Bolti besta nautið fætt 2009
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Bolti 09021 frá Birtingarholti í Hrunamannahreppi hlaut nafnbótina: „Besta naut fætt árið 2009“ en um það var tilkynnt á aðalfundi Landssambands kúabænda á Akureyri nýlega.
Ræktendur Bolta eru þau Fjóla Ingveldur Kjartansdóttir og Sigurður Ágústsson. Faðir Bolta er Spotti 01028 frá Brúnastöðum í Flóa og móðir hans er Skinna 192, móðurfaðir er Snotri 01027 frá Selalæk á Rangárvöllum.
Í umsögn um dætur Bolta segir að þær séu afburðakýr og hlutföll verðefna í mjólk í meðallagi, þær eru sérlega stórar og háfættar með mikla boldýpt og útlögur en yfirlínan fremur veik, malir sérlega breiðar, hallandi og flatar. Fótstaða þeirra er ákaflega sterk og góð, júgurgerð þeirra úrvalsgóð, vel löguð og sérlega vel borin með mikla festu og sterkt júgurband. Spenagerð er góð, þeir eru hæfilega stuttir og grannir og vel settir. Dætur Bolta eru góðar í mjöltum og skapið í meðallagi.