Boðnir afarkostir og okurvextir
Eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Iceland Unlimited þurfti að hóta að setja fyrirtækið í þrot eftir að hann lenti í skuld við greiðslumiðlunarfyrirtæki í kjölfar afbókana vegna COVID-19. Hann segir að sér hafi verið stillt upp við vegg með afarkostum.
„Ég náði að lokum samningi við mitt kortafyrirtæki en til þess að sá samningur næðist þurfti ég að hóta því að setja fyrirtækið mitt í þrot,“ segir Jón Gunnar Benjamínsson hjá Iceland Unlimited. „Kortafyrirtækið stillti mér hreinlega upp við vegg og bauð í fyrstu upp á afarkosti og okurvexti.“
Jón segir að það hafi komið sér verulega á óvart að greiðslumiðlunarfyrirtækið, sem hann hafi verið í viðskiptum við í tíu ár, eða frá stofnun þess, hafi boðið sér afarkosti eftir að hann lenti í vandræðum með greiðslur í kjölfar COVID-19.
Afpantanir og endurgreiðslur
Jón segir að í kjölfar COVID-19 hafi hann lent í skuld við greiðslumiðlunarfyrirtækið. „Skuldin varð þannig til að einhverjir aðilar voru búnir að greiða fyrir þjónustu hjá okkur með greiðslukorti og greiðsluþjónustan búin að áframgreiða til okkar. Svo gerist það að í kjölfar COVID-19 afpanta sumir ferðina og fá endurgreiðslu frá greiðslumiðluninni og hún endurkrefur mig um það sem hún er búin að borga mér. Það er því óumdeilanlegt að ég er í skuld við greiðslumiðlunina.
Vandinn hjá mér er aftur á móti sá að ég er búinn að nota hluta af peningunum í fjárfestingar sem tengjast rekstrinum og er ekki að fá neina innkomu á móti og get því ekki greitt allt að fullu til baka.“
Afarkostir
„Fyrirtækið sem ég er í viðskiptum við bauð í fyrstu hreina afarkosti til að gera upp við sig og það sem ég kalla okurlán. Samningurinn sem mér var boðinn átti að bera 10% vexti, auk þess sem ég átti að greiða helming af öllum jákvæðum færslum til þeirra, sem þýðir að greiðslumiðlunarfyrirtækið átti að fá helminginn af öllum kreditkortagreiðslum til mín sem lið í að greiða niður skuldina. Auk þess sem að í lok hvers mánaðar átti ég að greiða þeim eina milljón króna inn á skuldina og ofan á þetta allt saman átti að bætast um 0,5% álag á höfuðstólinn.“
Hótaði að setja fyrirtækið í þrot
„Með því að bjóða slíka afarkosti er greiðslumiðlunin að nýta sér með grófum hætti mjög erfiða stöðu hjá mér og stilla mér upp við vegg og ætlar sér um leið að græða á því.“
Jón segir að hann hafi neitað þessum skilmálum og hótað að setja Iceland Umlimited í þrot og að því fylgdi að greiðslumiðlunin fengi ekkert upp í sína skuld.
„Um leið og ég gerði það er mér boðinn annar og betri samningur og með 4% vöxtum. Greiðslumiðlunarfyrirtækið var sem sagt umsvifalaust tilbúið til að draga úr kröfunum þegar ég hótaði að fara með mitt fyrirtæki í þrot.
Satt best að segja taldi ég mig eiga inni einhverja góðvild hjá fyrirtæki sem ég er búinn að vera í viðskiptum við í tíu ár en svo er greinilega ekki.
Í framhaldi af þessu og rúmlega 100% hækkunar á þóknunargjaldi greiðslumiðlunarinnar í október á síðasta ári hef ég verið að horfa í kringum mig eftir öðrum kostum erlendis sem bjóða upp á sams konar þjónustu,“ segir Jón Gunnar Benjamínsson hjá Iceland Unlimited.