Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir á góðri stund í réttum.
Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir á góðri stund í réttum.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 11. febrúar 2022

„Íslenska sveitin og náttúran höfðar sterkt til mín”

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það er alltaf gaman að koma á bæinn Skarð í Landsveit því þar búa kraftmikil hjón með börnum sínum en fjölskyldan er með risastórt fjárbú. Við erum að tala um þau Guðlaugu Berglindi Guðgeirsdóttur og Erlend Ingvarssyni (alltaf kallaður Elli) og börnin þeirra þrjú. Sumarliði er 15 ára, Helga Fjóla er 12 ára og Anna Sigríður er 9 ára.

Á bænum eru 1.100 fjár á vetrarfóðrum, 14 hross, einn hundur og einn köttur. Elli hefur verið bóndi í Skarði frá 2003 en Guðlaug tók svo þátt í búrekstrinum þegar hún flutti að Skarði 2005. Hún starfaði reyndar sem ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands fram til 2006 en sneri sér þá alfarið að barneignum og búrekstri í Skarði. Elli rak ásamt ömmu sinni og frænku félagsbú um kúa- og sauðfjárbúskap í Skarði fram til 2018 er búunum var skipt upp og hafa þau Guðlaug rekið sauðfjárbúið frá 2018.

Á haustmánuðum fékk Guðlaug styrkloforð frá Samtökum sunn­lenskra sveitarfélaga (SASS) varðandi vöruþróun og hönnun á vörum úr íslenskri ullarvoð. Markmið verkefnisins er að framleiða íslenskar ullarvörur úr íslenskri lambsullarvoð sem er framleidd á Íslandi. Af því tilefni og miklum áhuga hennar á íslensku sauðkindinni svaraði hún nokkrum spurningum blaðamanns.

Leiddist mikið í Reykjavík

„Íslenska sveitin og íslensk náttúra höfðar sterkt til mín og vil ég hvergi annars staðar búa en úti í sveit, var t.d. einn vetur í Reykjavík í framhaldsskóla og hefur mér aldrei leiðst eins mikið á ævinni og þann vetur.

Helga Fjóla í ullarslá frá Skarði.

Ég er alin upp í Austurhlíð í Skaftártungu en þegar ég var 10 ára gömul var féð heima skorið niður vegna riðuveiki og aldrei tekið aftur fé en breytt var yfir í kúabúskap á jörðinni þannig að ég er meira alin upp við kýr en sauðfé. Ég var send á vorin eftir að við urðum fjárlaus til að aðstoða við sauðburð hjá afa, ömmu og Bjarna frænda mínum í Hraunbæ í Álftaveri. Bjarni var mikill hestamaður og kynntist ég þar góðum hestum og var hann alltaf tilbúinn til þess að taka mann með á hestbak eða í hestaferðir og lána manni hesta. Einnig aðstoðaði ég systur mína og mág á Borgarfelli við sauðburð og smalamennskur,“ segir Guðlaug.

Smalamennska og fjárrag

Guðlaug segist hafa mjög gaman af ræktun sauðfjár þar sem ættliðabilið sé svo stutt, það komi svo fljótt í ljós hvort maður er að ná að rækta fram þá eiginleika sem maður sækist eftir.

„Sauðfjárbúskapur er mjög krefjandi og tímafrekur ef vel á að standa að búskapnum. Sauð­burðurinn á vorin er alltaf krefjandi tími en jafnframt skemmti­legur tími þegar allt er að lifna. Minn uppáhaldsárstími í sauðfjár­ræktinni er haustið en þá er tími smalamennska og fjárrags og í raun uppskerutími en þá kemur í ljós hvernig til hefur tekist við ræktun fjárins,“ segir Guðlaug og bætir við.

