Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Eiturefnum úðað á akur.
Eiturefnum úðað á akur.
Mynd / Wikipedia
Fréttir 18. maí 2021

Áhættumat, og eftirlitskerfi ónothæft og lög og reglur eru ekki að virka

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Endurskoðendadómstóll Evrópu (European Court og Auditors - ECA) komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu á síðasta ári að lítill sem enginn árangur hafi náðst innan Evrópusambandsins í að draga úr notkun og minnka hættu af notkun margs konar eiturefna í landbúnaði. Sala og notkun á virkum efnum er enn gríðarleg.

Sala á gróðureyðingarefnum, sveppaeitri, skordýraeitri og ýms­um hjálparefnum sem notuð eru í evrópskum landbúnaði hefur verið nokkuð stöðug í fjölda ára. Það hefur haft í för með sér niðurbrot á jarðvegi vegna þess að skordýr og örverur drepast. Einnig berast eitur- og ýmis hjálparefni í grunnvatn og skaða líka lífríki í ám og vötnum eins og fiska og fugla. Eiturefni dreifast víða vegna uppgufunar og falla síðan aftur til jarðar í menguðu regnvatni. Þetta gerist þrátt fyrir setningu margs konar laga og reglugerða til að stemma stigu við óhóflegri notkun eiturefna.

350 þúsund tonn af virkum efnum á ári

Samkvæmt tölum ECA nemur sala á virkum efnum sem notuð eru í það sem kallað er „Plant protection products, eða PPP,“ um 350.000 tonnum árlega. Þeim efnum er síðan blandað út í vatn eða önnur efni til dreifingar á akra og tún sem getur gert umfangið gríðarlegt. Þessi efni, sem oft eru kölluð varnarefni, mætti miklu fremur kalla skaðvaldaeyðingarefni, enda innihalda þau mörg hættuleg eiturefni. Er þeim ætlað að verja og tryggja uppskeru fyrir illgresi, skaðlegum sveppagróðri, sjúkdómum og skordýrum.

Geta endað sem leifar í matvælum

Notkun þessara efna getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir mannfólkið sem neytir afurðanna, eða eins og ECA segir:

„PPP efnin geta haft áhrif á gæði vatns og jarðvegs, líffræðilegan fjölbreytileika og vistkerfi og þau geta endað sem leifar í matvælum.“

ECA segir að frá árinu 1991 hefur ESB byggt upp rammalöggjöf til að heimila PPP, stuðla að sjálfbærri notkun þeirra efna og draga úr áhættu sem notkun PPP hefur í för með sér fyrir heilsu manna og umhverfið. Framkvæmdastjórnin samþykkir virk efni sem hægt er að nota í PPP sem hafa leyfi í aðildarríkjunum og athugar hvort aðildarríkin innleiði viðeigandi löggjöf ESB. Hún á að stuðla að samþættingu og hvetja til notkunar fyrirbyggjandi, náttúrulegra eða annarra efnafræðilegra aðferða við eyðingu meindýra og annarra skaðvalda, áður en gripið er til PPP efna.

Veikleikar í kerfinu

„Meginmarkmið okkar var að meta hvort aðgerðir ESB hafi dregið úr áhættu sem tengist notkun PPP. Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin hafa gripið til aðgerða til að stuðla að sjálfbærri notkun PPP. Hins vegar komumst við að því að takmarkaðar framfarir eru við að mæla og draga úr áhættu af notkun PPP. Starf okkar sýndi að aðgerðir ESB til sjálfbærrar notkunar PPP fóru hægt af stað og við greindum veikleika í núverandi ramma ESB.“

Engin skráningarskylda á notkun efnanna og reglum illa fylgt

Þá segir einnig að ECA hafi kannað hvort löggjöf ESB bæri í sér skilvirka hvata til að draga úr ósjálfbærri notkun á PPP efnum.

„Reglur ESB krefjast þess að bændur beiti samþættri skaðvaldaeyðingu, sem þýðir að þeir ættu aðeins að leita í PPP efni ef forvarnir og aðrar aðferðir bregðast eða eru ekki árangursríkar.

Þrátt fyrir að það sé skylda fyrir bændur að beita samþættri skaðvaldaeyðingu er þeim ekki skylt að halda skrár um hvernig þeir beittu því og framfylgd á reglunum er því veik.“

Þá segir að engin krafa sé um að fara þurfi að reglum um notkun hjálparefna til að njóta styrkja samkvæmt CAP landbúnaðarstefnu ESB. Þá hafi áhættuminni kostir sem geta komið í stað notkun á PPP efnum ekki verið gerðir aðgengilegir fyrir bændur.

Tölur ekki samanburðarhæfar

„Við skoðuðum hvort fram­kvæmda­­stjórnin og aðildarríkin mældu áhættu og umhverfisáhrif af notkun PPP og komumst að því að gögn sem safnað var og gerð aðgengileg voru ekki nægileg til að stuðla að virku eftirliti. Fyrirliggjandi tölfræði ESB um PPP sölu er safnað saman á of háu stigi í kerfinu til að vera gagnleg og tölur um notkun á PPP í landbúnaði voru ekki samanburðarhæfar.“

Ónothæft áhættumat

„Í nóvember 2019 birti fram­kvæmdastjórnin áætlun sína um tvo nýja samræmda áhættuvísa. Hvorugur vísirinn sýnir að hve miklu leyti tilskipunin hefur náð árangri við að ná markmiði ESB um sjálfbæra notkun á PPP efnum.“

ECA leggur til að ESB gangi úr skugga um að aðildarríkin breyti almennum meginreglum um samþætta skaðvaldaeyðingu í hagnýtar forsendur og að þær verði staðreyndar á búunum. Þá verði reglurnar tengdar greiðslum samkvæmt sameiginlegri land­búnaðar­stefnu eftir 2020.

Bæta þurfi tölfræði um PPP efni þegar lögin verða endurskoðuð til að gera þau aðgengilegri, gagnlegri og samanburðarhæfari. Einnig er lagt til að mat verði lagt á framfarir í átt að stefnumarkmiðum, bæta samræmda áhættuvísa eða þróa nýja með hliðsjón af raunverulegri notkun á skaðvaldaeyðingarefnum (PPP).

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...