Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bankar og stórfyrirtæki óttast samdrátt efnahagslífsins
Fréttir 20. maí 2022

Bankar og stórfyrirtæki óttast samdrátt efnahagslífsins

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þýski stórbankinn Bundesbank varar Evrópusambandið við að allsherjar viðskiptabann á rússneskan jarðgasinnflutning sem Evrópusambandið íhugar að ráðast í geti haft hrikalegar afleiðingar fyrir efnahagslífið í ESB-ríkjunum.

Embættismenn Evrópu­sam­bandsins eru að íhuga allsherjar viðskiptabann á rússneskan jarðgas­innflutning, sem gæti verið kynnt í Brussel á næstunni. Níu Evrópuríki auk Kanada, Bandaríkjanna og Bretlands hafa bundist samtökum um að draga úr innflutningi sínum á olíu frá Rússlandi um 2 milljónir tunna eða svo.

Hugmyndir um slíkt bann hafa valdið áhyggjum innan Seðlabanka Evrópu (European Central Bank - ECB). Velti bankinn upp ýmsum sviðsmyndum af lokun á gasinnflutning frá Rússlandi í síðasta mánaðarriti sínu og telur horfurnar nú verri en áður. Þar kemur fram að búast megi við allt að 5,1% heildarsamdrætti vergrar þjóðarframleiðslu á yfirstandandi ári og hækkandi verðbólgu. Þá býst bankinn við 3,5% samdrætti á næsta ári (2023) af sömu ástæðu og 3,4% samdrætti á árinu 2024.

Þýski seðlabankinn hefur þegar bent á að þegar sé farið að halla undan fæti í efnahag Evrópusambandsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Ytra áfall af þessum toga geti komið af stað umtalsverðum samdrætti.

Gæti leitt til hrikalegs samdráttar

Í umsögn Bundesbank um málið föstudaginn 22. apríl kom fram að tafarlaust, algert bann við inn­flutningi á gasi frá Rússlandi gæti aukið hættuna á efnahagsstöðnun og leitt til hrikalegs samdráttar.

Bundesbank varaði við því að viðskiptabann á rússneskt gas myndi kosta hagkerfi þess 180 milljarða evra vegna samdráttar í framleiðslu á þessu ári. Auk þess sem verð á orku myndi hækka upp í áður óþekktar hæðir og sjokkera hagkerfið í einni dýpstu niðursveiflu í mörg ár, að því er fram kom í frétt Financial Times.

Í alvarlegri kreppu myndi landsframleiðsla í raun á yfir­standandi ári lækka um tæp 2% miðað við árið 2021.

„Auk þess yrði verðbólgan umtalsvert hærri til lengri tíma,“ sagði í umsögn Bundesbank.

Þetta getur þýtt að enn á ný verði peningaprentvélarnar settar á fullt í Evrópu til að prenta evrur sem engin innistæða er fyrir.

Áhyggjur meðal iðnfyrirtækja

Umræða um viðskiptabann á rússneskt gas hefur valdið áhyggj­um meðal risafyrirtækja í iðnaðar­framleiðslu í Þýskalandi. Allt að 40% af jarðgasi ESB og 25% af olíu þess eru háð Rússlandi, fyrst og fremst í gegnum leiðslur. Þriðjungur af heildarorkunotkun Þýskalands er háður Rússlandi.

Martin Brudermüller, fram­kvæmda­stjóri efnasam­steyp­unnar BASF, sagði að gasbannið myndi steypa þýskum viðskiptum sínum í „verstu kreppu sína síðan í síðari heimsstyrjöldinni“.

Þýskaland er með stærsta hagkerfið af 27 ríkjum Evrópu­sam­bandsins og þar hefur banni við innflutningi á orku frá Rússlandi verið mótmælt harðlega. Hafa menn frekar viljað sjá hægfara niðurskurð á innflutningi á gasi og olíu frá Rússlandi.

„Skyndilegt gasbann myndi leiða til framleiðslutaps, stöðvunar á frekari rafiðnvæðingu og langtímamissis á atvinnumöguleikum í Þýskalandi,“ að því er AP fréttastofan hafði eftir formönnum vinnuveitendahóps BDA og DGB verkalýðssamtakanna í fyrri viku.

Rússar taldir þola mjög lágt olíuverð

Samkvæmt útlistun JPMorgan er framleiðslukostnaður Rússa á olíu talinn vera um 10 dollarar á tunnu. Þeir gætu því vel mögulega mætt allt að 90% innflutningstollum Evrópuríkja eða mögulega 20 dollara verðþaki án þess að tapa á slíkum viðskiptum. Þykir JPM þó líklegra að Rússar muni í framhaldinu beina sínum olíuútflutningi til vinveittra ríkja eina og Kína, Indlands auk Tyrklands.

Natasha Kaneva, hráefnaráðgjafi JPMorgan, skrifaði á dögunum um hugmyndir í Evrópu um að banna rússneska hráolíu:

„Fullt, tafarlaust bann myndi líklega koma Brent hráolíuverði upp í 185 dali á tunnu. Þar sem meira en 4 milljón tunnur af rússneskum olíubirgðum hyrfu á brott og hvorki er pláss né tími til að endurbeina þeim til Kína, Indlands eða annarra hugsanlegra varakaupenda.“

Samkvæmt útreikningum JP Morgan nam innflutningur ESB á olíu frá Rússlandi dagana 9.–16. apríl 7,3 milljónum tunna, sem er litlu minna en áður en Úkraínustríðið hófst í febrúar. Þá nam sjö daga innflutningur 7,58 milljónum tunna að jafnaði. Samkvæmt útreikningum JPM er hlutfall hráolíu (Crude Oil) í þessum olíuflutningum þó hærra en fyrir stríðið, en dregið hefur lítillega úr innflutningi á öðrum olíutegundum frá Rússlandi.

Skylt efni: esb | olía | gas

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...