Blásið til sóknar í umhverfismálum með tínslu á rusli
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Undanfarnar vikur, þegar ég hef verið á ferð seinni part dags í Garðabæ, hef ég séð fjölda af myndarlegum konum ganga með vegum og gangbrautum tínandi rusl í þar til gerða svarta ruslapoka. Fyrir mér er Garðabær snyrtilegasta bæjarfélagið á höfuðborgarsvæðinu.
Vikuna 2.–7. maí tekur Reykjavíkurborg þátt í evrópskri hreinsunarviku með því að hvetja fólk og fyrirtæki til að hreinsa saman, en borgin efndi til sérstaks hreinsunardags laugardaginn 7. maí. Borgarbúar gátu valið sér opið leiksvæði og nágrenni á skráningarsíðu og fyrirtæki gátu skráð sig til leiks og fengið viðurkenningarskjal. Ekki vanþarft verk þar sem að mjög víða í Reykjavík er mikið drasl og gæti ég þá sérstaklega bent á beggja vegna við veginn þegar komið er til Reykjavíkur á móts við Rannsóknarstöðina að Keldum.
Víða fallegar sveitir og snyrtilegar
Með vaxandi fjölda ferðamanna þarf að huga að umhverfinu, en snyrtilegar sveitir eru margar og sitja alltaf eftir í minningunni úr ferðalagi. Fyrir nokkrum árum ók ég í gegnum Kelduhverfi þar sem ég ólst upp og tók þá eftir unglingum sem gengu með veginum og tíndu upp rusl. Ég stoppaði hjá einum þeirra og spurði hann út í það hvaðan hugmyndin að þessu hreinsunarátaki væri komin. Hann sagði mér að þetta væri unglingavinna á vegum sveitarfélagsins. Aðspurður hvort það væri mikið rusl sagði hann mér að það væri alveg ótrúlega mikið af tómum sígarettupökkum og einnota drykkjarílátum. Kelduhverfi er nú er hluti af sameiginlegu sveitarfélagi sem ber nafnið Norðurþing. Í Norðurþingi hefur undanfarin ár verið gert lofsamlegt átak í fækkun meindýrsins minks.
Stærsta umhverfisslys Íslandssögunnar þegar minkurinn komst í íslenska náttúru
Ég hef oft nefnt það að stærsta umhverfisslys Íslandssögunnar var þegar minkur slapp úr búrum út í íslenska náttúru. Í Norðurþingi hafa tveir bræður verið ötulir við að nánast útrýma mink í sveitarfélaginu. Nú er svo komið að í Norðurþingi er eitthvert fjölskrúðugasta fuglalíf landsins og vel veiðist í silungsveiðiám og vötnum.
Hvað eru umhverfisverðlaun?
Blásið hefur verið til sóknar í umhverfismálum með tínslu á rusli. Vilja margir þakka þetta fjölskrúðuga náttúrulíf fugla og fiska þeim bræðrum sem hafa nánast útrýmt minki á svæðinu frá Skjálfandafljóti að Ormarsá á Melrakkasléttu. Þrátt fyrir mikinn dugnað í starfi virðist sem engum hafi dottið í hug að heiðra þessa menn með umhverfisverðlaunum