Ævar Þór og Sigríður hlutu verðlaun í tengslum við Dag íslenskrar náttúru
Ævar Þór Benediktsson hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Sigþrúður Jónsdóttir fékk Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti í dag. Verðlaunin voru veitt í tengslum við Dag íslenskrar náttúru, sem er á morgun.
Í tilkynningu úr ráðuneytinu kemur fram að Ævar Þór hljóti verðlaunin fyrir að hafa fjallað á fjölbreyttan, fræðandi og skemmtilegan hátt um umhverfið, náttúruna og náttúruvernd í sjónvarpsþáttum sínum Ævar vísindamaður og útvarpsþáttunum Vísindavarpið á Rás 1, veturinn 2016-2017.
Segir í rökstuðningi dómnefndar að Ævar hafi með fjölbreyttum hætti vakið athygli ungra áhorfenda á umhverfismálum og náttúru á faglegan og vandaðan hátt. Þá hafi hann bent á ógnirnar sem steðja að umhverfi og náttúru en um leið fjallað um með hvaða hætti hægt sé að bæta ástand viðkvæmra vistkerfa og náttúrunnar. Honum hafi tekist að samtvinna umfjöllun um umhverfismál og skemmtilegt og lærdómsríkt afþreyingarefni fyrir börn og sé vel að þessari viðurkenningu kominn.
Sigríður Jónsdóttir hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti
Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að Sigþrúður Jónsdóttir hljóti Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir áralanga baráttu sína fyrir verndun Þjórsárvera.
Segir í rökstuðningi ráðherra að Sigþrúður hafi helgað líf sitt verndun svæðisins og unnið markvisst að vitundarvakningu um einstæða náttúru þess. Hún hafi verið meðal stofnenda Áhugahóps um verndun Þjórsárvera, haldið baráttufundi gegn virkjunum í Þjórsá, safnað undirskriftum gegn virkjunum og leiðsagt fjölmörgum hópum í gönguferðum um Þjórsárver. Hún hafi varið tíma, orku og fjármunum í baráttuna svo gengið hafi nærri henni og fjölskyldu hennar. Líkt og Sigríður í Brattholti hafi hún verið rekin áfram af einlægri hugsjón og sannfæringu um mikilvægi þess að umgangast landið og náttúruna af varkárni og virðingu.