Matarkistan Harðangursfjörður
Höfundur: Erla H. Gunnarsdóttir
Matarmenningarhátíðin Hardanger Matkulturfestival í Eidfjord í Noregi var haldin dagana 14.– 16. október síðastliðinn þar sem matur og menning var í hávegum haft. Var þetta í 11. sinn sem hátíðin var haldin og þemað að þessu sinni var Matarsvæðið Harðangursfjörður.
Hér hittast mataráhuga- og menningarmenn sem upphefja gamlar svæðisbundnar venjur ásamt handverkshefðum.
Dagskrá hátíðarinnar var hin glæsilegasta en samhliða henni var á laugardeginum haldin bjórhátíð þar sem bruggað var í tjaldi á staðnum, haldnir fyrirlestrar um leyndardóma hins góða öls og kennd aðferð við hefðbundna heimabruggun. Að öðru leyti var meðal annars boðið upp á námskeið í osta- og gerjunargerð, kvöldverður með Michelin-kokkunum Torsten Vildgaard frá veitingastaðnum STUD!O og Christopher Haatuft frá Lysverket í Bergen, víkingamarkaður var á svæðinu, slátrun á sauðfé, silungur var reyktur á staðnum að ógleymdum þeim tæpum 30 framleiðendunum sem sýndu og seldu vörur sínar á hátíðinni.
Vert framlag til að minna á og upphefja það áhugaverða og góða sem bændur og smáframleiðendur eru að fást við í matarkistunni Harðangursfirði.