Blessað barnalán
Leikklúbbur Laxdæla setur nú á svið verkið Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson, en félagið fagnaði hálfrar aldar afmæli árið 2021 með pomp og prakt.
Hefur leikfélagið verið starfandi síðan í mars 1971, stofnað að tilhlutan Kvenfélagsins Þorgerðar Egilsdóttur og Ungmennafélagsins Ólafs Pá, en þessi tvö félög höfðu áður staðið fyrir leiklistarstarfsemi í Dalasýslu. Fyrsta verk Leikklúbbs Laxdæla á sviði hét Skóarakonan dæmalausa sem aldrei áður hafði verið til sýninga hérlendis. Var það verk einnig sýnt á fertugsafmæli félagsins árið 2011.
Eftir nokkur ár mikillar virkni lagðist starfsemi þess í nokkurn dvala þar til í fyrra, en þá hlaut leikfélagið bæði styrk úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs og Uppbyggingarsjóði Vesturlands með það fyrir augum að koma verki á svið, og efla leikfélagið sem skyldi. Var verkið Vodkakúrinn sýnt fyrir fullu húsi og hélt þrjár sýningar í Dalabúð í apríl 2023.
Velgengnin var svo sannarlega innblástur til að halda áfram og hefur félagið nú ráðið Gunnar Björn Guðmundsson leikstjóra til starfa við að koma á svið gamanleikritinu Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson. Fjallar það um aldraða fimm barna móður sem grípur til hvítrar lygi til þess að fá börnin sín öll í heimsókn, eftir að þau afboða komu sína hvert af öðru.
Uppselt er á frumsýninguna þann 27. mars en önnur og þriðja sýning verða dagana 30. mars og 1. apríl – allar klukkan 20. Miða – og mat – má panta á netfanginu leikklubburinn@ gmail.com og miðaverð er 3.500 kr. en 3.000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja, en einnig er hægt að kaupa smáréttaplatta og drykki.