Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Líf&Starf 29. desember 2016
Með 300 fjár á fóðrum og stunda fiskirækt og loftþurrka kjöt
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Jónas Erlendsson og Ragnhildur Jónsdóttir reka sauðfjárbú í Fagradal í Mýrdalshreppi og fiskirækt undir nafninu Fagradals bleikja. Þau segja verulegan hag vera af vaxandi ferðamannastraumi fyrir búreksturinn.
Þegar tekið var hús á þeim hjónum um fyrri helgi var veðurlag harla óvenjulegt miðað við byrjun desembermánaðar. Þá lá dimm þoka yfir allri suðurströndinni og hitastigið var um 10 gráður. Skyggni var því lítið sem ekkert í þessari miklu náttúruparadís, en straumur ferðamanna samt með hreinum ólíkindum.
Hjá sveitarfélaginu liggur nú fyrir umsókn um lóð fyrir 100 herbergja hótel og munu fjórar umsóknir til viðbótar um byggingu gistirýmis vera til skoðunar.
Í lauslegri könnun Bændablaðsins um ásetningu gistirýmis á Suðurlandi, var verulegur hluti þess sem í boði var þegar upptekinn. Í Mýrdalshreppi voru í upphafi árs 2016 alls 1.037 gistirými sem eru orðin meira og minna upptekin allt árið um kring. Þá voru tvö hótel í byggingu með um 120 gistirýmum. Ferðamannastraumur með viðkomu í Vík hefur líka vaxið hröðum skrefum. Þar komu um 280 þúsund ferðamenn árið 2002 en voru vel yfir 600 þúsund á síðasta ári. Þá er búist við að fjöldi ferðamanna fari yfir 800 þúsund á árinu 2018.
Er þetta mikil breyting því ekki er lengra síðan en 2012 að fólk var með verulegar áhyggjur út af fólksfækkun í hreppnum. Þá var íbúatalan komin undir 460 manns. Eftir 2013 tók þróunin stökk og var íbúatalan komin yfir 520 manns árið 2015 og búast má við að talan fari að nálgast 600 áður en árið 2016 rennur sitt skeið.
Með 300 kindur á fóðrum
Jónas og Ragnhildur eru með um 300 kindur á fóðrum, fáeinar varphænur fyrir heimilið, auk bleikjueldisins sem skapar þeim líka umtalsverða vinnu. Hafa þau komið sér upp eigin reykhúsi þar sem þau sjá um að reykja bleikju og lax, bæði reykja þau eigin framleiðslu og fyrir aðra. Hjá Fagradals bleikju er boðið upp á reykt bleikjuflök og reykt fersk og grafin laxaflök. Þá hafa þau verið að þróa framleiðslu á loftþurrkuðu lambalæri í samvinnu við Matís sem er eins konar séríslensk „lambaparmaskinka.“
Jónas, sem er uppalinn í Breiðholtinu í Reykjavík, þurfti reyndar ekki að leita langt til að smitast af áhuga fyrir matvinnslu. Faðir hans er Erlendur Sigurþórsson kjötiðnaðarmeistari. Hann er nú með elstu kjötiðnaðarmeisturum landsins og hefur unnið náið með Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna. Það gerir hann enn þótt hann sé hættur fastri vinnu í faginu sökum aldurs eftir meira en hálfrar aldar störf í þessari grein.
Erlendur lærði sitt fag hjá Þorvaldi Guðmundssyni í Síld og fiski og starfaði þar í áratugi. Þá stýrði hann m.a. kjötvinnslu KS á Sauðárkróki um tíma. Jónas var því ekki fráhverfur þessu fagi þótt örlögin höguðu því svo að hann gerðist bóndi í Fagradal eftir að afi hans og amma hættu þar búskap.
Þróa vinnslu á loftþurrkuðu kjöti
„Við höfum verið að þróa aðferð við loftþurrkun á kindakjöti í samvinnu við Matís. Ég fékk hjá þeim uppskriftir, en markaðurinn fyrir þetta hér á landi er mjög takmarkaður þar sem Íslendingar þekkja lítt þessa verkunaraðferð. Þetta er víða þekkt í útlöndum, en þurrkun Færeyinga á skerpukjöti er þó allt annars eðlis.
