Um fjögur þúsund fjár í Hrútatungurétt
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Það var góð stemning í Hrútatungurétt í Hrútafirði í Vestur-Húnavatnssýslu laugardaginn 7. september þrátt fyrir smá rigningu af og til.
Um fjögur þúsund fjár voru í réttunum og margt fólk sem aðstoðaði bændur og búalið að draga í dilka. Bændur voru sammála um að lömbin kæmu falleg af afréttinum þrátt fyrir þurrka í sumar. Ánægjulegustu tíðindin eru þó úr Hrútafirði að þar er ungt fólk að taka við sauðfjárbúskap á nokkrum bæjum, m.a. á Bálkastöðum þar sem ung hjón með fjögur börn úr Hvalfjarðarsveit eru tekin við búinu. Á bænum er um 500 fjár og jörðin er um 500 hektarar að stærð.
Það er gott að vera hjá afa og fylgjast með réttarstörfunum, hér eru það þeir Emery Trausti og Róbert Ozias Elmarssynir með Róberti Júlíussyni, afa á Hvalshöfða.