„Við förum með 1/3 af okkar fé á Landmannaafrétt í sumarbeit, förum með féð um miðjan júlí og sækjum það seinni hluta septembermánaðar. Íslenska sauðkindin er mjög gáfuð, hún er t.d. mjög góð að rata og nýtir sömu beitarsvæðin þar sem mæður þeirra gengu þegar þær voru lömb. 2/3 af fénu okkar er í heimahögum og einnig beitt á aðrar jarðir í nágrenninu. Í byrjun september hefst hjá okkur fjárrag og smalamennskur og stendur nánast út október. Við smölum á hestum og gangandi og þar með sameinar maður áhugamálin. Það er ekkert sem jafnast á við það að fara á Landmannaafrétt á haustin og smala, vinir og sveitungar hittast og takast á við smalamennskur í stórbrotinni náttúru við ýmis veðurskilyrði. Vona ég að það verði um ókomin ár en það er alltaf verið að sækja að okkur sauðfjárbændum varðandi beit sauðfjár og er það því miður oft mikil fáfræði fólks sem liggur þar að baki.“

Grænihryggur í Sveinsgili

Hér er Guðlaugu aðeins farið að hitna í hamsi enda mikill náttúru­unnandi. – „Já, það er alveg ljóst að bændurnir þekkja afréttina mjög vel og ekki sér á gróðri eða landsvæðum eftir beitina, annars værum við ekki að nýta svæðin til beitar. Í þessu samhengi langar mig til þess að nefna nýjasta Instagram staðinn, Grænahrygg í Sveinsgili á Landmannaafrétti. Þarna hafa verið örfáar kindur í sumarbeit og smalar farið um að sækja þær á haustin og ekkert séð á gróðri eða landi áratugum saman. Eftir að Grænihryggur varð vinsæll áfangastaður göngufólks varð að stika að honum gönguleið sumarið 2021 þar sem ágangur göngufólks var þvílíkur að það stórsá á landinu og margar nýjar brautir voru byrjaðar að myndast.“

Heimaprjónuð ullarnærföt frá Skarði

Íslenska ullin er og hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá Guðlaugu. Á nýliðnu hausti fékk hún loforð um styrk frá SASS varðandi vöruþróun og hönnun á vörum úr íslenskri ullarvoð. Markmið verkefnisins er að framleiða íslenskar ullarvörur úr íslenskri lambsullarvoð sem er framleidd á Íslandi.

„Já, margir fjallmenn á Land­manna­afrétti ganga í heima­prjónuðum ullarnærfötum sem kemur sér vel í slarkinu sem getur orðið í fjallferð því veður eru misjöfn á fjöllum og því mikilvægt að vera vel búinn. Það var kona í sveitinni sem prjónaði ullarnærföt á fjallmennina en sökum aldurs er hún hætt að prjóna. Ullarnærföt bóndans voru því farin að slitna og bað hann mig að finna leið til þess að gera ný ullarnærföt fyrir sig. Upphaflega hugmyndin mín var að láta útbúa ullarband úr haustull af lömbunum mínum og prjóna ullarnærföt í prjónavél en þetta gekk ekki upp, það náðist ekki fram sú mýkt sem þarf í bandið,“ segir Guðlaug.

Sauðfjárbændurnir á bænum Skarði í Landsveit, Guðlaug Berglind og Erlendur. Þau eru með eitt myndarlegasta fjárbú landsins.

Lambsullarvoð úr lambsullarbandi

Það var svo í ársbyrjun 2020 að Guðlaug fór til fundar við Pál Kr. Pálsson hjá ullarframleiðslu­fyrir­tækinu Varma og lýsti fyrir honum hugmyndum sínum. Páll er mikill áhugamaður um vörur úr íslenskri ull og hefur mikla trú á íslensku ullinni.

