Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá Frelsisgöngu samkynhneigðra árið 1994.
Frá Frelsisgöngu samkynhneigðra árið 1994.
Mynd / Bára Kristinsdóttir
Menning 28. ágúst 2023

Baráttan er ekki búin

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Þann 12. ágúst síðastliðinn fór fram ein fjölmennasta Gleðiganga sem hefur átt sér stað hérlendis og var yfirskrift hátíðahaldanna „Baráttan er ekki búin“.

Gleðigangan er hápunktur hinna árlegu Hinsegin daga, þarsem sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar ásamt fjölskyldum og vinum, með það fyrir augum að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín.

Auk mannfjöldans var um metfjölda hópa að ræða, rúm fjörutíu atriði skráð í gönguna, bæði vagnar og hópar. Gengið var frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíginn, áfram Bankastrætið og inn Lækjargötuna. Slíkur var fjöldinn að ekki komust allir sem vildu á hátíðarsvæði Hljómskálagarðsins er göngunni lauk, þó segja megi að allir í nærliggjandi umhverfi gætu notið þess sem upp á var boðið er Páll Óskar tryllti lýðinn eins og honum einum er lagið.

Ekki er lengra síðan en tæpur fjórðungur aldar frá því að Gleðigangan hófst með pomp og prakt. Undanfari hennar má segja að hafi verið Frelsisganga samkynhneigðra á vegum Samtakanna ́78 er haldin var á árunum 1993-4. Þar komu saman um sjötíu manns en lítið var um að fjölmiðlar veittu þessu átaki athygli. Kemur fram á upplýsingasíðu hinsegin daga, að „... Samtökin ́78 efndu til fyrstu kröfugöngunnar í Reykjavík árið 1993 og var þá gengið niður Laugaveg, síðan upp Hverfisgötu og safnast saman í kvikmyndahúsinu Regnboganum þar sem göngufólk horfði á kvikmyndina The Times of Harvey Milk. Ári síðar, 1994, sameinuðust Samtökin ́78 og Félagið, félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra, um kröfugöngu með sama sniði sem endaði á útihátíð við Lindargötu þar sem félögin höfðu bæði aðstöðu sína.“ Þátttakan var heldur dræm, viðbrögð bæði fjölmiðla og þátttakenda þótti ekki standast væntingar og því var sú ákvörðun tekin að hlé skyldi tekið um sinn.

Baráttan hefst

Samtökin ’78, elsti starfandi félagsskapur hinsegin fólks hérlendis síðan í maí 1978, hefur þó ítrekað staðið fyrir málefnum og réttindabaráttu sinna félagsmanna. Helsti hvatamaður að stofnun samtakanna var leikarinn og tónlistarmaðurinn Hörður Torfason, sem fyrstur Íslendinga lýsti opinberlega yfir kynhneigð sinni í viðtali við tímaritið Samúel haustið 1975. Viðtalið varð afdrifaríkt og í kjölfarið var haft eftir Herði; „... Afleiðingarnar voru mér algjör vitundarvakning og ég ákvað að láta kné fylgja kviði og láta draum minn rætast um að stofna baráttufélag um réttindi okkar samkynhneigðra. Það gekk ekki átakalaust fyrir sig en tókst loks á endanum þann 9. maí 1978.“

Rétt er að taka fram að Félagið, réttindafélag tví- og samkynhneigðra, var stofnað vorið 1993 er útséð var um að tvíkynhneigðir fengju inngöngu í Samtökin ́78. Kemur fram í viðtali Alþýðublaðsins árið 1995, við Eystein Traustason, einn félagsmanna, að innan Samtakanna hafi ekki veist rými til opna fyrir málefni og baráttumál tvíkynhneigðra, heldur væri skýrt og skorinort í félagslögunum að til að fá inngöngu í Samtökin þyrfti maður að vera hommi eða lesbía – engin grá svæði þar. Félagið var því stofnað til þess að veita málefnum tvíkynhneigðra hljómgrunn og í Félaginu voru bæði sam- , gagn- og tvíkynhneigðir, enda um mannréttindafélag að ræða, ofar öllu. Lendingin varð þó sú að Félagið og Samtökin ́78 sameinuðust og undir þeim hatti má í dag finna sístækkandi flóru kynhneigða og kynvitunda.

Velsæmi landsmanna misboðið

Áhugaverð er þrjóska ráðamanna til að úthýsa þessum hópi þjóðarinnar.

