan þarf að tileinka sér að breyta hugarfarinu aðeins og taka meira pláss en áður, ekki síst í kringum þá sem eru henni næstir. Happatölur 89, 15, 75.
Of mikið hefur verið um að vera hjá voginni sem virðist engan endi taka. Hvíld, næring og opin samskipti eru því mikilvæg svo hún haldi dampi þar til hægist um. Félagslífið er í blóma og hún kynnist ýmsu fólki sem mun verða henni til halds og trausts næstu árin, jafnvel lengur. Eitthvað kviknar í ástarmálunum og rétt að hafa í huga að litlum blossa getur fylgt mikið bál. Happatölur 58, 5, 52.
Sporðdrekinn verður fyrir óhappi – sem verður honum til happs. Þetta kann að hljóma sérkennilega en þó kemur fyrir að maður þurfi að reka sig á til þess að geta staldrað við og þá haldið förinni áfram. Sporðdrekinn á eftir að kynnast ýmsum hliðum á lífinu sem annars hefðu farið fram hjá honum. Mun prísa sig sælan að hafa lent í ógöngum. Happatölur 2, 24, 69.
Bogmaðurinn hlakkar til jólanna. Eða jafnvel áramótanna! Það er einhver fiðringur í honum sem hann á erfitt með að hafa hemil á og hann veit ekki alveg hvert hann á að stýra þessari auka orku. Þessi orka er reyndar hluti þess sem kallað er segulorka og virkar best þegar henni er stýrt yfirvegað. Með segulorku má kalla til sín það sem hugann girnist og nú þarf bogmaðurinn að velja vel. Happatölur 23, 58, 8.
Steingeitin er að hefja nýjan lífshring. Nú þarf hún að einblína á innri ró og kærleika þar sem hún dæmir ekki aðra heldur hugsar sig um hvernig hún vilji hafa næstu sjö ár, hverjir leika þar hlutverk og að hverju hún stefnir. Steingeitin er eitt þrjóskasta merkið en ætti að æfa sig í að biðjast afsökunar. Nú er um að gera að setjast niður og spá aðeins í þetta. Happatölur 4, 40, 53.