Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Gerald Dunst, ráðgjafi, frumkvöðull og eigandi fyrirtækisins Sonnenerde í Austurríki, var einn fyrirlesara á málþingi fagráðs í lífrænum landbúnaði, sem haldið var á Sólheimum í Grímsnesi á dögunum. Fyrirtæki hans sérhæfir sig í framleiðslu á mismunandi tegundum rotmassa eða jarðvegs ásamt lífkolum.
Gerald Dunst, ráðgjafi, frumkvöðull og eigandi fyrirtækisins Sonnenerde í Austurríki, var einn fyrirlesara á málþingi fagráðs í lífrænum landbúnaði, sem haldið var á Sólheimum í Grímsnesi á dögunum. Fyrirtæki hans sérhæfir sig í framleiðslu á mismunandi tegundum rotmassa eða jarðvegs ásamt lífkolum.
Líf og starf 15. mars 2023

„Ég brenn fyrir góðum jarðvegi“

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Þann 2. mars síðastliðinn hélt fagráð í lífrænum landbúnaði málþing á Sólheimum í Grímsnesi þar sem áhersla var lögð á jarðvegslíf, jarðgerð og verðmætasköpun í lífrænni ræktun.

Á málþinginu voru fjölmörg áhugaverð erindi en eitt af þeim var frá Austurríkismanninum Gerald Dunst, sem er ráðgjafi og frumkvöðull og jafnframt eigandi fyrirtækisins Sonnenerde í Austurríki. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á mismunandi tegundum rotmassa eða jarðvegs ásamt lífkolum.

„Kolefnisræktun (e. Carbon farming), eða endurnýjandi landbúnaður eins og ég kýs að kalla það, er eina leiðin til þess að hægt verði að framleiða matvæli fyrir heiminn í framtíðinni. Þar er frjósemi jarðvegs mikilvægasti hlutinn og ég predika hvar sem ég kem að bændur eigi að hætta að nota áburð en fara þess í stað að nota örverur því sú aðferð skilar jafngóðum niðurstöðum ef ekki betri,“ segir Gerald sem benti á í erindi sínu að um 25% bænda í Austurríki stunda lífræna ræktun og eftir sjö ár er því spáð að um 35% bænda verði komnir út í slíka búskaparhætti.

„Fyrir okkur er aðeins umhverfisvæn nýting á auðlindum okkar skynsamleg og það sem drífur mig áfram í allri þessari vinnu er að skila jörðinni betri til barnanna minna en ég tók við henni,“ segir Gerald um leið og hann kannar gæði jarðvegs í gróðrarstöðinni Sunnu á Sólheimum.

Helgar lífið frjósömum jarðvegi

Gerald var ungur að árum þegar hann fékk áhuga á jarðgerð og smátt og smátt ákvað hann að helga líf sitt því að framleiða hágæða rotmassa eða jarðveg.

„Þegar ég var 14 ára gamall byrjaði ég að spá í rotmassann í heimagarði foreldra minna, ég sneri honum reglulega og lífið þar vakti svo sannarlega áhuga minn. Þar skynjaði ég hversu mikilvæg og flókin náttúruauðlind jarðvegur er og langaði að kanna hvernig hægt væri að nýta verðmæti hans. Síðar fór ég í garðyrkjuskóla í Vín og lærði mikilvægi þess að nota nitur í jarðvegi því vöxturinn bætist til muna með nýtingu þess,“ útskýrir Gerald og segir jafnframt:

„Eftir árin í garðyrkjuskólanum fór ég í nám í lífvísindum í háskólanum í Vín og eftir eitt ár þar komst ég í starfsnám hjá bónda sem hafði framleitt rotmassa frá árinu 1985. Þar vann ég í fjóra mánuði og sá þar mjög frjósaman jarðveg, ég gróf niður 30-40 sentímetra í mjög dökkan jarðveg sem var fullur af mikilvægum næringarefnum og örverum. Þá vissi ég að það var nákvæmlega þetta sem ég vildi vinna að og þróa enn frekar.“ Í dag framleiðir fyrirtæki Geralds, Sonnenerde, þrjátíu tegundir af rotmassa sem nýttur er við mismunandi aðstæður.