„Hann sagði mér frá nýju lambsullarbandi sem Varma í samstarfi við Ístex er búið að þróa. Ístex útbýr ullarband úr íslenskri lambsull og prjónar Varma svo lambsullarvoð úr lambsullarbandi. Ullarvoðin er svo ýfð sem gerir hana enn mýkri. Ég kaupi svo lambsullarvoð af Varma og sauma ullarvörur úr voðinni. Fyrst og fremst er ég að sauma ullarnærföt og ullarkraga en hef einnig aðeins verið að prófa mig áfram með ullarpils og ullarslár. Ullarnærfötin eru frábær innan undir svokallaða skel, vera í þeim næst sér og skel utan yfir en þá verður manni einfaldlega ekki kalt í slarki við smalamennsku eða aðra iðju upp til fjalla að hausti eða vetri,“ segir Guðlaug og bætir við að björgunarsveitarfólk, sem er að sérþjálfa leitarhunda, hefur aðeins verið að prófa ullarnærfötin og líkað vel, t.d. við hundaþjálfun uppi á jöklum. Einnig eru ullarnærfötin mjög góð fyrir göngufólk.

„Ég nota þau mikið sjálf í gönguferðir þegar kalt er í veðri. Mikill kostur er að íslensku ullarnærfötin halda fólki þurru þrátt fyrir að það svitni eða blotni en náttúrulegir eiginleikar íslensku ullarinnar eru einstakir hvað þetta varðar,“ segir Guðlaug.

Togið og þelið blandast saman
Anna Sigríður með ullarkraga, sem mamma hennar bjó til.

Eins og margir eflaust vita saman­stendur íslenska ullin af tvenns konar hárum, togi og þeli. Togið er frekar langt og gróft en þelið er hlýtt og mjúkt. Þegar ullin er kembd og spunnin blandast togið og þelið og úr verður þráður sem er prjónað úr og flík úr slíku prjónabandi viðheldur þægilegum hita á líkamanum við ýmsar aðstæður.

„Ég veit svo sem ekkert um vinsældir föðurlandsins en það hefur kannski verið lítið framboð af því síðustu ár í búðum. Ég veit bara að fjallmenn á Landmannaafrétti eru mjög ánægðir að ganga í föðurlandi,“ segir Guðlaug hlæjandi.

Sérsaumar fyrir hvern og einn

Guðlaug segist geta græjað ullar­vörur fyrir hvern og einn sé óskað eftir því. Hún stefnir líka á að koma vörunum sínum betur á framfæri í útvöldum búðum.

„Best er fyrir fólk að hafa beint samband ef það vill vörur frá mér en ég er í raun og veru að sérsauma á hvern og einn. Ég er að sauma undir vörumerkinu 128 m.y.s og getur fólk sent mér skilaboð í gegnum messenger eða hringt,“ segir hún.

Vinnur líka í seiðaeldisstöð

En er Guðlaug að gera eitthvað annað en að sjá um búið með fjölskyldunni á Skarði og svo að sauma? „Já, ég er í tímabundinni vinnu í seiðaeldisstöð hér í sveitinni. Ég keyri börnin mín á íþróttaæfingar eftir skólatíma á Laugaland, Hellu, Hvolsvöll og Selfoss. Mín aðaláhugamál er hestamennska og að ferðast um hálendi Íslands og reyni ég alltaf að sinna þessum áhugamálum sem í raun samtvinnast við búskapinn.“

Gyrðið ykkur í brók

Guðlaugu var boðið að koma með nokkur lokaorð og þá stóð ekki á svarinu.

„Já, það er áskorun til stjórnenda afurðastöðvanna að gyrða sig í brók og fara að greiða sauðfjárbændum sómasamlegt verð fyrir okkar frábæru afurðir og á það bæði við um kjöt og ull. Við erum ekki enn þá komin á þann stað að ná til baka því afurðaverði sem við höfðum fyrir dilkakjöt 2015 og þetta getur einfaldlega ekki gengið lengur, það þarf lausnir og það strax. Við þurfum að fá að lágmarki hækkun upp á 200 kr/kg í haust. Grátlegt er einnig hversu lítið bóndinn fær fyrir ullina þrátt fyrir að engar ullarbirgðir séu til en þarna fer klárlega ekki saman framboð og eftirspurn og þetta þarf að laga. Að lokum langar mig til þess að óska íslenskum sauðfjárbændum innilega til hamingju með að búið sé að finna ARR genið sem er verndandi arfgerð fyrir riðuveiki í íslenska sauðfjárstofninum.“

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...