Auglýst eftir minkaveiðimönnum
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Djúpavogshreppur hefur auglýst eftir minkaveiðimönnum til starfa í Djúpavogshreppi til eins árs frá og með maí 2016.
Fjallað var um málið á fundi sveitarstjórnar og samþykkt að greiðslur yrðu með þeim hætti að 117 kr. verða greiddar í aksturstaxta, tímakaup fyrir grenjaleit er 1.500 krónur, verðlaun fyrir unnin dýr eru þannig að fyrir fullorðin dýr og hvolpa eru greiddar 3.000 krónur en að auki verða eftir 15. apríl næstkomandi greiddar ígildi fjögurra hvolpa fyrir hvolpafullar læður.
Umsækjendum er bent á að tilgreina tækjakost þann sem þeir búa yfir, hundakost og eftir atvikum aðstoðarmenn. Vakin er á því athygli að samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins eru 700 þúsund krónur ætlaðar til minkaveiða í ár.