Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir í Birkihlíð.
Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir í Birkihlíð.
Mynd / HKr.
Fréttir 9. nóvember 2021

Bændurnir í Birkihlíð fagna því að öll virðiskeðjan sé komin í eigin hendur

Höfundur: smh

Í maí síðastliðnum var gefin út reglugerð um lítil sláturhús á lögbýlum, sem heimilar bændum að slátra sauðfé og geitum heima á bæjum til markaðssetningar afurðanna, að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Fjórar umsóknir hafa borist Matvælastofnun um rekstrarleyfi og komu þær allar í júlí. Tveir umsækjenda eru komnir með leyfi og eru byrjaðir að slátra, tveir aðrir eru enn í leyfisferli.

Bændur á bæjunum Birkihlíð í Skagafirði og Grímsstöðum í Reykholtsdal eru þegar byrjaðir að slátra og hefur gengið vel á báðum bæjum.

Reglugerð í kjölfar tilraunaverkefnis frá síðasta ári

Reglugerðin var gefin út í kjölfar tilraunaverkefnis um heimaslátrun fyrir ári síðan sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóð fyrir síðastliðið haust í samstarfi við Landssamtök sauðfjárbænda. Markmiðið var að leita leiða til að auðvelda bændum sauðfjárslátrun heima til markaðssetningar og gefa þeim þannig tækifæri til frekari verðmætasköpunar úr eigin afurðum. Alls tóku 25 bæir þátt í verkefninu vítt og breitt um landið og var 112 lömbum slátrað.

Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir í Birkihlíð segir að þau séu alveg í skýjunum með hvernig til hefur tekist. Þar er búið að slátra tvisvar sinnum, 23 lömbum alls, og áætlað að slátra einu sinni enn í það minnsta.

„Þetta verða sennilega um 40 lömb í haust vegna þess hve seint við fengum leyfið. Við ætlum ekki að slátra neinum ám í haust. Við höfum verið með frábæra og vana menn í þessu með okkur og alveg yndislegan dýralækni frá Matvælastofnun,“ segir hún.

Rekja má upphafið að því að reglugerðin var gefin úr síðasta vor til svokallaðs Örslátrunarverkefnis Matís frá haustdögum 2018. Þá var nokkrum lömbum slátrað heima í Birkihlíð – samkvæmt tillögum Matís að reglum um örslátrun – og afurðir úr slátruninni seldar í kjölfarið á bændamarkaði á Hofsósi.

Mælingar voru gerðar meðal annars á örverum og sýrustigi – og kjöt­afurðirnar bornar loks saman við afurðir sem komu úr hefðbundinni sauðfjárslátrun. Sveinn Margeirsson, þáverandi forstjóri Matís, stóð fyrir Örslátrunarverkefninu og var ákærður af Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra fyrir brot á lögum um slátrun og sláturafurðum í október 2019, en sýknaður ári seinna.

Öll virðiskeðjan komin í hendur bænda

„Það er bara frábært að bændur séu komnir með allt ferlið til sín. Þeir eru komnir með alla virðiskeðjuna heim til sín. Bændur eru matvælaframleiðendur og þeir eru að búa til mjög heilnæmar, góðar og flottar matvörur,“ segir Ragnheiður.

„Fyrir okkur persónulega þá getum við meira stjórnað okkar sláturtíma; byrjað að slátra mun fyrr en hingað til, jafnvel um miðjan ágúst og þess vegna slátrað fram í miðjan nóvember –verið lengur með nýtt og ferskt kjöt á markaðnum.“

Margir kostir við nýtt fyrirkomulag
Fyrstu þrír lambskrokkarnir sem slátrað var í Birkihlíð. Búið er að stimpla á fyrsta skrokkinn. Brynjólfur Birkir Þrastarson er á bak við að færa fjórða skrokkinn á hjólarekkann. Á bleiku miðunum stendur númer á lambi og númer hvað það var í sláturröðinni. Mynd / Birkihlíð

„Með þessu breytta fyrirkomulagi getum við sparað heimtökukostnað sem hefur verið hjá okkur í kringum eina milljón, en jú, á móti kemur að við þurfum að borga launakostnað.
Hvað varðar dýravelferð þá er þetta bara allt annað. Nú fæðast lömbin heima á bænum og enda líf sitt líka þar í rólegheitum.

