Aðgerðaáætlun matvælastefnu
Aðgerðaáætlun matvælastefnu var gefin út á þriðjudaginn, 10. september.
Hún byggir á matvælastefnu til ársins 2040 sem samþykkt var á Alþingi í júní 2023 og hefur þríþættan tilgang; vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.
Heildaráætlunin samanstendur af fjórum sértækum aðgerðaáætlunum; landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt, aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu, stefnu um uppbyggingu og umgjörð lagareldis og sjávarútvegsstefnu. Þær þrjár síðasttöldu eru sagðar enn í vinnslu.
Aðgerðir þvert á undirstefnur
Einnig eru aðgerðir sem liggja þvert á aðrar undirstefnur, sem einnig eru í vinnslu eða fyrirhugað að ráðast í.
Þær eru: söfnunarkerfi fyrir dýraleifar, stöðumat markmiða um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, mótun aðgerða um neyðarbirgðahald á matvælum og nauðsynlegra aðfanga vegna matvælaframleiðslu, matvælaeftirlit verði samræmt og árangur af stuðningi Matvælasjóðs verði mældur.
Heildarendurskoðun á stuðningskerfi landbúnaðarins
Aðgerðaáætluninni er skipt upp í sex efnishluta og í umfjöllun um sjálfbærni matvælaframleiðslu segir að í drögum að aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu eigi að hefja vinnu við heildarendurskoðun á stuðningskerfi landbúnaðarins en núgildandi búvörusamningar renna út árið 2026.
Við mótun nýs stuðningskerfis verði horft til þess að aukin áhersla verði á loftslagsmál og samdrátt í losun frá landbúnaði í samræmi við markmið landbúnaðarstefnu. Enn fremur að unnið verði að því að móta gæðakröfur vegna lífræns áburðar í fóður- og matvælaframleiðslu.
Í efnishlutanum um fæðuöryggi eru nefnd nokkur stefnumið; að stoðir fæðukerfa og fæðuöryggis verði styrktar með því meðal annars að styðja við nýsköpun í matvælaframleiðslu og stuðla að aukinni sjálfbærni innlendrar framleiðslu með tilliti til aðfanga auðlindanýtingar og hringrásarhagkerfis. Að áhersla verði lögð á að minnka losun vegna matvælaframleiðslu og auka framleiðslu matvæla með lágu kolefnisspori, sem byggist á lífsferilsgreiningu og mati á kolefnisspori framleiðslunnar.
Aðgerðaáætlunin nær til næstu fimm ára, verður endurskoðuð árlega og uppfærð eftir þörfum.