Valdbeiting forsvarsmanna eins stærsta og áhrifamesta fjölmiðils landsins, útvarpsins, kom skýrt í ljós er Samtökin ́78 sáu sér gott til glóðarinnar og ætluðu að auglýsa félagsfund á miðlum ljósvakans árið 1981. Hljóðaði auglýsingin svo: „Lesbíur, hommar! Munið fundinn í kvöld. Samtökin ́78.“

Tóku starfsmenn hljóðvarps auglýsingadeildar ríkisútvarpsins ekki beinlínis undir ágæti þessara skilaboða og báru fyrir sig að þetta svokallaða útvarp allra landsmanna hefði í fyrirrúmi að halda íslenskri tungu hreinni auk þess að standa vörð um íslenska menningu.

Í ljósi þess gætu orðin „lesbía“ og „hommi“ gengið fram af hlustendum, brotið í bága við almennt velsæmi heilagra landsmanna og engin lifandi leið að hlýða á slíkan dónaskap. Fengu Samtökin ́78 því póstlagt svar samdægurs frá Andrési Björnssyni, þáverandi útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, þar sem hann útlistar neitunina fyrir félagsmönnum.

Takmörk velsæmis voru þó nokkur og í framhaldinu kom í ljós að nýyrðin lesbía og hommi áttu ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum. Bentu auglýsingadeildir fjölmiðla í kjölfarið hughreystandi á að nota mætti orðið kynvillingar þess í stað. Neitun ríkisútvarpsins var nefnilega ekki einsdæmi, en m.a. sá dagblaðið DV sér ekki annað fært en að neita „kynvilltum“ félagsmönnum um að auglýsa hjá sér, ef nota ætti þessi ógurlegu orð. Það er ánægjulegt að segja frá því að í dag hafa þessi þá ósæmilegu orð, hommi og lesbía, hlotið fastan sess í íslenskri tungu auk þess að á vefsíðunni www.otila.is má finna ógrynni upplýsinga til viðbótar sem fólk gæti þarfnast útskýringa á.

Bak við linsuna

Meðfram ólgu áttunda og níunda áratugarins hóf Hrafnhildur nokkur Gunnarsdóttir að feta veg kvikmynda- gerðar. Hóf hún fyrstu tökur þess sem átti upphaflega að verða heimildar- mynd um baráttu samkynhneigðra fyrir jöfnum mannréttindum, en verkefnið vatt upp á sig og yfir þrjá áratugi festi Hrafnhildur á filmu það sem eru í dag ómetanlegar heimildir sögu samkynhneigðra á Íslandi sem og þróun íslensks samfélags.

Glöggir lesendur muna ef til vill eftir sjónvarpsþáttunum Svona fólk sem sýndir voru á RÚV árið 2019 um réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi – en þar fengu áhorfendur örlitla innsýn í þann heim.

Hrafnhildur hefur alla tíð verið einn af stólpum hinsegin samfélags og gegndi m.a. formennsku Samtakanna ́78 á árunum 2005-7. Eitt veigamesta hlutverk hennar sem formaður var að koma því til leiðar að transfólk fengi formlega að ganga í félagið og að barátta fyrir réttindum þeirra yrði hluti af markmiði félagsins. Að sama skapi fengu tvíkynhneigðir líka sitt pláss, þrettán árum eftir lætin árið 1994.

Staðfest samvist

Á meðan tilveruréttur hinsegin fólks fór vaxandi fylgdu almenn mannréttindi ekki endilega þeim vexti. Hérlendis var þó samkynja pörum veitt leyfi til að skrá sig í staðfesta samvist árið 1996, en óheimilt að gifta sig. Viðhorfsbreyting íslensks samfélags var þó gífurleg vegna þess skrefs – á jákvæðan hátt að mestu.

Lögfestur réttur samkynhneigðra til frumættleiðinga var leiddur í lög í júní árið 2006 en áður höfðu stjúpættleiðingar samkynhneigðra para verið leyfðar frá aldamótunum.

Hérlendis var það svo loksins árið 2010 að hjúskaparlög tóku gildi sem heimiluðu hjónaband tveggja einstaklinga af sama kyni.

Þrátt fyrir ánægju vegna þessarar lagabreytingar var ekki öll baráttan unnin því samhliða henni bauð þjóðkirkjan prestum sínum að synja samkynhneigðum pörum um hjóna- vígslu á grundvelli persónulegra ástæðna – og var sú heimild ekki afnumin fyrr en fimm árum síðar.

Baráttu mannréttinda og almennrar tilveru er enn hvergi lokið. En áfram er haldið. Auðvitað.

Skylt efni: Gleðigangan

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...