Hér hjá okkur eru fjárhúsin, réttin og svo banaklefinn þar fyrir utan. Þau eru bara í rólegheitum inni í fjárhúsinu og eru leidd út eitt af öðru í sínu venjulega umhverfi, búin að fara þarna út og inn mörgum sinnum. Ekkert stress og engin læti. Svo getum við alveg rætt um kolefnissporið, sem er varla nokkuð í þessu ferli.

Við getum líka rætt um allan innmatinn sem við fáum nú, hausinn og gæruna. Ef fólk hefur tíma, getu og áhuga þá er svo endalaust margt hægt að gera með þetta. Hugsið ykkur hvað getur komið út úr þessu, öll nýsköpunin, allt sem fólki á eftir að detta í hug að gera úr þessu. Það eina sem getur takmarkað bændur er hugmyndaflugið,“ segir Ragnheiður, en þau voru fyrir með fullbúna kjötvinnslu á bænum sem er eitt af skilyrðum reglugerðarinnar.

„Við fengum til dæmis um daginn styrk frá Matvælasjóði til að grúska eitthvað með innmatinn og þar eru heldur betur komnar fram hugmyndir um að prófa ýmislegt. Það eru bara spennandi tímar fram undan hjá þeim bændum sem hafa hugsað sér að fara út í að slátra heima til markaðssetningar.“

Stórmarkaðir áhugasamir

Að sögn Ragnheiðar hefur stór verslunarkeðja haft samband við bændur og vill kaupa allt heimaslátrað lambakjöt sem er slátrað löglega heima á bæjum, sem fær að meyrna og verða að úrvalsvöru. „Bara þetta segir okkur að þetta er stórt tækifæri fyrir sauðfjárbændur,“ segir hún.

„Nú hafa bændur líka valkost, en þeir hafa verið algjörlega fastir í fyrra fyrirkomulagi. Þeir hafa verið neyddir til að fara með lömbin sín í sláturhús, en jú, getað tekið lömbin sín heim með tilheyrandi kostnaði. Við höfum undanfarin fjögur ár tekið öll okkar lömb heim og unnið í kjötvinnslunni og selt sjálf. En við höfum velt því fyrir okkur hvort við hefðum lagt í að kaupa okkar eigin lömb út úr afurðastöðinni, ef heimtökugjaldið myndi hækka aðeins til viðbótar við það sem nú.

Þetta á við alla sem eru með kjötvinnslur, þeir hafa þurft að slátra á löggiltu sláturhúsi og borga þetta heimtökugjald. Síðan kemur annar baggi en það er flutningurinn heim til baka, frá afurðastöðinni og aftur heim í kjötvinnsluna á bænum. En við erum mjög vel í sveit sett, með tvö sláturhús hérna í bakgarðinum, á Sauðárkróki og á Blönduósi, en það eru ekki nærri því allir svo heppnir. Fólk sem býr á Vestfjörðum og eins á Suðaustur- og Austurlandi er ekki svona heppið. Það er ansi mikið að keyra fleiri, fleiri hundruð kílómetra til að ná í kjötið sitt aftur og keyra það heim. Þá spyr maður um þetta kolefnisspor sem er svo fínt að tala um á tyllidögum.“

Erfitt en gefandi að vinna og selja eigin vörur

Ragnheiður segir að það sé skiljanlegt að bændur verði reiðir og pirraðir þegar afurðaverð er gefið út í lok sumars, því það breytist varla neitt. „Landssamband sauðfjárbænda hefur stundum gefið út viðmiðunarverð, en hefur einhvern tímann verið hlustað á það?“ spyr hún.

„Okkar upplifun, þegar við erum á sauðfjárbændafundum og hlustum á bændur ræða það verð sem þeir fá fyrir sínar vörur, er í allt öðrum veruleika. En þetta er mjög mikil vinna, við erum alls ekki að gera lítið úr því. Það er bara þannig. En þetta er líka mjög gaman. Það er mjög gaman að hitta viðskiptavini sína og þeim finnst líka mjög gaman að hitta bændurna og vita hvaðan kjötið sem þeir eru að kaupa kemur. Við finnum mjög vel hvað það er orðin miklu meiri vakning í þessum efnum síðan við byrjuðum árið 2017.

Við erum á þeirri skoðun að því fleiri sem fara í þetta og gefi þessari vöru tíma til að verða að þeirri gæðavöru sem hún er, með réttri meðhöndlun, þeim mun eftirsóttari verður hún og þar með eykst neyslan á lambakjöti.

Og til að æra óstöðugan, er ekki bara næst að berjast fyrir nautgripaslátrun? – Já, maður spyr sig,“ segir Ragnheiður að lokum.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...