Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hótel Kríunes við Elliðavatn hefur vaxið og dafnað síðustu ár.
Hótel Kríunes við Elliðavatn hefur vaxið og dafnað síðustu ár.
Líf og starf 21. júlí 2020

Sveitahótel við Elliðavatn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hótel Kríunes er fallegt sveitahótel og falin náttúruperla við Elliða­vatn á Vatnsendabletti í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur. Á Kríunesi eru 26 herbergi, þar á meðal fjórar svítur, fjölskylduherbergi og þrír fundarsalir.

Sara Björnsdóttir hótelstjóri segir að fjölskyldan hafi rekið hótelið í 22 ár. „Upphafið að þessu er að pabbi keypti hér land fyrir tæpum 28 árum með litlu íbúðarhúsi. Mamma og pabbi áttu fjögur börn og fljótlega byggðu þau nýtt hús. Gamla húsið var leigt út en það kom upp í því eldur og það brann til kaldra kola. Í framhaldi af því var byggt hús með fjórum herbergjum og var það leigt út sem eins konar bændagisting.

Leigan gekk vel og þá var ákveðið að breyta gömlum bílskúr sem áður hafði verið hesthús í fundarsal. Við buðum einnig upp á tjaldsvæði á þessum tíma.“

Sara í gróðurhúsinu þar sem er ræktað grænmeti fyrir hótelið.

Gaman að alast hér upp

Sara segir að það hafi verið einstakt ævintýri að alast upp við Elliðavatn. „Það kom skólabíll að sækja okkur í skólann og svo vorum við með vatnið og náttúruna allt í kringum okkur og búféð á Vatnsendabýlinu sem var svo gaman að fylgjast með, sérstaklega á vorin í sauðburðinum. Svo komu kríurnar á sumrin og þær koma enn og verpa fyrir utan gluggana á hótelherbergjunum ásamt öðrum fuglategundum.“

Höfðað til Íslendinga

„Fram að COVID-19 var yfirdrifið nóg að gera, enda mikið um erlenda ferðamenn, auk þess nóg um að vera vegna fundahalda, ráðstefna og annars konar mannfagnaðar. Við sjáum líka um veitingar og undir venjulegum kringumstæðum er líka boðið upp á mat hér á hverju kvöldi fyrir hótelgesti, en í dag þarf fólk að panta fyrirfram.

Herbergin eru með útsýni út á Elliðavatn.

Þegar COVID-19 faraldurinn kom upp hrundi starfsemin hjá okkur eins og hjá svo mörgum öðrum hótelum á landinu. Það hefur samt verið okkar gæfa að við höfum alltaf höfðað mikið til Íslendinga og það hefur haldið okkur gangandi og við erum með fasta kúnnahópa sem koma hingað reglulega.

Við erum með tilboð í júlí og ágúst fyrir Íslendinga ef þeir bóka í gegnum okkur og erum við að bjóða yfirburða herbergi á 12.000 krónur og svítu á 15.900 krónur og með því fylgir aðgangur að kajak til að sigla á vatninu, heitum potti og sauna. Reksturinn hefur verið að rétta úr kútnum undanfarið og talsvert um fundi hjá okkur og svo er að rofa mikið til í hótelgistingunni eftir að landið var opnað fyrir erlenda ferðamenn en við erum enn góður kostur fyrir landsbyggðarfólk sem ætlar að heimsækja höfuðborgarsvæðið.

Við bjóðum einnig upp á morgunverðarmatseðil en höfum til þessa verið með hlaðborð og hér er gróðurhús og matjurtagarður og ræktum við hluta af okkar grænmeti sjálf og stundum fáum við fisk úr vatninu.“

Opna kaffihús í ágúst

Að sögn Söru stendur til að opna kaffihús á Kríunesi snemma í ágúst og verður það opið öllum og með fyrsta flokks kaffi og meðlæti. „Við eigum aðeins eftir að ganga frá nokkrum smáatriðum áður en við getum opnað og það verður gaman að bæta þessari þjónustu við og opna Kríunes fyrir almenningi. Fólk héðan úr hverfinu hefur svo sem komið til okkar og við tekið vel á móti því en við höfum ekki verið með formlega opið kaffihús áður. Okkur langar líka til að auka við starfsemina með því að vera með einhvers konar viðburði eða uppákomur, uppistand eða tónlist um helgar.“

Sveit í borg

Björn Ingi segir að Kríunes sé eina hótelið á höfuðborgarsvæðinu sem er í raun hægt að skilgreina sem sveitahótel í borg. „Við erum hluti af Ferðaþjónustu bænda /Hey Iceland og erum ekki við götulóð með götunúmeri á höfuðborgarsvæðinu. Hótelið stendur á um tveggja hektara lóð sem er að stórum hluta girt af með vatni og skógi. Svæðið er því einstakt fyrir hótel í Reykjavík vegna staðsetningarinnar, kyrrðarinnar, náttúrunnar og útsýnisins. Hér allt í kring eru góðir reið-, hjóla- og göngustígar og mikil saga sem við höfum stundum tekið að okkur að segja frá og hér skammt hjá eru hestaleigur.“

Hluti Kríunesfjölskyldunnar. Sara Björnsdóttir hótelstjóri, Björn Ingi Stefánsson eigandi ásamt ömmunni, Helgu Björnsdóttur. 

Hann segir að í raun sé hótelið og staðsetning þess enn sem komið er talsvert leyndarmál og ekki margir sem viti af því enda hefur það ekki verið mikið auglýst. Björn Ingi bætir við að fljótlega verði sett upp hleðslustöð fyrir rafbíla í hlaðinu á Kríunesi og ekkert því til fyrirstöðu að taka á móti slíkum ökutækjum.

Morð við Elliðavatn – Morðgátukvöld

Í haust ætlar Sara að fara af stað með það sem hún kallar Murder mistery kvöld en þá kemur fólk saman eitt kvöld, fær mat og gistir eina nótt og tekur þátt í leik sem felst í að leysa morðgátu. „Ég fékk sjálf mikinn áhuga á svona kvöldum og ákvað að slá til og prófa þetta fyrir vini mína og ætla að prófa þetta fyrir gesti í haust.“

Veislusalurinn er rúmgóður og útsýnið glæsilegt. Til stendur að opna kaffihús á Kríunesi snemma í ágúst.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...