Um 19 milljónir í rekstur hjúkrunarheimilis vegna vanfjármögnunar ríkisins
Grýtubakkahreppur lagði tæplega 19 milljónir króna á árinu 2020 með rekstri hjúkrunarheimilisins Grenilundar vegna vanfjármögnunar af hendi ríkisins. Rekstrarframlag Grýtubakkahrepps vegna Grenilundar hefur aldrei verið hærra en á liðnu ári. Gera má ráð fyrir að sveitarfélagið leggi út álíka háa upphæð með rekstrinum í ár að óbreyttu.
Grenilundur var tekinn í notkun árið 1998 og hefur hreppurinn greitt á annað hundrað milljónir með rekstrinum yfir þann tíma.
„Það er há upphæð fyrir lítið sveitarfélag, en við gerum ekki ráð fyrir að fá nokkurn tíma krónu til baka,“ segir Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hefur átalið seinagang og sinnuleysi heilbrigðisráðuneytis varðandi rekstur hjúkrunarheimila á vegum sveitarfélaga og krefst tafarlausra úrbóta. Tap á rekstri Grenilundar hafði afgerandi áhrif á rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins sem var fyrir vikið rekið með tapi á liðnu ári. Ríkinu ber að fjármagna rekstur hjúkrunarheimila að fullu lögum samkvæmt og telur sveitarstjórn þetta óviðunandi stöðu fyrir sveitarfélagið.
Ógagnsætt og ósanngjarnt kerfi
„Rekstur þessa málaflokks er alfarið á könnu ríkisins og það rekur dvalar- og hjúkrunarheimili sums staðar á landinu en víða hafa verið gerðir samningar við sveitarfélög um reksturinn. Sveitarfélögum eru skömmtuð daggjöld sem reynslan sýnir að duga hvergi nærri til að halda uppi þeirri þjónustu sem á að veita samkvæmt rammasamningi við ríkið um reksturinn. Hvernig þetta er á þeim stöðum sem ríkið er sjálft með reksturinn vitum við ekki, en kerfið er ógagnsætt og ósanngjarnt. Svo mikið vitum við,“ segir Þröstur.
Hann nefnir að skýrsla sem gerð var um um vanda heimilanna og leit dagsins ljós í fyrra hafi einungis leitt í ljós það sem allir vissu; Að kerfið væri vanfjármagnað. „Heilbrigðisráðuneytið hefur ýtt vandanum á undan sér og það hefur síðustu misserin verið að sigla hraðbyri í það strand sem kerfið er í núna. Viðbrögð eru m.a. þau að fjögur sveitarfélög hafa sagt upp samningi við ríkið og hann kominn í hendur annarra,“ segir Þröstur.
Einkafélag borgar ekki milljónir með rekstrinum
„Sú góða þjónusta sem veitt er á Grenilundi er íbúum Grýtubakkahrepps og nærsveita afar mikilvæg. Metnaður sveitarstjórnar stendur til þess að svo megi áfram verða,“ segir í bókun sveitarstjórnar. Hún hafnar einkavæðingu hjúkrunarheimila sem byggist á kjaraskerðingu starfsfólks og skerðingu á þjónustu við íbúa. „Okkur hugnast ekki að fara þá leið, það fylgir henni mikil óvissa sem við erum ekki tilbúin að fara út í. En það hlýtur að segja sig sjálft að einkahlutafélag er ekki að taka við rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila til að borga með þeim milljónir á ári, jafnvel tugi eða hundruð milljóna á stærri heimilum,“ segir Þröstur.
Blóðugt að horfa á autt herbergi þegar þörfin er mikil
Hann segir þá stefnu heilbrigðisráðuneytis fráleita að á sama tíma og samið er um byggingu nýrra hjúkrunarheimila, séu fyrsta flokks hjúkrunarrými látin standa auð og ónotuð þegar þörfin æpir. Á Grenilundi er rými fyrir 10 íbúa en einungis eru greidd daggjöld með 9 rýmum. Fengist heimild til að nýta tíunda rýmið á heimilinu myndi það gerbreyta rekstri þess til hins betra og gæti í leiðinni losað um dýrari pláss á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Á Grenilund komi iðulega fólk til hvíldarinnlagnar frá Akureyri og víðar.
„Það er blóðugt að horfa upp á tíunda herbergi heimilisins standa autt þegar þörfin er brýn og biðlisti eftir plássum. Það þarf ekki að kosta miklum fjármunum til, mönnun er svo dæmi sé tekið hin sama hvort heldur íbúar eru 9 eða 10 talsins. En fyrir okkur skiptir það sköpum að nýta öll plássin og hafa úr meira fé að spila til að reka heimilið,“ segir Þröstur.