Áhugi fyrir uppsetningu deilieldhúss kannaður
Einar Örn Aðalsteinsson hjá Kaffi Kú í Eyjafjarðarsveit fékk á dögunum styrk frá Matvælasjóði Íslands til að kanna rekstrarforsendur og kostnaðargreina uppsetningu deilieldhúss og er fyrsta skref þess að kanna þörf og áhuga á aðstöðunni.
Í könnun Einars kemur fram að á teikniborðinu sé að opna fullvottað deilieldhús (vinnslueldhús) í Eyjafjarðarsveit þar sem matvælafrumkvöðlum, félagasamtökum, veitingaaðilum, frumframleiðendum og yfirleitt öllum þeim sem áhuga hafa á, gefst kostur á að þróa og framleiða sína vöru í vottaðri aðstöðu með möguleika á aðstoð fagfólks. Deilieldhúsið er opið öllum, vönum og óvönum, en til að komast inn þarf að bóka tíma og útskýra hvað á að vinna við en boðið verður upp á aðstoð fagfólks ef vilji er fyrir því, að því er fram kemur á Facebook-síðu Eyjafjarðarsveitar.
Þurfa þeir aðilar sem vilja framleiða og gera tilraunir í deilieldhúsinu að sitja inntökunámskeið þar sem farið er yfir uppbyggingu vinnslurýmis, starfsreglur, smitvarnir, ofnæmisvalda, bókunarkerfi og almennt hvað felst í að starfa í deilieldhúsi.
Eldhúsið verður búið öllum þeim tækjum sem til þarf við margs konar vinnslu en vottuð aðstaða er grundvöllur þess að koma vöru á markað.