Það er því lítið um að Íslendingar séu að sækjast eftir þessu, en talsvert af Rússum hafa verið að koma hingað á sumrin tvö síðustu ár til að fá loftþurrkað kjöt. Þeir þekkja þessa verkun vel að heiman og hafa fundið eitthvað um okkar framleiðslu á netinu, þótt við höfum ekki auglýst þetta mikið.
Ég byrjaði á því að fá uppskrift frá Noregi og kryddblöndu frá fyrirtæki sem heitir Nokk sem flytur inn vörur fyrir matvælaiðnaðinn. Síðan fékk ég uppskrift af þessari verkunaraðferð hjá Ólafi Þór Hilmarssyni hjá Matís. Þar sem það var uppskrift sem öllum var aðgengileg, þá langaði mig að prófa mig áfram með eigin kryddblöndu.“
Tímafrek verkun
„Þetta er þannig gert að kjötið er fyrst saltað og kryddað og fer kryddmagnið og tíminn sem það er látið liggja í því eftir þyngd lærisins eða kjötbitans sem ætlunin er að þurrka.
Það er mikil kúnst að þurrka þetta og þar skiptir rakastigið miklu máli. Hefja þarf þurrkunina við mikinn raka, því ef rakinn í upphafi er of lítill er hætt við að þurr skel myndist á yfirborðinu og kjötið þráni þar undir. Það þarf að nást að þurrka kjötið alveg inn að beini, því ef það tekst ekki er kjötið ónýtt.
Ég prófaði það reyndar líka með pabba að skera beinið úr án þess að opna kjötið mikið og stráði þá kryddblöndunni í sárið bæði inni í vöðvanum og utan á.
Þessi ferill getur tekið marga mánuði eða upp undir ár. Ég nota til þess kæliskáp og byrja á því að vera með stóra skál í botni kælisins fulla af vatni. Þegar kjötið hefur náð því að rýrna um ákveðið prósentuhlutfall og léttast um ca 30%, þá er vatnsvirknin í kjötinu orðin það lítil að gerlarnir eru hættir að fjölga sér í kjötinu. Þá getur maður stungið þessu í rassvasann og nartað í bitann þegar manni dettur í hug. Svo geymist kjötið von úr viti.
Maður verður þó að hafa í huga að ef kjötið þornar of mikið og rýrnar kannski um 40 til 50%, þá verða áhrifin af saltinu og kryddinu meiri og bragðið af kjötinu því mun sterkara.
Þessi framleiðsla okkar er þó í litlum mæli enn sem komið er og nánast bara í tilraunaskyni.“
Selja alla bleikjuframleiðsluna og kaupa lax að auki
„Annars gengur búskapurinn ágætlega,“ segir Jónas. „Við seljum allan þann fisk sem við framleiðum og rúmlega það. Við verðum einnig að kaupa inn hráefni til að anna eftirspurn. Samt erum við bara að selja til gististaða hér í sveitinni í kringum okkur.
Við eru sjálfsagt með þeim elstu í þessari grein og rekum þetta fiskeldi á upphaflegri kennitölu, eða frá árinu 1989.
Heildarframleiðslan er svo sem engin ósköp, en það nær svona tíu tonnum eða svo. Það er svo sem ágætt þar sem við erum bara tvö í þessu hjónin. Augnhrognin fáum við svo frá fiskeldisstöð Háskólans á Hólum í Hjaltadal.“
Jónas segir að bleikjueldi og fiskvinnslan sé orðin sá þáttur í rekstrinum sem skili mestum pening. Þá njóta þau þess að vera með eigin rafstöð sem sparar þeim drjúgan pening við rekstur eldisstöðvarinnar og býlisins.
Hann hafi um tíma selt mest alla framleiðsluna til Reykjavíkur. Nú sé orðið jöfn og stöðug eftirspurn eftir framleiðslunni heima í héraði og fari allar fiskafurðir því á veitinga- og gististaði í nágrenninu. Það sé því mun auðveldara að eiga við þetta núna og minna umstang og kostnaður við dreifingu.
Sauðfjárbúskapur þarf að ná ákveðinni stærð til að borga sig
Fiskeldið og vinnslan er orðin okkar aðalbúgrein og rollubúskapurinn kannski orðið meira sem tómstundagaman. Sumir segja að fjárbúskapur sé reyndar að verða svolítið dýrt „hobbý“,“ segir Jónas og hlær.
