Árskóla gefnir tveir uppstoppaðir fuglar
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Árskóli á Sauðárkróki fékk á dögunum fína gjöf, en Ingólfur Sveinsson kom færandi hendi í skólann og gaf tvo uppstoppaða fugla, landsvölu og tildru.
„Það er gaman að segja frá því að landsvalan, sem er sjaldgæfur fugl á Íslandi, fannst í skólahúsi Árskóla við Skagfirðingabraut haustið 1973 þegar hluti hússins var enn í byggingu. Fuglinn, sem átti enga möguleika á að lifa hér á landi, flaug inn í hálfbyggt húsið. Hann var fangaður og settur í búr, en lifði aðeins í tvo daga,“ segir í frétt um gjöfina á vef Árskóla. Landsvala lifir á skordýrum sem hún tekur á flugi.