Tannlæknir og háskólaprófessor með 80 geitur í Helgafellssveit
„Það er dásamlegt að vera geitabóndi því geiturnar eru svo skemmtilegar,“ segir Jörundur Svavarsson, háskólaprófessor og geitabóndi á bænum Hrísakoti í Helgafellssveit á Snæfellsnesi.
„Þetta eru mannelskar skepnur og þær eru svo klárar og taka upp á ýmsu en eru á sama tíma virkilega góðir vinir manns, þannig að það eru forréttindi að fá að vera geitabóndi.“
Hann og kona hans, Sif Matthíasdóttir, sem er tannlæknir, eru með um 80 geitur og 50 kið. Þá eru þau með fullkomna kjötvinnslu á staðnum þar sem þau vinna afurðirnar af búinu og selja. Jörundur og Sif hafa búið á staðnum síðan 2009 og líkar ákaflega vel að búa í sveit. Búið þeirra er til fyrirmyndar hvað varðar snyrtimennsku.
„Ég held að við séum komin á toppinn núna, nú förum við að fækka geitunum. Við erum bæði komin á aldur og erum bara tvö að sýsla í þessu, þannig að nú förum við að hægja á okkur,“ segir Sif og hlær.