Sex mánuði tekur að þróa uppskrift að nýjum jarðvegi

„Viðskiptavinir okkar koma úr öllum áttum, allt frá einstaklingum til fyrirtækja og síðan eru garðahönnuðir mjög áhugasamir um úrvalið hjá okkur. Við veitum ráðgjöf fyrir mismunandi aðstæður og margir viðskiptavina okkar eru mjög ánægðir með þá þjónustu að geta verslað vörur okkar á netinu og fá sent heim til sín,“ segir Gerald og bætir við:

„Við erum í stöðugri þróun með uppskriftir að nýjum jarðvegi en það tekur yfirleitt um sex mánuði að þróa uppskrift og koma henni í framleiðslu. Mörg fyrirtæki í sambærilegri framleiðslu og við vilja einungis framleiða sem mest af úrgangi til að græða meiri pening en okkar hugmyndafræði er að framleiða bestu mögulegu gæði og við höfum hlotið ávinning af því. Það tók okkur þó sex ár að þróa Terra Petra, sem er talinn besti og frjósamasti jarðvegur í heimi. Þá er jarðvegurinn svartur og á upphaf sitt á Amazon-svæðinu í Suður- Ameríku. Það er mikið innihald af lífkolum í jarðveginum og því fær hann þennan lit en hátt næringargildi jarðvegsins kemur til af miklum styrk kola, örverulífs og lífrænna efna. Við framleiðum Terra Petra í miklu magni vegna vinsælda þess en fólk sem hefur kynnst þessari tegund jarðvegs velur hann fram yfir annan. Terra Petra er þrefalt dýrari en annar jarðvegur en það virðist ekki hindra viðskiptavini í að velja hann.“

Framleiða 200 tonn af lífkolum árlega

Gerald situr ekki auðum höndum og er stöðugt að koma nýjum hugmyndum í framkvæmd. Hann hefur m.a. rekið lífkolaverksmiðju í rúm 10 ár og framleiðir um 200 tonn af hágæða lífkolum á hverju ári.

„Lífkolin munu gegna lykilhlutverki í að draga úr kolefnislosun í andrúmsloftinu vegna eiginleika þeirra. Við framleiðum lífkolin með einstaklega háum hreinleika þar sem umhverfið er ekki mengað á nokkurn hátt því hráefnið kemur úr endurnýjanlegum lífmassa og við framleiðsluna kemur enginn reykur út, eingöngu hrein, hvít gufa. Við notum svæðisbundin hráefni í framleiðsluna sem er mikilvægur þáttur í gæða- og umhverfisstöðlum fyrirtækisins ásamt því að nota virðisauka svæðisins,“ útskýrir Gerald og segir jafnframt:

„Við höfum þróað mikið af mismunandi vörum úr lífkolunum eins og til dæmis Terra Petra jarðveginn en lífkolin er hægt að nota á ólíkan hátt. Við framleiðum bætiefni fyrir húsdýr með lífkolunum og erum að þróa það sama fyrir fisk en það eru oft magavandræði hjá eldisfiskum sem lífkolin geta læknað. Einnig munum við þróa bætiefni úr lífkolum fyrir fólk en sjálfur neyti ég þess, í litlu magni, á hverjum degi og finn að það gerir magaflórunni mjög gott.“

Ávinningur fyrir bændur

Frá árinu 2007 hefur Gerald starfrækt svokallað humus-verkefni á vistsvæðinu Kaindorf í Austurríki þar sem 400 bændur á fimm þúsund hektara svæði taka þátt.

„Verkefnið snýst um það að bændur fá greitt fyrir að auka kolefni í jarðvegi í nýju þróuðu kolefnislánakerfi. Markmiðið er að efla vöxt á humus, næringarríku moldarefni, sem er lífrænn rotmassi og myndast náttúrulega í hvers konar jarðvegi í upprunalegu ástandi. Þetta er mikið tækifæri fyrir okkur gegn loftslagsbreytingum því með uppsöfnun á humus verður jarðvegurinn stöðugri og getur tekið í sig margfalt meira vatn og því er auðveldara að lifa af eftir þurrkatímabil sem dæmi,“ útskýrir Gerald og bætir við:

„Við gerum samning við hvern og einn bónda sem samþykkir að þróa humus á landbúnaðarsvæði að eigin vali. Vanalega er það ræktað land og samningurinn nær til 5-7 ára í senn. Bændur hafa frjálsar hendur með hvernig þeir framkvæma þetta en við komum með ýmsar ráðleggingar inn í verkefnið sem snúa að gróðursetningu, jarðvinnslu án plægingar, fækkun efnaáburðar, notkun rotmassa og fleira. Verkefnið greiðir síðan bændunum árangursgjald fyrir bindingu á kolefnum sem fyrirtæki kaupa af fúsum og frjálsum vilja til að bæta upp fyrir losun sína. Þannig að ávinningur bændanna getur verið mikill og það hefur verið skemmtilegt að sjá áhrifin sem þetta hefur haft því sífellt bætast fleiri bændur við inn í verkefnið. Fyrir okkur er aðeins umhverfisvæn nýting á auðlindum okkar skynsamleg og það sem drífur mig áfram í allri þessari vinnu er að skila jörðinni betri til barnanna minna en ég tók við henni. Ég brenn fyrir góðum jarðvegi.“

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...