Hann viðurkennir þó að aðstæður séu æði misjafnar hjá bændum. Til að sauðfjárbúskapur geti staðið sæmilega undir búrekstri þurfi fjöldi ásetts fjár helst að vera 700 eða meira.
„Það er nú svo með þennan rollubúskap að það eru miklir vinnutoppar sem geta verið erfiðir, en rólegt þess á milli. Það er þá mest að gera í kringum sauðburð á vorin, heyöflun á sumrin og leitir á haustin.“
Alls ekkert „hobbý“ segir frúin
Ragnhildur er síður en svo sammála Jónasi um að sauðfjárbúskapurinn í Fagradal sé eitthvert „hobbý“. „Bara alls ekki,“ segir Ragnhildur, „ef kindurnar fara þá hætti ég,“ segir hún brosandi.
„Þá má líka segja að ef engar væru kindurnar þá hefði Jónas engin ærlæri til að þurrka, svo hér styður hvað annað.“
Þekkir allar kindurnar með nafni
Ragnhildur er fædd og uppalin í sveit, nánar tiltekið í Götum vestan við Vík. Hún er aðal sauðfjármanneskjan á bænum og þekkir allar 300 kindurnar í húsinu með nafni. Hún segir það aldrei hafa verið vandamál að finna nöfn á allan þennan fjölda, en um 40 til 50 nýjar kindur eru settar á hvert haust sem þarf þá að gefa nöfn. Svipaður fjöldi af eldra fé fer þá jafnframt í sláturhús sem gefur væntanlega færi á endurnýtingu nafna.
Hafa þau hjón talsvert lagt upp úr að skapa ættir með nöfnum. Þannig hét ein ættmóðirin Írafár og var því sjálfgefið að ein dóttirin fengi nafnið Birgitta.
Ótrúlegt tíðarfar
Ragnhildur segir ekki bagalegt að stunda sauðfjárrækt í tíðarfari eins og ríkt hefur allt þetta ár.
„Þetta var ótrúlegt sumar og kannski helst að það væri of þurrt, sem sjaldan gerist hér um slóðir. Þetta bjargaðist þó allt saman og heyin voru mjög góð.“
Staðhættir undir Eyjafjöllum og í Mýrdal eru með þeim hætti að þar geta myndast miklir vindstrengir, ekki síst í norðanáttum. Í sumar var óvenju lítið um slíkt og langir kaflar með litlum vindstyrk. Jónas segir að það hafi helst verið rigningarnar í haust sem hafi verið til ama.
„Á þessum tíma í fyrrahaust var hér vitlaust veður dag eftir dag svo tíðarfarið nú er allt annað.“
Þekkja frí helst af afspurn
Þau hjón eru svo sem ekkert að fara mikið í frí frá búskapnum og sumarfrí þekkja þau varla nema af afspurn. Enda eru þau bæði allt í öllu og standa vaktina ein í sauðburði svo nokkuð sé nefnt. Þá sofa þau lítið sem ekkert sólarhringum saman.
„Við erum ekkert að fara í sumarfrí eða svoleiðis,“ segir Jónas.
„Jú, að vísu fórum við í frí í fyrra eina helgi. Þá fórum við á góugleðina í Öræfum og gistum eina nótt í Freysnesi. Þá kom sonur okkar að leysa okkur af, en við erum svo sem ekkert stressuð yfir að komast ekki frá. Það er okkar val að fást við þessa grein.“
Ragnhildur tekur undir þetta og segist ekki geta séð að fólk sé neitt hamingjusamara með að mæla malbikið í Reykjavík. Í sveitinni hafi fólk frelsið og fallegt umhverfi sem sannarlega umvefur þau í Fagradal.
Með netvætt fjárhús og eftirlitsmyndavélar
Þegar lagður var ljósleiðari að bænum lögðu þau einnig streng í fjárhúsin. Þar hafa þau komið upp myndavélum og geta með þeirra aðstoð fylgst með öllu sem fram fer í fjárhúsunum. Tilkoma myndavélanna létti þeim t.d. mikið störfin við yfirlegu á meðan sauðburður stóð yfir. Þannig gátu þau fylgst með framvindunni í húsunum í tölvunni heima eða í gegnum síma og stokkið til þegar á þurfti að halda.
