Bændur geta tekið forystu í loftslagsmálum
Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Ingvar Björnsson á Hólabaki hefur undanfarin ár leitt þá vinnu að móta umhverfisstefnu fyrir landbúnaðinn með sjálfbærni að leiðarljósi. Sú stefna var samþykkt á síðasta Búnaðarþingi og lesa má hluta úr henni hér neðar í greininni. Blaðamaður lagði fyrir hann nokkrar spurningar varðandi skoðanir hans á endurheimt votlendis:
Hvernig sérð þú fyrir þér að bændur geti orðið leiðandi í umhverfismálum hérlendis?
„Með umhverfisstefnu landbúnaðarins hafa bændur sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum. Meginstef umhverfisstefnunnar eru loftslagsvernd, sjálfbærni og vistheimt. Bændur hafa yfir að ráða landi og þekkingu og eru því lykilaðilar þegar kemur að aðgerðum í þessum málaflokkum.
Í loftslagsmálum getur landbúnaðurinn tekið forystu með því að kolefnisjafna framleiðsluna á næstu árum. Það verður gert með því að draga úr losun og ráðast í aðgerðir til kolefnisbindingar svo sem með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Þegar kolefnisjöfnun landbúnaðarframleiðslu er lokið verður hægt að halda áfram og vinna að kolefnisbindingu í þágu samfélagsins alls.“
Er það raunhæft á 10 árum?
„Það er vel raunhæft að kolefnisjafna íslenskan landbúnað á 10 árum. Það þarf að vinna í góðu samstarfi við stjórnvöld og stofnanir á borð við Landgræðsluna og Skógræktina.“
Hvaða skoðun hefur þú á endurheimt votlendis og því starfi sem unnið hefur verið þar af Votlendissjóði?
„Endurheimt votlendis er öflug aðgerð í loftslagsmálum og til að endurheimta röskuð vistkerfi. Endurheimt votlendis á landi sem ekki er nýtt til landbúnaðarframleiðslu er enn fremur mjög skynsamleg leið til að geyma frjósamt og gott landbúnaðarland fyrir komandi kynslóðir. Í stað þess að láta lífræn efni brenna upp og dæla koltvísýringi út í andrúmsloftið er hægt að bleyta upp í landi og halda áfram að byggja upp lífrænan forða. Ef framtíðarkynslóðir munu þurfa á þessu landi að halda til matvælaframleiðslu er hægt að ræsa það fram og taka til ræktunar. Bændur eiga ekki að óttast hugmyndir um endurheimt votlendis en fremur að taka þátt í umræðunni og stýra því hvaða land er endurheimt.“
Umhverfisstefna Bændasamtaka Íslands
Á Búnaðarþingi fyrr á árinu var umhverfisstefna landbúnaðarins samþykkt til ársins 2030. Umhverfisstefnan fjallar á almennan hátt um landbúnað og umhverfismál og skilgreinir meginmarkmið íslensks landbúnaðar í umhverfismálum næsta áratuginn. Lagt er til að leiðarljós stefnunnar verði loftslagsmál, sjálfbærni og vistheimt og meginmarkmið landbúnaðar í umhverfismálum hafi skírskotun í þessa þætti.
Markmiðið með henni er að setja íslenskum landbúnaði stefnu í umhverfismálum til næsta áratugar og er helst horft til þriggja þátta:
1. Að umhverfisstefnan verði leiðarljós einstakra bænda og búgreina sem og landbúnaðarins alls í umhverfismálum.
2. Að umhverfisstefnan verði mikilvægt verkfæri við endurskoðun búvörusamninga og aðra framtíðarsamninga ríkis og bænda um umhverfistengd verkefni.
3. Að umhverfisstefnan verði mikilvægt verkfæri til markaðssóknar landbúnaðarvara á íslenskum markaði og jákvæðrar ímyndarsköpunar fyrir íslenskan landbúnað.
Hægt að fara blandaða leið
Í umhverfisstefnunni er töluvert fjallað um endurheimt votlendis þar sem bændur geta lagt sín lóð á vogarskálarnar við kolefnisbindingu. Eftirfarandi texti er vísun úr stefnunni:
„Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun mannkyns og framtíð komandi kynslóða ræðst af því hvernig við bregðumst við á næstu árum. Ráðast þarf í átak í kolefnisbindingu ásamt því að draga eftir mætti úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisbinding mun að mestu fara fram með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Þarna hafa bændur margt fram að færa, landið, þekkinguna og verkfærin.
Endurheimt votlendis er öflug mótvægisaðgerð gegn kolefnislosun. Ekki er um að ræða kolefnisbindingu heldur er kolefnislosun frá framræstu landi stöðvuð. Áætlað er að ha af framræstu landi losi árlega um 20 tonn af CO2. Ef kolefnisjafna á íslenskan landbúnað þarf að endurheimta 30.000 ha af votlendi á tímabilinu 2020–2030. Þetta samsvarar 3.000 ha árlega eða um 1 ha á hvert lögbýli í byggð. Sé farin blönduð leið, (t.d. skógrækt 50% ‐landgræðsla 30% ‐endurheimt votlendis 20%), að því takmarki að kolefnisjafna íslenskan landbúnað árið 2030 þarf að ráðast í eftirfarandi aðgerðir á hverju lögbýli í byggð á árabilinu 2020‐2030.