Áframhaldandi samstarf
Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) /Beint frá býli (BFB) munu viðhalda samstarfi um sameiginleg hagsmunamál félagsmanna í matvælaframleiðslu. Það kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá samtökunum.
Í ályktun sem hennir fylgir segir að mikil tækifæri blasi við íslenskri matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum. Mikilvægt sé að aðilar sem starfi í þágu hagsmuna íslenskra matvælaframleiðslu vinni þétt saman og beiti sér fyrir því að stefnumörkun stjórnvalda endurspegli þessi tækifæri og geri fyrirtækjum í matvælaframleiðslu kleift að sækja fram.
„Í ályktuninni kemur fram að hið opinbera þurfi að stórefla fjárfestingu í menntun á sviði matvælaframleiðslu. Einnig segir í ályktun samtakanna að sameiginlegir hagsmunir matvælaframleiðenda byggi á samvinnu ólíkra fyrirtækja á grundvelli áherslna á sviði sjálfbærni, öryggis, heilnæmis og verðmætasköpunar.
Með slíku skapist aukin tækifæri til að styrkja stöðu innlendrar matvælaframleiðslu,“ segir í tilkynningu.
Samtök iðnaðarins voru bakhjarlar Samtaka smáframleiðenda matvæla við stofnun, ásamt Matarauði Íslands og Landbúnaðarklasanum.