Nábýlið við Kötlu truflar þau ekki mikið
Þegar smalað var í haust var farið alveg inn undir Kötlujökul þar sem er einstök náttúrufegurð. Sama dag og farið var í leitir var Katla með órólegasta móti og vildu yfirvöld að smalarnir yrði kallaðir til baka. Þótti mönnum það fullseint og ákváðu að klára leitir.
Fjallkóngur sagði smölunum samt að þegar og ef þeir sæju rauða merkið standa upp úr jöklinum, þá mættu þeir fara heim.
Jónas segir að það stoði lítt að vera stöðugt að hugsa um möguleikana á því að Katla gjósi. Það verði bara að taka á því þegar og ef það gerist. Enginn viti hvar flóð komi niður úr jöklinum þegar Katla gýs. Telur hann ólíklegt að það muni takast að vara alla þá ferðamenn við sem eru á svæðinu í kringum Kötlu í tíma. Um suma sé vitað á hverjum tíma en aðra ekki sem eru jafnvel fótgangandi á eigin vegum. Mikilvægt sé því að ferðafólk sé vel upplýst og meðvitað um hættuna.
Nefnir Jónas sem dæmi að þegar flóðið kom í Múlakvísl snemma morguns laugardaginn 9. júlí 2011, þá hafi láðst að láta ferðaþjónustufólk sem var inni í Þakgili við Kötlurætur vita. Þau sem þar voru vissu ekkert um málið þegar Jónas hafði samband við þau um morguninn. Þá var vegurinn inneftir þegar kominn í sundur og flóðið búið að hrifsa með sér brúna yfir Afréttisá.
Flóð úr Mýrdalsjökli geta verið hættuleg
„Hættan er mest út af flóðum þótt bærinn hjá okkur sé ekki á hættusvæði hvað það varðar,“ segir Jónas. „Kötluaskjan er 110 ferkílómetrar að stærð og full af ís. Þar getur því losnað um gríðarlegt vatnsmagn í eldgosi.“
Hann segir að sumir vísindamenn séu farnir að hafa áhyggjur af hvað geti gerst ef stórflóð hlaupi niður Múlakvísl. Þar geti ruðst fram um 100.000 rúmetrar af vatni og aur á sekúndur eða meira. Sem dæmi var hlaupið í Múlakvísl sem hreif með sér brúna á þjóðvegi 1 „aðeins“ um 5.000 rúmmetrar á sekúndu.
Stórflóð sem steypist fram af háum sjávarbakkanum, sem er tiltölulega skammt frá landi við Mýrdalsjökul, getur orsakað mikla flóðbylgju. Þannig eru dæmi um að sog sem við slíkan atburð myndast hafi tæmt höfnina í Vestmannaeyjum, sem í kjölfarið fylltist þannig að það flaut yfir allar bryggjur. Flóðbylgja gæti líka orðið enn áhrifaríkari og orsakað neðansjávarskriður og haft áhrif í nálægum löndum. Ljóst er að viðbragðstíminn fyrir fólk á svæðinu verður ekki mikill.
Afi Jónasar, sem bjó í Fagradal, var fæddur 1912 og mundi vel Kötlugosið 1918. Segir Jónas að hann hafi sagt að þá hafi verið búið í Hjörleifshöfða og fólkið þar hafi séð þegar vatnið hljóp undan skriðjöklinum. Reiknaðist þeim til að tíminn þar til flóðvatnið náði niður að sjó með miklum jakaburði og látum, hafi verið um hálf klukkustund. Jakar í slíku flóði geti auk þess rutt á undan sér miklum jarðvegi og myndað stíflur þannig að hlaupið breyti um stefnu.
„Ef Katla gýs þá er þetta besti árstíminn og minnstar líkur á að fólk sé þar á hættusvæði,“ segir Jónas. Hann segir að gos í Kötlu geti staðið yfir í þrjá mánuði og á meðan megi stöðugt búast við flóðum úr Kötluöskjunni. Því verði ekkert hægt að eiga við viðgerðir á brúm og vegum á meðan. Eina leiðin sé því að fara um Syðri- eða Nyrðri-Fjallabaksleið.