Bankar og stórfyrirtæki óttast samdrátt efnahagslífsins
Þýski stórbankinn Bundesbank varar Evrópusambandið við að allsherjar viðskiptabann á rússneskan jarðgasinnflutning sem Evrópusambandið íhugar að ráðast í geti haft hrikalegar afleiðingar fyrir efnahagslífið í ESB-ríkjunum.
Embættismenn Evrópusambandsins eru að íhuga allsherjar viðskiptabann á rússneskan jarðgasinnflutning, sem gæti verið kynnt í Brussel á næstunni. Níu Evrópuríki auk Kanada, Bandaríkjanna og Bretlands hafa bundist samtökum um að draga úr innflutningi sínum á olíu frá Rússlandi um 2 milljónir tunna eða svo.
Hugmyndir um slíkt bann hafa valdið áhyggjum innan Seðlabanka Evrópu (European Central Bank - ECB). Velti bankinn upp ýmsum sviðsmyndum af lokun á gasinnflutning frá Rússlandi í síðasta mánaðarriti sínu og telur horfurnar nú verri en áður. Þar kemur fram að búast megi við allt að 5,1% heildarsamdrætti vergrar þjóðarframleiðslu á yfirstandandi ári og hækkandi verðbólgu. Þá býst bankinn við 3,5% samdrætti á næsta ári (2023) af sömu ástæðu og 3,4% samdrætti á árinu 2024.
Þýski seðlabankinn hefur þegar bent á að þegar sé farið að halla undan fæti í efnahag Evrópusambandsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Ytra áfall af þessum toga geti komið af stað umtalsverðum samdrætti.
Gæti leitt til hrikalegs samdráttar
Í umsögn Bundesbank um málið föstudaginn 22. apríl kom fram að tafarlaust, algert bann við innflutningi á gasi frá Rússlandi gæti aukið hættuna á efnahagsstöðnun og leitt til hrikalegs samdráttar.
Bundesbank varaði við því að viðskiptabann á rússneskt gas myndi kosta hagkerfi þess 180 milljarða evra vegna samdráttar í framleiðslu á þessu ári. Auk þess sem verð á orku myndi hækka upp í áður óþekktar hæðir og sjokkera hagkerfið í einni dýpstu niðursveiflu í mörg ár, að því er fram kom í frétt Financial Times.
Í alvarlegri kreppu myndi landsframleiðsla í raun á yfirstandandi ári lækka um tæp 2% miðað við árið 2021.
„Auk þess yrði verðbólgan umtalsvert hærri til lengri tíma,“ sagði í umsögn Bundesbank.
Þetta getur þýtt að enn á ný verði peningaprentvélarnar settar á fullt í Evrópu til að prenta evrur sem engin innistæða er fyrir.
Áhyggjur meðal iðnfyrirtækja
Umræða um viðskiptabann á rússneskt gas hefur valdið áhyggjum meðal risafyrirtækja í iðnaðarframleiðslu í Þýskalandi. Allt að 40% af jarðgasi ESB og 25% af olíu þess eru háð Rússlandi, fyrst og fremst í gegnum leiðslur. Þriðjungur af heildarorkunotkun Þýskalands er háður Rússlandi.
Martin Brudermüller, framkvæmdastjóri efnasamsteypunnar BASF, sagði að gasbannið myndi steypa þýskum viðskiptum sínum í „verstu kreppu sína síðan í síðari heimsstyrjöldinni“.
Þýskaland er með stærsta hagkerfið af 27 ríkjum Evrópusambandsins og þar hefur banni við innflutningi á orku frá Rússlandi verið mótmælt harðlega. Hafa menn frekar viljað sjá hægfara niðurskurð á innflutningi á gasi og olíu frá Rússlandi.
„Skyndilegt gasbann myndi leiða til framleiðslutaps, stöðvunar á frekari rafiðnvæðingu og langtímamissis á atvinnumöguleikum í Þýskalandi,“ að því er AP fréttastofan hafði eftir formönnum vinnuveitendahóps BDA og DGB verkalýðssamtakanna í fyrri viku.
Rússar taldir þola mjög lágt olíuverð
Samkvæmt útlistun JPMorgan er framleiðslukostnaður Rússa á olíu talinn vera um 10 dollarar á tunnu. Þeir gætu því vel mögulega mætt allt að 90% innflutningstollum Evrópuríkja eða mögulega 20 dollara verðþaki án þess að tapa á slíkum viðskiptum. Þykir JPM þó líklegra að Rússar muni í framhaldinu beina sínum olíuútflutningi til vinveittra ríkja eina og Kína, Indlands auk Tyrklands.
Natasha Kaneva, hráefnaráðgjafi JPMorgan, skrifaði á dögunum um hugmyndir í Evrópu um að banna rússneska hráolíu:
„Fullt, tafarlaust bann myndi líklega koma Brent hráolíuverði upp í 185 dali á tunnu. Þar sem meira en 4 milljón tunnur af rússneskum olíubirgðum hyrfu á brott og hvorki er pláss né tími til að endurbeina þeim til Kína, Indlands eða annarra hugsanlegra varakaupenda.“
Samkvæmt útreikningum JP Morgan nam innflutningur ESB á olíu frá Rússlandi dagana 9.–16. apríl 7,3 milljónum tunna, sem er litlu minna en áður en Úkraínustríðið hófst í febrúar. Þá nam sjö daga innflutningur 7,58 milljónum tunna að jafnaði. Samkvæmt útreikningum JPM er hlutfall hráolíu (Crude Oil) í þessum olíuflutningum þó hærra en fyrir stríðið, en dregið hefur lítillega úr innflutningi á öðrum olíutegundum frá Rússlandi.