Áfangastaðastofa á Suðurlandi
Stofna á áfangastaðastofu á Suðurlandi, sem á að stuðla að heildstæðari uppbyggingu ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hafa undirritað samstarfssamning um stofnun áfangastaðastofu á starfssvæði samtakanna.
Áfangastaðastofa er svæðisbundin þjónustueining á vegum opinberra aðila og einkaaðila, sem hefur það meginhlutverk að styðja við ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta og tryggja að hún þróist í takt við vilja heimamanna þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.
„Ég er mjög ánægð með að við skulum komin með samning um stóra og öfluga áfangastaðastofu á Suðurlandi en þar fer um verulega stór hluti ferðamanna sem hingað koma. Áfangastaðastofan mun starfa á grunni áfangastaðaáætlunar fyrir svæðið og ég er þess fullviss að hún muni stuðla að enn heildstæðari uppbyggingu ferðaþjónustunnar á svæðinu,“ segir Þórdís Kolbrún.